30.11.1939
Efri deild: 73. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er um þetta mál að segja, að það er komið til þessarar deildar frá Nd. og er flutt, eins og sjá má af þskj. 50, af þrem hv. framsóknarmönnum. Jafnvel þó þetta mál fari til nefndar, sem ég á sæti í, get ég ekki við þessa umr. látið það svo framhjá fara, að ég minnist ekki á frv. og þá stefnu, sem í því felst. Mér þykja ýmsir ágallar á þessu frv., en í höfuðatriðunum er það sú stefna, sem í því felst, sem ég get ekki fallizt á.

Frv. fer fram á nýjar lögskyldaðar hlutaráðningar í hinum ýmsu tegundum fiskveiðanna. Þar er engin undantekning frá, hvort það eru smábátar, mótorbátar, stærri línubátar eða stór skip, sem gerð eru út til fiskveiða, og á hér með að lögskipa félagsskap, sem hefir þessa ráðningu að aðalmarkmiði.

Það mætti segja langt mál um þá stefnu, sem í frv. felst, og væri það mikið efni, meira en í eina þingræðu, því hér er komið inn á allt fyrirkomulag fiskveiðanna, frá því þær hófust hér og fram á vora daga, og hvort það fyrirkomulag, sem við höfum nú, sé ranglátt.

Ég þori ekki um það að segja, hvort fiskimenn muni yfirleitt nota sér þá lagaheimild, sem hér er gert ráð fyrir, að verði að lögum, eða ekki, en mér er það fullkomlega ljóst, að aðaltilgangur frv. er að fyrirskipa ráðningarfyrirkomulag, þar sem félagsskapur sjómanna og verkamanna getur ekki haft nokkur áhrif á ráðningarkjör, þ. e. a. s. að með þeirri stefnu, sem í frv. felst, er verið að taka upp óbeina árás á verkalýðsfélögin, og hefði ég sízt búizt við, að slíkt gæti komið frá þeim virðulegu framsóknarmönnum, sem að frv. standa, og er það ærin nóg orsök fyrir mig til þess að geta ekki verið með þeirri stefnu, sem í frv. felst.

Fyrir utan þetta er ýmislegt við frv. að athuga. Ég vildi í því sambandi benda á, að þótt hér sé verið að fitja upp á nýmæli, þá á þetta fyrirkomulag sér hvergi stað, svo vitað sé, og mun ég síðar tala um það, því ég hefi tiltölulega nákvæmar skýrslur um það, hvernig fiskveiðar eru reknar hjá nágrannaþjóðunum, og mun ég sýna fram á, að slíkt fyrirkomulag á sér hvergi stað.

Það mun eiga að útvíkka samvinnuna með þessu, en það má útvíkka svo samvinnufyrirkomulagið, að það eigi þar ekki heima, og vil ég benda á þá reynslu, sem hefir fengizt af samvinnufyrirkomulaginu í útgerð hér á landi. Ég bæði sagði það strax og skrifaði um það á sínum tíma og leiddi nokkur rök að, að með tilliti til okkar fyrirkomulags, þá mundi samvinnan ekki ná sínum framgangi í útgerðinni, og reynslan hefir orðið sú, að þau samvinnuútgerðarfél., sem hafa verið stofnuð austur á landi og við Ísafj., eru að því ég bezt veit komin úr sögunni. Það hefir verið reynt við Faxaflóa, og reynslan orðið sú sama, og öll þessi samvinnufélög, sem þutu upp á nokkrum árum í sambandi við örðugleika þá, sem þá voru við útgerðina, eru nú líka dauð, og ég hygg, að fæsta, sem þar komu nálægt, langi til að stofna þau aftur. Spá mín er sú, jafnvel þótt þetta frv. yrði að lögum, sem ætla má, þar sem Sjálfstæðismenn hafa léð því fylgi sitt, að menn fái sig fullreynda á því. (PZ: Það rætast nú ekki allar spár). Já, ég var að tala um spár og hvernig hefði farið um mína spá. Hún hefir bara rætzt. Svo það er hægt að spá um framtíðina, þegar fyrri spár hafa rætzt.

Ég skal svo ekki tala meira að sinni, en geri ráð fyrir að bera fram brtt. við frv. í sjútvn. og mun við 2. umr. gera grein fyrir þeim breyt., sem ég vildi gera á því, og ef þær breyt. ná ekki fram að ganga, þá að lýsa minni andstöðu við frv.