23.11.1939
Neðri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (2349)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Bergur Jónsson:

Ég vil þakka hv. sjútvn., hvað hún hefir tekið vel í þetta frv. — Þessi fróðlega ræða hv. 5. þm. Reykv. gefur ekki tilefni til að ræða mikið í sambandi við þetta frv. Það var eitthvert vonleysishjal. Hann lýsti hinu óskaplega vonleysisástandi hér á landi, og að það þýði ekki neitt að vera með nein frjáls samtök, allt er lögbundið í viðjar kúgunar hér á landi. Hann kom með það sem einhver rök gagnvart frv., að um væri að ræða sérstakt form innan þjóðfélagsins til að skapa ný samtök. Ég skil ekki, hvað hv. þm. meinar með þessu þvaðri. Hvað þýða þessi verkamannafélög og samtök sjómanna, ef allt er í slíkum viðjum? Það þýðir ekki að reyna að lækka verðið, því það eru aðrir, sem hirða arðinn. (BÁ: Hvað þýðir „Kron“?) Það liggur beint við, að hv. 5. þm. Reykv. geti gefið upplýsingar um, í hvaða tilgangi „Kron“ var stofnað. Er það ekki sjálfsagt í svona hræðilegu þjóðfélagi, eins og hv. þm. ,er að lýsa, að leggja niður félög eins og Kron? Þýðir nokkuð að geta útvegað meðlimum sínum betri kjör? Geta þau, fremur en þessi hlutarútgerðarfélög, fengið vöru með sæmilegum kjörum? Hv. þm. verður að gæta að því, að þegar verið er að ræða hér á þinginu lagafrv. eða till., verður hann að halda sér við efnið, en ekki vera að ræða um alla heima og geima. Þessum hv. þm. ætti að vera nóg að útlista kenningar Stalíns og hans verk í Þjóðviljanum. Það er líklega þá fyrst, þegar slík þjóðskipun er komin á, sem á sér stað í Rússlandi, að slíkt ástand skapast eins og það, sem hv. þm. var að lýsa í sinni ræðu. En ég er bara hræddur um, að ekki þýði að reyna að koma á slíku ástandi undir Rússastjórn. Þegar ég heyri til þessa hv. þm. og flokksbræðra hans, verður mér stundum á að minnast þessara vísuorða úr „Jarlsníði“ Gríms Thomsen: „Hákonar af verstu verkum vegsamar hann einum jarl.“ Hvort sem er í ræðu eða riti, á Alþ. eða í blöðum sínum, vegsama þessir menn einræðisherrann rússneska og öll hans verk, ill sem góð, alveg eins og hann stýri tungu þeirra og penna. Slík framkoma manna, hjá vopnlausri, hlutlausri, lýðfrjálsri smáþjóð eins og Íslendingum, sannar það, að engin leið er til þess að viðurkenna þá sem íslenzka stjórnmálamenn. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir sjóðsmyndun og framlögum til sjóðsins frá bæjar- og sveitarfélögum, sem eiga að hjálpa til að bæta upp kaup félagsmanna, þegar illa árar. Ég og fleiri þm. bárum fram frv., sem fór í líka átt, þar sem voru skilyrðislaus ákvæði um, að hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög væru skyld að leggja fram framlög til félaganna. Vegna þess hvað erfitt var að fá það frv. gegnum þingið, þá leggjum við nú til, að þetta sé aðeins heimilt hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi. Vitanlega vildum við helzt leggja til, að það væri skylda.

Annars er ekki ástæða til að vera að eltast við það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði. Hann tók undir það með hv. þm. Ísaf., að með þessu væri verið að brjóta vinnulöggjöfina. Ég vil skora á hv. þm. Ísaf., sem með mikilli vandlætingu var að tala um vanþekkingu annara hv. þm., að benda á ákvæði í vinnulöggjöfinni, sem sé brotið með þessu frv. Í þessum félögum er gert ráð fyrir, að séu menn, sem eingöngu eru eigin atvinnurekendur. Það eru engin ákvæði í frv. um það, hvernig atkvæðisrétturinn eigi að vera í félögunum. En það kemur fram í mörgum gr. frv., að meiri hluti atkv. eigi að ráða úrslitum og félagsmenn séu jafnréttháir. Mér leikur forvitni á að vita, hvort hv. þm. gæti bent á nokkurn hlut í ákvæðum vinnulöggjafarinnar, sem komi í bág við frv. eða fyrirskipi, að menn, sem eru atvinnurekendur, semji við sjálfa sig á ákveðinn hátt. Það væri skárri löggjöfin, sem skipaði útgerðarmönnum sjálfum að hafa sérstök kjör við sjálfa sig! Skyldu ekki allir aðrar en hv. þm. Ísaf. sjá, hvað hann er kominn út á hála braut með þessari kenningu sinni? Hann má vara sig á að vera að sveigja að öðrum mönnum, að þeir sýni vanþekkingu á máli, sem hann fer með aðrar eins staðleysur í.

