02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

143. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Þessi brtt., sem deilan stendur um, var sett inn í frv. í Ed. af hv. þm. S.-Þ. Fyrir honum vakti að koma í veg fyrir, að óeðlilega mikið aðstreymi yrði að verksmiðjunni á Raufarhöfn, vegna þeirrar sumaratvinnu, sem verksmiðjan hefir í för með sér. Einnig vakti fyrir honum að tryggja fátækum námsmönnum atvinnu að nokkru leyti. Ég bar fram brtt. í Ed. við brtt. hv. þm. S.-Þ., að tala þeirra námsmanna, sem hefðu aðgang að vinnunni, yrði færð niður úr 2/3 í ½. Fyrir mér vakti, að með brtt. vildi ég viðurkenna grundvallarhugmyndina um nauðsyn þess að tryggja námsmönnum aðgang að þessari vinnu, en fannst of langt gengið með till. hv. þm. S.-Þ. Nú kom till. um að fella þetta ákvæði alveg niður, og ég vil taka það fram, að ég er alveg andvígur henni. Sú till. fullnægir öðrum tilgangi, og þó hún veiti námsmönnum nokkur fríðindi. þá er hún alls ekki trygging fyrir atvinnu þeirra. Þess vegna er ég andvigur henni. Þriðja till. er frá 4 nefndarmönnum sjútvn., á þskj. 625, og er um það, að færa tölu námsmanna, sem atvinnu fá við verksmiðjuna, niður í 1/3 Ég mun ekki sækja fast að greiða atkv. gegn henni. en mun þó halda mig við það, sem er í frv. Það má deila um, hvort skynsamlegra og réttara sé að ganga svo langt sem gert er með minni till. eða samþ. till. sjútvn. Ég er sannfærður um, að það er ekki rétt hjá hv. þm. Ísaf., að ef ákvæði þetta yrði lögfest, myndi draga úr viðleitni manna til þess að hjálpa þessum ungu, efnilegu mönnum til að standast kostnaðinn af námi sínu. Mér finnst, þó að þessar till. verði samþ., að þær gangi ekki á neinn hátt út yfir verkamenn né dragi úr atvinnumöguleikum verkalýðsins. Ungir, fátækir námsmenn þurfa oft að liggja uppi á foreldrum sínum, og þeir þurfa að veita þeim aðstoð sína til þess að geta lokið námi. Ég held því síður en svo, að það sem fer til fátækra námsmanna, sé tekið frá verkamönnum.

Ég legg eindregið til, að samþ. verði till. meiri hl. sjútvn.