14.04.1939
Efri deild: 39. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

22. mál, tollskrá

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. hefir haldið allmarga fundi um þetta mál, lesið þetta langa frv. og gert sínar aths. við það. Á fundum með fjhn. hefir verið ritari milliþn. í tolla- og skattamálum, Sigtryggur Klemenzson lögfræðingur. Það þótti og hentugt, að fjhn. Nd. sæti með á fundum, svo að yfirferðin yfir frv. gæti komið þeirri n. að gagni líka. Það er þó svo, að brtt. eru vitanlega bornar fram af fjhn. þessarar d., og nm. úr fjhn. Nd. munu svo bera fram sínar brtt.

Brtt. n. eru prentaðar á þskj. 139. Þær eru að vísu nokkuð margar, en flestar smávægilegar og engar þeirra um nein grundvallaratriði, svo að í raun og veru leggur n. til, að málið verði afgr. óbreytt í aðalatriðum.

Fyrstu 2 brtt. eru við 1. kafla frv., að nr. 5 verði orðað um, og sömuleiðis, að á eftir nr. 10 verði bætt inn lið, sem ekki skiptir miklu máli, en er rétt að taka með. — Þá er brtt. í 5 liðum við 3 kafla, að í stað 1–3 í kaflanum komi 5 liðir. Það er vegna þess, að það, að leggja þennan toll á nýja síld og nýjan fisk, mundi vera nýmæli, sem gæti rekizt á samninga við önnur ríki og á þá framkvæmd, sem verið hefir á fiskiveiðalöggjöfinni. Við skulum taka til dæmis, þegar samningur er gerður um, að Norðmenn megi leggja á land síld. Þetta mundi vera talið brot á slíkum samningi, ef svo ætti að taka hinn háa toll. Það hefir líka verið litið svo á, að eftir fiskiveiðalöggjöf vorri sé ekki hægt að meina skipum að leggja á land úr einum túr, og er sá fiskur tollfrjáls. Það er líka lítil hætta því samfara, að hafa nýja síld og nýjan fisk tollfrjálst. Á hinn bóginn er engin ástæða til að leggja ekki toll á þessa vöru, þegar hún er tilreidd á annan hátt, ísvarin, fryst, þurrkuð eða reykt. Þessi brtt., sem er ein af þeim merkari, er bara til að halda óbreyttu því ástandi, sem verður að vera áfram.

4. brtt. er við 7. kafla, nr. 1., þ. e. a. s. kartöflutollinn. Mþn. hafði ákveðið hann 7 aura þungatoll á hvert kíló. Okkur var ljóst, að þetta yrði nokkur hækkun, og n. fékk upplýsingar hjá grænmetisverzlun ríkisins um, að þessi hækkun mundi vera allveruleg. Þetta fer dálítið eftir verði og fragt, en lætur nærri, að meðaltal verði þannig, að sé svipað og nú er. Þetta getur eftir verzlunarháttum munað dálitlu. N. lét stjórnast af því einu, að leitast við að halda þessu verði sem minnst breyttu. Sumir gætu hugsað sér að hafa allmikinn verndartoll á kartöflum, en þá kom annað til greina þar á móti, að kartöflur eru ekki ræktaðar nægilega mikið handa öllu landsfólki, en eru hinsvegar mikil nauðsynjavara. — 5. brtt. er afleiðing af hinni.

Þá er 6. brtt. Hún er ekki annað en umorðun, og þarf ég ekki að fjölyrða um hana.

7. og 8. brtt. eru í raun og veru líka bara betra orðalag. Eins og menn sjá af tollskránni, er sett N á eftir þeim vörutegundum, þar sem reiknað er af nettóþyngd vörunnar, og ef N er sett á eftir öllum vörutegundum í 22. kafla, þarf ekki annað. Það kemur fram í 8. gr. frv., og má þá spara aths.

Næst er 9. brtt., um hækkun á vindlatolli. Menn skyldu nú ætla, að það væri óþarfi, en tóbakseinkasala ríkisins hefir bent n. á, að lækkunin úr kr. 22,40 á kg í kr. 22,00 rækist á álagninguna, sem er á þessari vöru. Álagningin var í hámarki, svo að lækkunin í 22 kr. hefði haft í för með sér lækkað verð. N. varð við óskum tóbakseinkasölunnar að setja tollinn í 25 kr., sem að vísu kynni að leiða til þess, að verð á vindlum hækkaði, en verð á vindlum er ekki eins hátt og verð á sígarettum, og er vel hægt að fallast á, að eigi að vera samræmi þar á milli.

