15.12.1939
Neðri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

150. mál, ríkisborgararéttur

*Jón Pálmason:

Eins og hv. dm. munu hafa tekið eftir, þá hefi ég flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 422, um að Oskar Sövík, rafveitustjóra á Blönduósi, verði veittur ríkisborgararéttur. Þannig er varið um þennan mann, að hann vantar tæplega hálft ár til þess að vera búinn að dvelja hér á landi í 10 ár, en sýslunefnd A.Húnavatnssýslu og rafveitustjórnin á Blönduósi leggja ákaflega mikla áherzlu á, að manni þessum sé veittur ríkisborgararéttur, vegna þess, að hans er áfram þörf við gæzlu stöðvarinnar. Hann hefir haft þetta starf á hendi síðan stöðin tók til starfa. Þarna er um að ræða vélar, sem eru að verðmæti um 80 þús. kr. Þeir, sem hlut eiga að máli, leggja mikla áherzlu á að fá að njóta áfram starfs þessa manns, sem vel hefir reynzt. Nú er það svo, að heimilt er samkv. l. að veita mönnum ríkisborgararétt, ef þeir hafa um 5 ára skeið starfað í þágu hins opinbera, en þessi maður hefir þarna verið í þjónustu sýslufélags og rafstöðvar, sem rekin er í sambandi við kvennaskólann á Blönduósi og sjúkrahúsið, og eru báðar þessar stofnanir hálfopinberar, þ. e. a. s. styrktar af ríkinu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mál fleiri orðum, en vænti þess, að menn liti með velvilja á brtt., þar sem svo stendur á, að það vofir yfir, að þessi maður verði kvaddur til Noregs vegna stríðsins. Að öðru leyti vil ég vísa til hæstv. forsrh., sem er þessu máli kunnugur og hefir haft það með höndum.