11.12.1939
Neðri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

85. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

Skúli Guðmundsson:

Ég vil þakka hv. fjhn. fyrir, að hún hefir mælt með, að þetta frv. á þskj. 184 nái fram að ganga, sem flutt er af mér, hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er lagt til með þessu frv., að 1., sem nú gilda um skattgreiðslu útgerðarfyrirtækja íslenzkra botnvörpuskipa, skuli einnig gilda um línuveiðiskip og vélbáta.

Við flm. frv. höfum einnig leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 229, sem er um að þau fríðindi, sem útgerðarfyrirtækjum eru veitt samkv. þessum l., skuli bundin því skilyrði, að fyrirtækin stilli í hóf launagreiðslum til einstakra starfsmanna, þannig að enginn fastur starfsmaður fái meira en 10 þús. kr. árslaun, eða tilsvarandi fyrir hluta úr ári, og þar með talin hverskonar hlunnindi og þóknun, sem starfsmönnum er veitt. Ég tel rétt, að um leið og útgerðinni er veittur þessi stuðningur, sem ég álít sanngjarnt að veita henni, vegna þess mikla taps, sem hún hefir orðið fyrir að undanförnu, þá séu um leið reistar skorður við, að nokkuð af þeim ágóða, sem þessi fyrirtæki kunna að hafa, verði á næstu árum látin ganga til að greiða óhæfilega há laun til einstakra starfsmanna. Ég vænti því, að þessi till. verði samþ. og frv. með þeirri breyt. afgr. úr þessari deild.