10. brtt. er um mikilsverða vörutegund, nefnilega sement. Eftir þeim reglum, sem mþn. fór eftir, þegar hún jafnaði tolltaxtana, hefði sementið átt að fara upp í 100 aura, en það var allt of hátt, svo að það var sett í næstu tölu við, nefnilega í 7 úr 6,7. Aftur á móti var verðtollurinn, sem áður var 8,96, settur í 8, en það er mikill vafi um þessa vöru, vegna þess hve erfitt er að reikna út fob-taxta í cif-taxta. Eins og ég skýrði frá við 1. umr., aflaði n. sér upplýsingar um meðalfragttaxta, og er ekki fjarri sanni að leggja til grundvallar fragttaxta Eimskipafél. frá Kaupmannahöfn. En þegar nú kemur vara eins og sement, er allt erfiðara, því að fragtin er svo mikill hluti af verðinu. Fjhn. fannst mþn. hafa sett vörumagnstollinn of háan. Þess vegna ákvað hún að bera fram brtt. um, að hann yrði 55 aurar. Það var eingöngu gert með tilliti til þess, að hann sé eins nærri núverandi tolli og hægt er. Það fer eftir ástæðum, hvort tollurinn verður hærri eða lægri, en það munar aldrei því, að verulegu máli skipti fyrir byggingar.

Þá er 11. brtt., og er bara venjuleg tilfærsla. Beinkol eru felld niður og tekin upp í 12. brtt. við 30. kafla.

13. brtt. er við 30. kafla. Hún er borin fram vegna þess, að n. fékk upplýsingar um, að litir

þeir, sem um ræðir, væru stundum fluttir inn þurrir, og er því rétt að sleppa fyrirsögninni: Votir litir. Tolltöxtunum er haldið, svo að þetta er einungis breyt. á formi.

14. brtt. er við 32. kafla, um véla- og vagnáburð. Þar er verðtollurinn lækkaður með tilliti til þess, hvað hér er um nauðsynlega vöru að ræða og mikið notaða.

33. kaflinn er um ostaefni. Þar er smávægileg brtt. Mþn. ákveður verðtollinn 8, en fjhn. hefir fært hann upp í 15, og er það nokkurskonar verndartollur. Hér er um að ræða efni, sem hægt er að nota í ýmislegt og væri eflaust hægt að framleiða hér á landi.

Þá er brtt. fjhn. nr. 16, við 37. kafla nr. 8 og 9, er orðist svo: Nr. 8 Allskonar töskur, veski, buddur og hylki, ót. a. Vörumagnstollur 7 aurar. verðtollur 50%. Nr. 9. Skrifmöppur og bókabindi, ót. a. vörumagnstollur 7 aurar. Verðtollur 50%, í stað 70%, er í frv. sjálfu stendur. Hér er um allmargar vörutegundir að ræða, og mestur hluti af þeim, er búinn til í landinu sjálfu. Þótti fjhn. ekki ástæða til að setja 70% verðtoll á þessar vörur. Svo afarmikill verðtollur á þær tel ég, að ekki komi til mála. Verðtollur á að miðast að miklu leyti við það, hvort um þarfar eða óþarfar vörur er að ræða, og sumt af því, sem talið er undir þessum lið, eru nauðsynlegir hlutir, og allmikið innlend framleiðsla, svo að afarhár verðtollur á þeim yrði sennilega til þess eins að hækka verð á innlendum vörum.

Þá er 17. brtt. frá fjhn., sem er aðeins orðabreyt., sem sé að í stað fyrirsagnarinnar –gúmmífatnaður, nema skófatnaður við nr. 16–18 í 39. kafla komi: kátsjúkfatnaður, nema skófatnaður.

Alveg sama er að segja um 21. brtt., að þar er aðeins um orðabreytingu að ræða, sem sé þá, að í stað gúmmí komi kátsjúk, því að lærðir menn segja, að hið síðarnefnda sé víðtækara orð og því réttara að nota það.

