18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

149. mál, héraðsskólar

*Árni Jónsson:

Ég gat þess við 2. umr., að ég væri lítt fróður um málið og færi eftir umsögn mér kunnugri manna, en þar sem svo vel vildi til, að hv. flm. var form. menntmn., væru hæg heimatökin að fá allar upplýsingar, sem þyrfti. Ég taldi þá aðalbreytingu heppilega, að mjög yrði aukið hið verklega nám, en dregið nokkuð úr því bóklega. Að þessu leyti var ég frv. fylgjandi. Ég gat þess, að í frv. væru ákvæði, sem snertu nokkuð hag kennarastéttarinnar, og bað um upplýsingar því viðvíkjandi, hvort kennarastéttin stæði að þessu frv. Eftir þeim upplýsingum, sem n. fékk, varð ekki annað séð en að kennararnir mundu ekkert hafa við það að athuga og taka því fegins hendi.

Mér kom þess vegna mjög á óvart, þegar Alþingi barst skeyti, þar sem allt annað varð uppi í teningnum. Frá kennurum stærsta héraðsskólans barst í fyrradag símskeyti það, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Okkur kennurum héraðsskólans á Laugarvatni hefir borizt í hendur frv. til l. um héraðsskóla, ásamt grg. Þar sem þetta mál snertir okkur öðrum fremur, leyfum við okkur að skýra hinu háa Alþingi frá áliti okkar um það. Sérstaklega viljum við vekja athygli Alþingis á því, að þar sem frv. krefst þess, að við vinnum í þjónustu skólans þann tímann, sem hann starfar ekki, er okkur gert ókleift að sinna nokkrum öðrum störfum. Nú er launakjörum okkar þannig háttað, að flestir okkar hafa orðið að nota sumartímann að nokkru leyti til þess að sjá sér farborða. Það er sérstaklega tilfinnanlegt að vera sviptur þessum möguleikum á þessum tímum, þegar allar nauðsynjar eru að hækka í verði. Auk þess höfum við verið ráðnir hingað aðeins til að kenna, og það hlyti að koma harðast niður á kennslu okkar og nemendum, ef okkur gefst ekki tími til að auka menntun okkar og halda okkur andlega vakandi. Í grg. frv. er þannig að orði komizt, að þetta sé gert til þess, að kennarar skólanna ráfi ekki um eins og skuggar á sumrin og verði leiðir á lífinu. Við getum ekki séð, að slík hætta sé á ferðum með okkur, þar sem við höfum allir haft einhver störf með höndum í sumarleyfinu, ýmist andlega eða verklega. Auk þess hafa flestir okkar farið utan og dvalið við erlendar menntastofnanir í sumarleyfunum. Með þessu frv. er með öllu skotið loku fyrir slíkt. Ennfremur viljum við benda á það, að Laugarvatnsskólinn er eini skólinn, sem rekur bú og getur veitt kennurum verkefni á sumrin. Af grg. verður ekki annað séð en þeim kennurum, sem þegar hafa bú á skólajörðum, t. d. í Reykholti, verði leyft að stunda þann atvinnurekstur framvegis. Og væri það allmikið misrétti, ef kennurum sumra skólanna væri leyft að stunda frjálsa atvinnu, en kennurum annara skóla meinað slíkt. En hinsvegar teljum við æskilegt, að skólar þeir, sem ráða yfir einhverri atvinnu, láti kennara skólanna sitja fyrir henni, að öðru jöfnu, en þó einkum, að þeir eigi kost á landi til ræktunar, ef þeir vilja stunda garðrækt eða smábúskap. Að öllu þessu athuguðu viljum við skora á hið háa Alþingi, að það láti í engu ganga á rétt okkar kennara við héraðsskólana, enda mun það einsdæmi, að skólanefndir eða skólastjórar geti skipað kennurum til hverra verka sem þeim sýnist, utan skólatíma. Er okkur ekki kunnugt um, að slíkt fyrirkomulag sé í nokkru lýðfrjálsu landi, hvað sem tíðkast kann í Rússlandi eða Þýzkalandi. Auk þess er margt í meðferð málsins og efni frv., sem er aðfinnsluvert. Sjálfsagt er, að afgreiðslu frv. á Alþingi sé frestað, svo að skólanefndum og kennurum skólanna gefist kostur á að láta álit sitt í ljós um nýjungar þess, áður en það er samþykkt.

