16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

22. mál, tollskrá

Finnur Jónsson:

Ég vil gera lítilsháttar aths. út af ræðu hæstv. viðskmrh. Hann virtist skilja 10. gr. frv. þannig; að hægt væri að beita henni á þá leið, að reikna toll af lægra flutningsgjaldi en raunverulega hefði verið greitt. Ég tel, að alveg vanti ákvæði um þetta í 10. gr. Með leyfi hæstv. forseta segir svo í 10. gr.: „Þó að greitt sé flutningsgjald, sem er undir almennu flutningsgjaldi, eða þó að greiddur sé annar sendingarkostnaður, sem er undir almennum sendingarkostnaði, skal allt að einu hið almenna flutningsgjald eða annar almennur sendingarkostnaður talinn í því tollverði, sem greiða skal af.“

Hér er alstaðar talað um hækkun flutningskostnaðar, en ekki lækkun. Ef það er ætlun hæstv. viðskmrh., að hægt sé að láta greiða toll af lægri flutningskostnaði en raunverulega þarf að greiða til sumra staða, þá þarf að bæta í frv. ákvæði á þá leið, að ef greitt hafi verið hærra en almennt flutningsgjald, þá skuli tollgreiðsla samt sem áður miðast við almenna flutningskostnaðinn.