18. brtt. er, að í nr. 2 og 3 í 40. kafla falli niður „ót. a.“ Það var vegna þess, að við þá breyt., er gerð var, urðu þessi orð óþörf, og n. leggur til, að þau falli niður.

19. brtt. er við 45. kafla nr. 5, er orðist svo: Teiknibækur handa börnum með eða án texta. Mþn. hafði lagt til, að verðtollur af þeim yrði 35%, en fjhn. leggur til, að verðtollurinn verði lækkaður niður í 10%, því að þetta má telja til kennsluáhalda.

Næsta brtt., nr. 20, er við 52. kafla nr. 38 og er í samræmi við þá brtt., er var gerð við 37. katla nr. 8 og 9, sem sé að af bréfaveskjum, skrifmöppum, bréfamöppum, bréfabindum skjalatöskum, kventöskum og öðrum þvílíkum veskjum, bréfum og skrínum verði verðtollurinn lækkaður úr 70% niður í 50% og fyrir því eru þær sömu ástæður, sem ég gat um áðan.

Um 22. brtt., við 58. kafla nr. 17, er það að segja, að n. leggur til, að hann orðist svo: Vegg- og gólfflögur, svo og þakhellur. Þetta eru hagnýtir hlutir, sem eru allmikið notaðir við byggingu steinsteypuhúsa, og þótti þess vegna rétt að setja þakhellur í sama flokk sem vegg- og gólfflögur.

Þá er 23. brtt. við 60. kafla nr. 16. Þar eru taldar mjólkurflöskur, 1 l. og ½ l. N. leggur til, að mjólkurflöskur yfirleitt verði í þessum lága tolli, og býst ég við, að menn muni yfirleitt geta fallizt á það.

Næsta brtt., nr. 24, er, að 63. kafli nr. 25 orðist svo: Mjólkurbrúsar og aðrir brúsar og lok á þá, stærri en 10 l., — og á að lækka verulega toll af þeim. Mjólkurbrúsar eru ekki búnir til hér á landi, og þeir eru alldýrir og ganga mikið úr sér. Þess vegna munar það allverulegri fjárhæð fyrir mjólkurframleiðendur, ef þeir þurfa að borga af þeim háan toll, og fjhn. leggur því til, að verðtollur af þeim verði lækkaður niður í 2%.

Þá er 25. brtt. nr. 86 um blikkdósir og kassa, ef þeir eru málaðir, áletraðir, lakkaðir eða skreyttir, verði vörumagnstollur 7 aurar og verðtollur 20%, annars verðtollur 15%. Fjhn. var bent á það, að þetta væri talsverð lækkun á verðtolli, og þar af leiðandi minnkaði sú vernd, sem innlend dósagerð nyti. N. féllst á þetta og færði verðtollinn upp í 20%, sem nærri því er eins og áður. Fjhn. þótti ekki ósanngjarnt að veita þessum iðnaði þessa vernd.

Þá er 26. brtt., við 72. kafla nr. 2 og 3, sem eru um saumavélar og prjónavélar og hluta til þeirra. Mþn. um skatta- og tollalöggjöfina hafði sett 8% verðtoll á þessa hluti, en fjhn. taldi rétt, að verðtollurinn af þessum hlutum yrði aðeins 2%. Þessi breyt. getur þó orkað nokkurs tvímælis. Allmikið af sauma- og prjónavélum er notað í verksmiðjum og vinnustofum, og flestar þeirra myndu vel geta borið þennan toll, en hinsvegar er ekki unnt að greina þær sauma- og prjónavélar frá hinum, sem ætlaðar eru til heimilisnotkunar, því að sannleikurinn er sá, að saumavél verður að vera til á hverju heimili, og það er mjög gott að prjónavélar séu á sem flestum heimilum. Hinsvegar eru þetta dýrir hlutir, einkum prjónavélarnar. Þessi lækkun verðtollsins mun áreiðanlega verða til þess að létta undir með þeim, sem vilja útvega sér þessar vélar, og þetta mun því ekki verða óvinsæl brtt.