Sannleikurinn er sá, að það er gengið út frá því, að allir menn í hlutarútgerðarfélögunum séu jafnframt starfandi menn við félögin, séu jafnréttháir eigendur og eigi ekki við neina að semja nema sjálfa sig.

Þó að samþykktir þeirra eigi að vera lagðar undir bæjarstjórnir og ríkisstj., þá skiptir það engu verulegu máli. En úr því hv. þm. Ísaf. kom inn á þá braut, að átelja þau ákvæði frv., þar sem ákveðið er, að samþykktir félaganna skuli staðfestar af bæjar- og sveitarstjórnum og ríkisstj., hvernig stendur þá á því, að hann samþ. l. eins og gengisl., þar sem sett eru ákvæði um kaupgjald í landinu? Ef samtök verkamanna og sjómanna hafa nokkurn tíma verið sett í viðjar, þá hefir það verið gert með þeim l. Hv. þm. Ísaf. var með þeim l., og hann á skilið hrós fyrir það. Hann sá, að það var nauðsyn, en hann á þá að taka rökréttum afleiðingum af þeirri nauðsyn. Hann á þá ekki að vera að tala um aukaatriði eins og það, að samþykktir félaganna eigi að vera staðfestar af bæjar- og sveitarstjórnum og ríkisstj., og tala um, að það sé brot á samtakarétti sjómanna, en vera með gengisl., sem ákveða um kaupgjald í landinu.

Ég veit ekki betur en hann og hans flokkur hafi óskað eftir, að sett væru gerðardómslög á Alþ. út af deilu stýrimanna við Eimskipafélag Íslands. Hvað var þá löggjafarvaldið að gera gagnvart samtakarétti stýrimanna? Ég er ekki að átelja þá afstöðu, sem hv. þm. Ísaf. hefir haft í þessum 2 málum, en ég vil benda honum á, að hann verður að vera sjálfum sér samkvæmur. Hann verður, ef hann vill vera að skjóta því að velmetnum þm. og fyrrv. ráðh., að hann sýni vanþekkingu, að taka sjálfur afleiðingunum af sínum verkum. Hann á þá ekki að sýna skilningsleysi á því sviði, sem hann þykist vera hinn rétti sérfræðingur á.

Hv. þm. Ísaf. lét svo um mælt, að það kæmi tæplega til mála, að þessi l. yrðu notuð, að slík félög, sem þar er gert ráð fyrir, yrðu stofnuð.

Ég skal ekkert um það segja, en ég álit, að það væri mjög æskilegt, að slík félög yrðu stofnuð. En ég vil gjarnan ganga lengra og taka höndum saman við hv. þm. Ísaf. og hv. 5. þm. Reykv. um að styðja félögin meira, að gera það t. d. að skyldu, að bæjar- og sveitarfélög greiði framlag til þeirra og þeim sé útvegað fé, t. d. með því að taka upp líkt frv. og flutt hefir verið áður, þar sem gert var ráð fyrir, að samvinnuhlutafélögin fengju sérstök hlunnindi í lánum hjá fiskveiðasjóði. Ég vil gjarnan taka höndum saman við þessa hv. þm., ef þeir vilja ganga inn á þá braut. Það er ekkert, sem stendur í vegi fyrir því, að lán, sem samkv. núgildandi l. eru veitt úr fiskveiðasjóði til báta og skipa, geti ekki fallið í hlut hlutaútgerðarfélaga. En samkvæmt kenningu hv. 5. þm. Reykv. er þetta auðvitað engin hjálp. Sú eina hjálp, sem hann virðist telja nokkurs virði, er að fá 100–200 þús. kr. í gjafaskeytum frá Rússlandi.