Laugarvatni, 16. des. 1939.

Guðmundur Ólafsson, Bergsteinn Kristjánsson, Þórður Kristleifsson, Björn Jakobsson,

Ólafur Briem, Ragnar Ásgeirsson.“

Þetta skeyti kemur algerlega í bága við það, sem haldið var fram, að frv. mundi ekki sæta aðfinnslum frá kennurum, þótt það gengi fram óbreytt. Nefndinni hafa verið gefnar rangar upplýsingar.

Nú hefir hv. flm. ofurlítið reynt að bæta úr þessu með brtt. á þskj. 486. En mér finnst þær upplýsingar, sem skeytið gefur, benda til þess, að málið sé ekki eins vel athugað og látið er í veðri vaka við nefndina og að fleiri mótmæli eigi eftir að koma úr kafinu. Þegar af þeim ástæðum er full ástæða til að hefta framgang frv. að sinni. Ennfremur skortir gögn um það, hvernig þeir menn, sem eiga að halda skólunum uppi, mundu taka þessum breytingum. Óstaðfest ummæli vil ég ekki taka gild um það lengur, frekar en um hitt.

Við 2. umr. beitti ég mér aðeins gegn einu atriði frv.; ég vildi ekki, að þeim auknu byrðum væri bætt á ríkissjóð að greiða ¾ af stofnkostnaði skólanna í stað ½ áður, enda var ekki einu sinni upplýst með vissu, hve miklu fé þetta næmi. Mér fannst þetta brjóta í bág við þá stefnu, sem uppi er nú í þinginn, og ekki sízt þá, sem hv. flm. gengst fyrir, í orði kveðnu. Nú endurtek ég spurning mína: Hve mikil aukin útgjöld mundi leiða af þessu fyrir ríkissjóð? Ég vildi fá nákvæma sundurliðun og ýtarlegar áætlanir um þessi efni. Ekkert slíkt liggur fyrir. Hinsvegar hefir hv. flm. gert brtt. við 13. gr. um nýtt viðbótarákvæði, sem á að tryggja, að tillag ríkissjóðs sé notað til bygginga og umbóta. Ég vil benda honum á það, að brtt. stingur í stúf við sjálfa 13. gr., eins og hann hefir hana í upphafi. Meðan ekki er fellt úr gildi upphaf gr., að ríkissjóður taki þátt í stofnkostnaði skóla, hvers eðlis sem sá kostnaður er, hefir þessi brtt. enga þýðingu. Ég sé því ekki ástæðu til, að hún nái hér samþykki.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Áðan var verið að ræða um það hér í þd. að stofna brúasjóð, því að nú er svo komið — eftir að Skjálfandafljótsbrúin var reist, eins og hv. flm. má vera kunnugt um, önnur stórbrúin á fáum árum yfir það vatnsfall, — að það fæst ekki fé í nokkra stórbrú á Íslandi, svo að einstakir þm. neyðast til að fara fram á að stofna sérstakan sjóð í þeim tilgangi. Þetta gefur nokkuð til kynna, hvernig ríkissjóður er staddur. Því að enginn ágreiningur er um það, hver nauðsyn er að brúa ýmis vötn, og ekki sízt þau fljót í Skaftafellssýslu, sem hv. 2. þm. N-M. nefndi. Þá þykir mér það hart, að hv. flm. skuli nú fara fram á stórauknar greiðslur úr ríkissjóði og geta ekki einu sinni upplýst, hve miklu þær nema.