Næst kem ég að 27. brtt., sem er, að á eftir nr. 30 í 72. kafla komi nýr liður, sem verður nr. 31, og breytist þá auðvitað tölusetning næstu liða í samræmi við það. Þessi liður nr. 31 er að á kúlu- og keflalegum verði vörumagnstollur 2 aurar og verðtollur 8%. Það er dálítið vandasamt við þetta að eiga, því að kúlulegur eru notaðar í ákaflega marga og mismunandi hluti, að ég held, og er ég þó enginn fagmaður á því sviði. Kúlulegur eru notaðar í lítt þarfa hluti, sem lítil ástæða er til að hlífa við háum verðtolli, svo sem reiðhjól, en þær eru líka notaðar í ýmsa mótora, sem eru nauðsynlegir og menn mundu gjarnan vilja hlífa við háum verðtolli, og þar sem mótorar eru þar að auki alldýrir, verður hár verðtollur tilfinnanleg byrði. Það mætti hugsa sér að leggja mismunandi háan toll á kúlu- og keflalegur, sem færi eftir því, í hvað þær eru notaðar í hvert skipti, en það myndi verða hér um bil ómögulegt að greina það með nokkurri vissu. Að vísu er unnt að sjá, hvort um stórar kúlulegur er að ræða, sem notaðar eru í stórar vélar, eða litlar kúlulegur, sem notaðar eru í barnavagna. En hinsvegar segja þeir, sem hafa fengizt við þessa hluti, að það sé ákaflega erfitt að greina sundur til hvers þær eru notaðar. Hér er um alveg sérstaka hluti að ræða, sem búnir eru til í sérstökum verksmiðjum erlendis, og þeir koma alltaf tilbúnir frá útlöndum. Fjhn. þótti því full ástæða til að setja þessa hluti á sérstakan lið í tollskránni. Töluvert er alltaf flutt inn af þessum vörum, einkum vegna stórra kúlulega, sem notaðar eru í mótora og ganga allmikið úr sér; hár tollur á þeim er því nokkuð tilfinnanlegur fyrir þá, sem eiga mótora, og varla er unnt fyrir þá að komast hjá honum. Fjhn. valdi þá leið, að setja heldur lágan tolltaxta á þessa hluti í heild sinni. Auðvitað þori ég ekkert að segja um þetta sem fagmaður. en mér þykir næsta líklegt, að kúlulegur geti orðið mjög dýrir hlutir. Oft eru þær raunar hluti af stærri vélum, og eru þá taldar sem varahlutir til þeirra og koma þá undir þann lið í tollskánni, þar sem þessar eða hinar vélar eru taldar. En stundum getur verið, að þessar kúlulegur séu fluttar inn alveg sérstakar, og þótti fjhn. því nauðsynlegt, að þær væru tollaðar alveg sér.

Þá er 28. brtt., að á ettir nr. 46 í 72. kafla komi nýr liður, svo hljóðandi: Nr. 47. Sjálfvirk löndunartæki. Vörumagnstollur 2 aurar, verðtollur 8% Fjhn. þótti rétt að setja sérstakan tolltaxta á sjálfvirk löndunartæki. Hér mun vera átt við tæki til að landa síld í verksmiðjur, og fjhn. áleit varla hægt að setja þessi feikna stóru tæki undir nokkurn annan lið í tollskránni, — ef til vill væri helzt hægt að setja þau undir lyftur yfirleitt, en þó ekki lyftur til mannflutninga. Þessi tæki gætu þá lent í 7 aura vörumagnstolli og 8% verðtolli, en þar sem hér mun vera um þau miklu bákn að ræða, sem notuð eru við síldarverksmiðjurnar, þótti ekki annað rétt en að ákveða, að tollur af þeim skyldi vera nokkru lægri en af lyftum.

Þá er 29. brtt. við 73. kafla nr. 38, er orðist svo: — ræsar (gangsetjarar) allskonar og viðnám. Vörumagnstolíur 7 aurar, verðtollur 10%. Ég skal játa það, að ég veit ekki, hvað viðnám er. Ég hefi tekið það trúanlegt, að það sé réttasta orðið yfir þessa hluti, og þar sem rétt áður er talað um ræsa í sömu gr., tel ég, að þarna sé um hliðstæða hluti að ræða; mér þykir mjög sennilegt, að það séu bremsur, annars myndi það ekki vera sett undir þennan lið í tollskránni.

