21.12.1939
Neðri deild: 89. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

149. mál, héraðsskólar

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Mér þykir hlýða að segja nokkur orð um þetta frv., með því að ég hefi í menntmn. þurft að taka afstöðu til þess, bæði fjárhagsatriða og skipulags, farið yfir það og kynnt mér það dálítið.

Ég vil þá byrja með því að benda hv. þdm. á grg., sem fylgir þessu frv., að þeir lesi hana sér til skemmtunar, þótt ekki væri annað. Það má draga af henni ýmsar ályktanir. Ég hefi getað leitt af henni tvær ályktanir. Þessum stofnunum,. héraðsskólunum, hefir verið komið upp meira af kappi en forsjá, þegar í það var ráðizt á árunum. Það virðist koma í ljós af grg. þessa frv., að hvorttveggja þurfi breyt. við, bæði kennslan í þeim og sá fjárhagsgrundvöllur, sem þeir voru reistir á. Það er mjög sterkt að orði kveðið í grg. frv., t. d. þessi orð: „Allir héraðsskólar eru nú í tilfinnanlegum skuldum, og geta hinir smærri alls ekki haldið við byggingum og munum svo sem vera ætti, auk þess, verður að koma veruleg breyt. á fyrirkomulag skólanna.“ — Nú verður að segja það, að mér sýnist, að þessar breyt. hljóti að ganga í rétta átt yfirleitt. Þess vegna má nú að vísu fagna framkomu þessa frv., er var flutt í hv. Ed. af þeim hv. þm., sem mest hefir komið við sögu þessara héraðsskóla. og stóð þar í mjög mikilli baráttu og stímabraki út af þeim málum. Hann fékk fyrir það mikla gagnrýni úr ýmsum áttum, og það kemur nú í ljós, að sú gagnrýni hefir að miklu leyti verið réttmæt á sínum tíma. Við því er ekki annað en gott að segja, að hann hefir lært af reynslunni og vill reyna að koma því í betra horf, sem miður fór. Það hefði að sjálfsögðu verið mikill kostur, að þetta frv. hefði komið fram svo tímanlega, að það hefði mátt senda það skólastjórum og skólastjórnum héraðsskólanna til athugunar og umsagnar, en þess er nú ekki völ. En þá er bótin, að hægt er að fá upplýsingar hjá formanni menntmn., sem er líklega allra manna fróðastur um þessi mál, þar sem hann er sjálfur forstjóri stærsta héraðsskólans. Mér þykir líklegt, að við það megi hlíta. Ég trúi því, að e. t. v. hefði mátt taka fyllra tillit til sérstöðu hinna einstöku héraðsskóla en hér er gert í frv. Það getur vel hugsazt að ekki henti alveg hið sama í öllum skólunum, og þá finnst mér sjálfsagt að taka tillit til séróska þeirra, ef einhverjar eru. En ég vil ekki leggja neitt sérstakt kapp á þetta atriði, því ég hygg, að þeir menn, sem fjallað hafa um þetta mál, séu því allra manna kunnugastir, en það eru hv. form. menntmn. og fyrrv. fræðslumálastjóri. Enda kemur þetta í ljós seinna, því nú á bæði að breyta kennslufyrirkomulaginu og fjárhagsgrundvelli skólanna.

Hvað kennslufyrirkomulagið snertir, þá held ég, að þeir, sem eru þessum hnútum kunnastir megi vera einráðir um, hvað hentar bezt í þeirra héraði, og ég verð að segja, að ég tel rétt að breyta kennslunni í hagnýtari átt en verið hefir, eins og gert er með þessu frv. Það hefir að vísu aukinn kostnað í för með sér að breyta þannig um kennsluhætti, og er það líka á þeim grundvelli, sem frv. fer fram á, að fjárframlag ríkissjóðs hækki. Sérstaklega eykst kostnaðurinn vegna aukinnar verklegrar kennslu, enda farið fram á, að lagðar verði 25 kr. með hverjum nemanda, sem skólana sækir. Við þessu hefi ég ekki annað að segja en það, að ég tel réttlátt, að ríkissjóður hjálpi til við þessa breyt. á fyrirkomulagi kennslunnar, þar sem hún verður mjög kostnaðarsöm.

