22.12.1939
Neðri deild: 90. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Fyrir liggja nú nokkrar brtt., og eru 3 af till. um nýjar skólastofnanir.

Í sjálfu sér er ekki gott um það að segja, hvort allir þessir skólar mundu vera fullir af nemendum, ef þeir væru til. Það getur vel verið. Íslenzk æska er fús til skólagöngu og náms, svo vel má vera, að skólarnir fyllist, þó þeim fjölgi, svo það getur vel hugsazt, að það sé ástæða til fyrir velviljaða skólamenn að gera tillögur um skólastofnanir. Þó finnst manni þetta nokkuð langt gengið. Ég man eftir því, þegar breytt var héraðsskólalögunum og Reykholtsskólinn og Varmahlíðarskólinn voru teknir inn sem væntanlegir héraðsskólar, kom til mála, að Reykhólar væru einnig tekinn inn sem væntanlegur héraðsskóli, og þá voru þingmenn yfirleitt þeirrar skoðunar, að tæplega kæmi til mála að fjölga skólum á vesturhluta landsins umfram það, sem orðið var. Við höfum þar nú 3 skóla, þar sem eru Núpsskóli, Reykjanesskóli og Reykjaskóli í Hrútafirði, svo koma húsmæðraskólarnir og Reykholtsskóli. Þó vil ég alls ekki fullyrða um það nema nemendum fjölgaði, sem sæktu slíka skóla, en tæplega samt svo, að hægt væri að fylla í þessum landshluta 2 skóla í viðbót. Því ber ekki að neita, að staðurinn, sem hv. þm. Snæf. minnist á, er frægur sögustaður, en hitt, að skilyrði þar eru ekki svo æskileg sem skyldi um skólasetur, mælir, að ég held, sérstaklega á móti því, að sú till. verði samþ. Eins er um Reykhóla. Þeir hafa ekki nægilega kosti sem skólasetur.

Ég hefi ekkert látið uppi um það, hvort ég væri sérstaklega hlynntur till. um skóla í Rangárvalla- og Skaftafellssýslum, en það er augljóst, að í samanburði við fólksfjölda er minni skólakostnaður á Suðurlandsundirlendinu heldur en annarsstaðar á landinu. Þar er t. d. enginn húsmæðraskóli, nema einn lítill einkaskóli í Ölfusinu, en á Norður- og Austurlandi eru líka húsmæðraskólar fyrir utan hina skólana. Eini skólinn á Suðurlandi, sem getur tekið á móti nemendum, er Laugarvatnsskólinn, en ég efast um, að hann fullnægi kröfum héraðsins. Ég er þess fullviss, að ef skóli væri í Rangárvallaeða Skaftafellssýslu, mundu fleiri sækja hann. Hv. 2. þm. Rang. vísaði til flm. og mín, að við værum hvorugur andvígur þessu. Ég mun ekki fjandskapast við þessa till. frekar en aðrar, sem koma fram, en tel það ekkert vit að samþ. nú 3 nýja héraðsskóla til viðbótar því, sem áður hefir verið.

Í till. um skóla á Snæfellsnesi kemur ekki fram, að sá skóli skuli vera á Helgafelli. Í sambandi við skólastofnun fyrir Rangárvalla- og Skaftafellssýslu er vert að geta þess, að þeir höfðu á sínum tíma lögum samkv. leyfi til þess að stofna skóla, og var þá allmikið rætt um þetta mál og hefir verið þrisvar sinnum leitað álits atkvæðisbærra manna um, hvort þetta ætti að koma til framkvæmda, en ekki komið fram nógur áhugi til þess, að fullnægjandi atkvgr. fengist. Má vera að áhuginn sé til þrátt fyrir það. Ég vil biðja hv. þm. að athuga þetta og ætla ekki að fara að lengja mál mitt um þessi atriði, því ég býst ekki við að hafa þau rök á takteinum, sem geti breytt þeirri skoðun manna, sem þeir hafa myndað sér. Ég vænti þess, að hv. þm. ætli ekki að fara að gera því frv., sem hér er fram komið, neinn bjarnargreiða, og að þessar till. séu ekki settar fram til höfuðs því. Annars er það vitanlegt, að hægt er að eyðileggja mál á síðustu stundu, því þau verða oft ekki aðgengileg eftir að búið er að samþ. við þau ýmsar breytingar.