Þá er 30. brtt. við 73. kafla nr. 38, sem er smávægileg. Þar er farið fram á dálitla hækkun á tolli af hitunar- og suðutækjum, og þótti samræmi í að setja þetta hvorttveggja í sama lið í tollskránni og að tollurinn af þessum tækjum yrði jafnhár.

Þá er 31. brtt. við 73. kafla nr. 58, sem er gerð vegna iðnaðarins, að lækka verðtoll af vinnulömpum úr 30% niður í 10%, og er þetta sanngjörn till.

Ég held, að ég sé nú búinn að fara yfir allar brtt. fjhn. við 1. gr. frv. við 2. gr. eru engar brtt., en við 3. gr. eru nokkrar brtt. Fyrsta brtt. við 3. gr. er aðeins orðabreyt. Greinin orðist svo: Skylt er að endurgreiða aðflutningsgjöld af sykri og kryddi, sem notað er við verkun síldar til útflutnings, svo og aðflutningsgjöld af sykri, sem notaður er við verkun þorskahrogna til útflutnings. Eins og gr. var orðuð áður var hér aðeins um heimild að ræða. Þótt að vísu mætti segja, að það væri nóg, því að það lægi í hlutarins eðli, að skylt væri að gera það, þótti samt réttara að taka það skýrt fram. Sama er að segja um það, að endurgreiða aðflutningsgjöld af síld og skelfiski, sem inn er flutt til beitu, en þó hefir það aðeins verið orðað sem heimild, af því að annars yrði hér um endurtekningu á orðalagi að ræða.

Aðalbreyt. fjhn. er undir b-liðnum, og er þar um talsvert nývirki að ræða í þessu frv. Sú breyt. er flutt aðeins út frá þeim forsendum, að láta sömu reglur gilda um bifreiðar og bifhjól, sem erlendir ferðamenn flytja hingað til að nota hér um skamman tíma, sem gilda í mörgum af nágrannalöndum okkar. Það tíðkast nú meir og meir í öðrum löndum, að ferðamenn fari á bifreiðum sínum land úr landi, og hefir þess vegna orðið óhjákvæmilegt að setja sérstök lagaákvæði um notkun þeirra. Þetta er raunar ómögulegt hér á landi vegna legu lands okkar, því að land okkar er ekki áfast við önnur lönd á löngu svæði, eins og mörg önnur lönd eru, en þrátt fyrir það er rétt, að settar séu fastar reglur um bifreiðanotkun erlendra ferðamanna hér á landi, m. a. sett ákvæði til þess að tryggja það, að þessir ferðamenn — eða ökumenn þeirra — aki sjálfir bifreiðum sínum og hafi þær með sér til úflanda, þegar þeir fara þangað. Fjhn. þótti sjálfsagt, að settar verði fastar reglur um þessi efni og þar verði stuðzt við ákvæði í samskonar l. hjá öðrum þjóðum, er hafa meiri reynslu þar að lútandi.

Undir tölulið c. er brtt. um, að fjármálaráðuneytinu sé heimilt: Að heimta ekki aðflutningsgjöld af sýrum til votheysgerðar, sem inn eru fluttar af áburðarsölu ríkisins. Að vísu er ákaflega erfitt að leggja tolla á vörur eftir því, til hvers þær eru notaðar, og yfirleitt má segja, að alveg sé ómögulegt að vera viss um að einhver ákveðin vörutegund verði aðeins notuð í einum tilgangi og ekki til neins annars, en þó virtist fjhn. það mögulegt í þessu tilfelli, með því skilyrði, að þessi vörutegund yrði einungis flutt inn af áburðarsölu ríkisins, og væri þá leitazt við að sjá um, að sýrurnar yrðu aðeins notaðar til votheysgerðar, því að ætla má, að áburðarsala ríkisins hafi jafnan eftirlit með því, að kaupendur færi líkur fyrir því, að þeir noti þær til þess eins. Að vísu kynni að mega nota þær til fleiri þarfa, en þá þyrftu kaupendur að tilkynna áburðarsölunni það, svo að hún geti vitað það.

Ég bið afsökunar á því, ef ég hefi gleymt að geta um einhverja brtt. frá fjhn. Ég vil svo mælast til, að frv. verði samþ. með þessum brtt.