16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

22. mál, tollskrá

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Ég mun ekki gera frekari grein fyrir brtt. n. heldur en þá, sem gerð er í nál.grg. er stutt, og munu þm. kynna sér hana. N. leggur til, að frv. verði samþ. vegna þeirra höfuðkosta, sem því fylgja. Hér eru öll tollalög sett saman í einn bálk, bæði gömlu tollalögin og önnur viðskiptalög, sem nú gilda. Þetta veldur miklum þægindum fyrir þá, sem hafa framkvæmd tollalöggjafarinnar á hendi, og er líka þægilegra fyrir þá, sem hafa innflutning með höndum. Þá má segja, að það valdi ekki síður þægindum fyrir löggjafann að laga síðar það, sem miður kann að fara í tollalöggjöfinni.

Það liggur í augum uppi, að um svona lagabálka geta aldrei allir orðið sammála. Það má líka búast við, að þó að frv. sé rækilega undirbúið, kunni að felast í því gallar, sem ekki verða leiðréttir fyrr en þeir, sem framkvæmdina hafa með höndum, hafa sannfærzt um, að annað mætti betur fara. N. hafa borizt margar aths. frá ýmsum iðnfyrirtækjum, og hefir hún leitazt við að afgr. þessi erindi með einni till. Efni þessarar till. er það, að áður en næsta reglulegu Alþingi er lokið, megi endurgreiða tolla, ef það sannast, að hrávörur fyrir innlendan iðnað sæti lakari kjörum en fullunnin samskonar vara af erlendum uppruna. Ég held þessi breyt. n. megi sætta flesta þá, sem stunda íslenzkan iðnað, við afgreiðslu frv. eins og nú er.

Í frv. er aðallega gengið út frá vörumagnstolli og verðtolli. Þessir tollar hafa hvor sinn kost og standa vel hvor með öðrum. Það er ekki nema sanngjarnt, að verðtollur breytist við það, að innkaupsverð — og þá einnig fragt — eykst, því að ríkissjóður stendur sannarlega ekki fyrir utan allt, sem skeður í þjóðfélaginu. Þvert á móti vex útgjaldaþörf ríkisins við það, að allt verð hækkar. Þar má m. a. nefna skyldur ríkisins til þess að hækka laun starfsmanna sinna, þegar það verðlag, sem þeir hafa átt við að búa, hækkar. Ég treysti því, að ríkið verði sæmilega við slíku ákvæði. Það er ekki nema sjálfsagt, að reynt sé að sjá svo um, að ríkistekjurnar séu sem eðlilegastar og að þær fari hækkandi miðað við dýrtíðina.

Ég skal nú ekki fara neitt sérstaklega út í hvern einstakan lið þessa frv. eða þær brtt., sem fram eru komnar. Það liggur í augum uppi, að það má lengi deila um einstaka liði, og að miklu leyti er svona lagabálkur eins og þessi ekki aðallega viðfangsefni þingn., heldur fyrst og fremst milliþn. Þegar um það er rætt, hvort ríkið eigi að fá meiri eða minni tekjur af slíkum breyt., má halda mörgu fram. Ég býst við, að flestir muni telja, að eftir þessu frv. verði tekjurnar snöggt um meiri en verið hefir eftir eldri tollalögum. Það er mjög erfitt að áætla um slíkt; það getur skakkað hundruðum þús. Út í þá hluti skal ég ekki fara nánar hér, en það eitt er víst, að eftir öllu því ástandi, sem nú ríkir í heiminum, og að nokkru leyti á okkar landi, mun ríkið þurfa meiri tekjur á næsta ári en verið hefir hingað til.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. Þótt ýmislegt megi að því finna, hefir það slíka kosti í allri framkvæmd, bæði fyrir þá, sem innheimta tollana, og eins fyrir hina, sem eiga að greiða þá, að n. hefir orðið sammála um, að það beri að afgr. það á þessu þingi.