Vildi ég nú víkja að brtt. við 2. málsgr. 3. gr. Ég held, að flm. hennar skilji í raun og veru ekki, hvað hér er um að ræða. Ég held, að þeim sé ekki ljós sú nauðsyn, sem það er fyrir slíkt nám, að íslenzkukunnátta sé í góðu lagi. Ég tel, að það verði að setja lágmarkskröfur, sem þeir verða að uppfylla, er vilja njóta kennslu í erlendum tungumálum við héraðsskólana. Það er misskilningur, að þetta sé sett til höfuðsmálalærdómi og til þess að eyðileggja hann. Þeir geta fengið að læra mál, sem vilja og eru hæfir til þess. Ég get fullvissað þingmenn um, að fjöldi nemenda í þessum skólum, sem ekki hafa fengið aðra menntun en barnaskólamenntun, eru alls ekki færir um að lesa erlend tungumál, og þeim tíma, sem í það fer, er heldur illa varið. Það gæti líka farið svo, að fyrir þetta skilyrði legðu menn meira kapp á að læra heldur betur sitt eigið móðurmál en hingað til hefir verið.

Það kom fram í umr., að þingmenn telja, að hér sé verið að bægja öllum fjölda nemenda frá tungumálanámi, og var vitnað í landskunna gáfumenn, hvernig hefði farið fyrir þeim, ef þeir hefðu ekki notið tungumálakennslu. Þessi dæmi áttu ekki við, því þeir hefðu áreiðanlega fengið aðgang að málakennslu í skólanum. Það er ekki rétt að miða við próf, þegar komið er í skólann. En kennarinn sér strax, hvort lélegt próf er fyrir hæfileikaleysi eða skort á góðum undirbúningi. Ég tel ákvæði frv. betri en brtt., en í báðum tilfellum geng ég út frá því, að fræðslumálastjórnin setji reglur um, hverjir skuli koma til greina.

till., sem skiptir mestu, er frá hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Sk., við 13. gr., um það, að í staðinn fyrir að gert er ráð fyrir í frv., að ¾ kostnaðar séu greiddir úr ríkissjóði, þá verði tekið upp ákvæði eins og í gildandi lögum um, að það sé helmingur. Þetta frv. verður til gagns

eða ógagns fyrir skólana aðeins eftir því, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki. Ég tel ekkert vit í að samþ. þetta frv. og gera það að lögum með þeim auknu skyldum og tilslökunum, sem það gerir ráð fyrir, nema fast ákvæði sé til fyrir því að bæta fjárhag skólanna. Væri það því hinn mesti bjarnargreiði að fá þetta frv. lögfest og samþ. till hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Sk., og vil ég vænta þess, að á þetta verði litið með þeirri sanngirni, að þessi brtt. verði felld. Það er að mörgu leyti rétt, sem hv. þm. sagði, að það er óvíst, hversu mikið verður lagt á ríkissjóð af skólum, en ég færði nokkur rök fyrir því í ræðu minni við 2. umr. þessa máls, sem voru í aðalatriðum þau, að margir af þessum skólum og flestir væru raunverulega ekki héraðsskólar, og aðeins nokkur hluti nemenda þeirra, sem sækti skólana, væri úr héraðinu sjálfu. Í skóla þann, sem ég starfa við, hefir Árnessýsla lagt 60–70 þús. kr., og átti hún að leggja helminginn, en hinsvegar á sýslan ekki nema ¼ af nemendum skólans. Í Laugarvatnsskóla er ¾ nemenda hvaðanæva af landinu. Allmargir úr Reykjavík og yfirleitt alstaðar að, og sést á þessu, hve réttlát sú krafa er, að ríkissjóður kosti byggingu skólanna að langmestu leyti, en ekki einstök héruð.

Ég vil þá rifja upp fyrir hv. þm. aftur, að samkv. því, sem við höfum fengið upp, eru skuldir héraðsskólanna um 400 þús., og af því er búið að greiða ¼ í stofnkostnað. Ríkissjóður þyrfti ekki að leggja út alla skuldina, en aðeins að taka að sér nokkurn hluta hennar, því skólarnir skulda það mikið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en vænti þess, að hv. þdm. leiði þetta mál farsællega til lykta.