Ég hefi verið að vonast eftir svari við öðru veigamiklu atriði í sambandi við frv. Það er, hve mikinn kostnað það hefir í för með sér, ef það er samþ. Í 13. gr. frv. er gert ráð fyrir, að ríkið leggi fram ¾ hluta stofnkostnaðar skólanna, en hingað til hefir það veitt helming hans. En það er ekki vitað með vissu, hve allur sá stofnkostnaður er mikill. Það á að skipa nefnd til þess að finna þessa fjárupphæð og gera grein fyrir, hve stofnkostnaðurinn er samtals, en ég verð að segja, að mér þætti betur fara á því, að Alþingi vissi, hvaða bagga það tekst á herðar með því að hækka stofnkostnaðarframlag ríkissjóðs úr helmingi í ¾ hluta. Það er um 7 skóla að ræða, sem allir eru miklar og fínar byggingar, svo það er ekki óverulegt atriði, hverju stofnkostnaðurinn nemur. Þá er það ekki upplýst, að skólarnir geti ekki staðið undir þeim skuldum, sem á þeim hvíla. Það hefir tekizt til þessa, e. t. v. með nokkrum erfiðleikum, að halda jafnvægi í reikningum þessara skóla og láta tekjur þeirra nægja fyrir öllum kostnaði, þar á meðal kostnaði af þeim lánum, sem hvíla á stofnununum. Við höfum fengið skýrslu um þau lán, sem á skólunum hvíla enn, og muna þau vera samtals um 100 þús. kr., en það segir ekkert um, hver stofnkostnaður skólanna er samtals. Þess vegna er ekkert komið fram, jafnvel nú við næstsíðustu umr. málsins í þinginu, um það, hvað Alþingi tekur á sig mikinn kostnað með því að samþ. frv. Það hefir ekki heldur verið gerð grein fyrir rekstrarkostnaði skólanna, til þess að vita megi, hvort einhverjir þeirra eða allir geti ekki annazt sjálfir kostnaðinn við byggingar og kaup á áhöldum til verklegrar kennslu. Mér þykir betur fara á því, að Alþingi ákveði ekki að hækka framlag sitt fyrr en þetta er vitað og fyrir liggur nánari grg. um það, hvernig rekstur skólanna gengur árlega og hver sá stofnkostnaður er, sem hér á að fara að greiða hluta af til viðbótar úr ríkissjóði.

Ég hefi hugsað mér að flytja skrifl. brtt. við 3. umr. við 13. gr., um stofnkostnaðarframlagið, svo að ekki verði a. m. k. tekin ákvörðun um þetta að þessu sinni, áður en fyrir liggur nákvæmari grg. um það, hve mikil útgjaldaaukning þetta verður fyrir ríkissjóð.

Ég fellst á það með hv. form. menntmn. Nd., að það sé óeðlilegur grundvöllur, sem þessir skólar hafa verið reistir á í byrjun, eins og t. d. það, að til þessa hefir Árnessýsla borgað tugi þúsunda til skólans á Laugarvatni, en nýtur hans ekki að sama skapi, þar sem aðeins lítill hluti nemendanna er úr sýslunni og skólinn því meira fyrir alla landsmenn en Árnessýslu. Að þessu leyti kemur í ljós, að grundvöllurinn fyrir fyrirkomulaginu hefir verið alrangur, að sinu leyti eins fjárhagslega og kennslufyrirkomulagið var það, sem nú á að breyta.

Annars vildi ég aðallega boða brtt. þá við 13. gr., sem ég mun bera fram.