03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

35. mál, hlutarútgerðarfélög

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv. fékk athugun í sjútvn. þessarar hv. d. fyrst á þinginu, og voru þá 4 af 5 nm. fylgjandi því, að frv. væri gert að l., en formaður n., hv. þm. Ísaf., lagði til, að það yrði fellt. Frv. átti að fagna fylgi mikils meiri hl. þessarar hv. d. og hefir nú komið hingað aftur frá hv. Ed., sem gerði á því smávægilegar og mjög þýðingarlitlar breyt.

Út af því, sem bv. þm. Ísaf. sagði um málið, og þeim brtt., sem hann hefir borið fram við það, þá vil ég benda á, að mér virðist allt, sem hann sagði um málið, á megnum misskilningi reist. Hann heldur því fram, að það komi í bág við gildandi vinnulöggjöf. Það sér hver maður, að slíkt hefir ekki við rök að styðjast. Hvað sem vinnulöggjöf líður, þá eru vitanlega allir menn frjálsir að því að vinna hjá sjálfum sér, án þess að gera um það sérstaka samninga við sjálfa sig. Hér er aðeins um það að ræða að mynda ramma eða grundvöll, til þess að byggja á frjáls samtök sjómanna um útgerð, þar sem menn vilja starfa á þeim grundvelli. Þegar þessi hlutarútgerðarfélög verða vinnuveitendur, eins og getur komið fyrir samkv. 3. gr., þá verða þau háð öllum þeim almennu reglum, sem gilda á hverjum stað, og verða að semja við utanfélagsmenn, eins og aðrir atvinnurekendur. Meðan í félagi starfa einungis félagsmenn, þá nær það vitanlega engri átt, að þeir séu háðir vinnulöggjöfinni og þurfi að gera samninga við sjálfa sig um kaup og kjör. Þeir gera samninga og setja sínar reglur um það, hvernig þeir skipta arðinum, en það kemur engum öðrum við en þeim sjálfum, svo það er ekki hægt að tala um brot á vinnulöggjöfinni í því sambandi.

Út af því, sem hv. þm. sagði um 7. gr., sem hann hefir borið fram brtt. við, að það væri óeðlilegt, að reglur um lágmarkstekjur væru samþ. af bæjar- eða sveitarstjórnum eða ríkisstj., þá er því til að svara, að það er gert ráð fyrir, að bæjar- eða sveitarstjórnir leggi fram fé á móti félagsmönnum í tryggingarsjóði, og virðist það sjálfsagt, að slíkar byrðar séu ekki lagðar á nema bæjar- eða sveitarstjórnir samþ. það. Þetta er svo sjálfsagt mál, að það ætti ekki að geta orðið ágreiningur um það.

Loks er það, sem hann sagði um 9. gr., að hún væri svo óskýrt orðuð, að það þyrfti að breyta henni. Hann taldi í því sambandi, að einn félagsmaður gæti farið með svo og svo marga hluti í félaginu. En það eru engir hlutir í þessum félögum, því það er ekki gert ráð fyrir, að þetta séu hlutafélög, svo það er hvorki um fáa eða marga hluti að ræða. Hver einstakur félagsmaður greiðir aðeins örlitla upphæð, l0 krónur, í varasjóð. Það er því misskilningur, að það þurfi að breyta 9. gr., því það er alveg ljóst, eins og frv. er nú, að allir félagsmenn hafa jafnan atkvæðisrétt. (FJ: Hvar stendur það?). Hvar stendur, að hann sé ójafn? Þessar brtt. eru fram komnar til þess að reyna að koma fleyg inn í málið á síðustu stundu og reyna að eyðileggja það með því að hrekja það milli d. Sú síðasta er óþörf og hinar beinlínis hættulegar málinu.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að lögin kæmu ekki að gagni, ef þau væru sett gegn vilja sjómanna í landinu. Mér er nú ekki kunnugt um vilja sjómanna almennt. En hitt er víst, að frv. tekur ekki af þeim neinn rétt, þó það verði að l. Hver einasti sjómaður getur verið laus við að ganga í slíkt félag. Hann getur verið í sjómannafélagi og tekið þar upp samninga við atvinnurekendur eins og tíðkast. Frv. er þannig byggt upp, að þar er aðeins að ræða um ramma fyrir þá. sem vilja nota sér þetta, eins og þegar menn starfa á frjálsum félagsgrundvelli. Það eru engar skyldur lagðar á neinn mann um að hagnýta sér þessa löggjöf. Það er enginn, sem skipar sjómönnum að ganga í slík félög, ef þeir vilja það ekki sjálfir.

Ég vil fastlega vænta þess, að hv. þd. felli þessar brtt. hv. þm. Ísaf. og samþ. frv. eins og það kom frá hv. Ed.