27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

131. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimta o. fl. í Reykjavík

*Garðar Þorsteinsson:

Ég tel rétt að gera grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Ég skal lýsa því yfir, að ég er út af fyrir sig því samþykkur, að þessar breyt. verði gerðar á þessari löggjöf, og ég er líka samþykkur því, að þessi skipting fari fram á þessum embættum.

Það má að sjálfsögðu deila um, hvaða verkefni heyri undir hvern einstakan af þessum embættismönnum, því það hefir verið nokkuð sitt á hvað. En þeir menn, sem þetta snertir, hafa látið þá skoðun í ljós, að það fari bezt á því að hafa þetta svona.

Það var eitt ákvæði, sem vantaði inn í frv., þegar það kom frá hæstv. ráðh., að þessir embættismenn hefðu lögfræðipróf og fullnægðu þeim skilyrðum, sem sett eru til þess að geta gegnt dómarastörfum. Þannig kom frv. líka frá Ed. En eins og hv. frsm. hefir skýrt frá, þá hefir n. gert þá breyt., að þessir menn skuli fullnægja almennum dómaraskilyrðum. Frá þessu er þó gerð undantekning að því er snertir lögreglustjóra, að það megi veita ólöglærðum manni það embætti. Nú verður að telja það sjálfsagt, að allir þessir menn séu lögfræðingar. Það á að vera sjálfsögð krafa, því fyrir alla þessa menn hljóta að koma atriði, sem þarf lögfræðiþekkingu til að leysa úr.

Nú mun ráðh. að sjálfsögðu ekki nota þessa undanþáguheimild til þess að skipa ólöglærðan mann lögreglustjóra, án þess að sérstaklega standi á. Hinsvegar eru engin ákvæði í frv. um það, hvenær standi svo sérstaklega á, að ráðh. sé heimilt að nota undanþáguna.

Nú hefir það verið gamall síður hér á landi, sem því miður hefir þó breytzt í seinni tíð, að þegar slík embætti sem þetta losna, þá sé þeim slegið upp og mönnum veitt heimild til þess að sækja um þau. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann vilji lýsa því yfir á Alþ., að hann muni ekki nota þessa heimild, sem honum er veitt til þess að skipa ólöglærðan mann lögreglustjóra, nema fyrst að hafa slegið embættinu upp til þess að vita, hverjir sækja um það.

Ég heyrði það á hæstv. ráðh. í Ed., að hann taldi, að það mundu geta verið vandkvæði á að fá hæfan lögfræðing til að gegna þessu embætti og það gæti viljað svo til, að það yrði að setja í það ólöglærðan mann.

Ég hefi ekki trú á því. Ég vil benda á, að enn hefir ekki verið skipað í lögreglustjóraembættið, svo hæstv. dómsmrh. er í raun og veru lögreglustjóri. Það embætti mun ekki hafa verið betur launað, þegar hann var skipaður í það, heldur en það embætti verður eins og það er nú fyrirhugað. Hann mun því geta sagt sér það sjálfur, að það hafi þó valizt góður maður í það á sinni tíð, þegar hann var skipaður í það af þáverandi dómsmrh. Ég hefi ekki trú á því, að í svona virðulegt embætti megi ekki fá góðan og gegnan lögfræðing, eins og t. d. var hægt að fá hann, þegar hæstv. dómsmrh. var skipaður í það. Ég vil ekki, að þetta frv. gangi í gegnum þingið svo, að það komi ekki fram, hvort hæstv. ráðh. vill lýsa því yfir, að það sé meining hans að nota ekki undanþáguna nema svo sé, að ekki fáist annar hæfur maður í embættið. Ég vil því biðja hæstv. ráðh. að gefa yfirlýsingu um þetta.