28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

*Jóhann Jósefsson:

Fjvn. hefir ritað stj. bréf og ráðið til að taka Þór til fiskflutninga eða láta hann koma að gagni við framleiðsluna. Mun stj. hafa tekið líklega í það mál.

Af ástæðum, sem öllum eru kunnar, hefi ég ekki getað haft áhrif á gang þessa máls undanfarnar vikur. Nú þykist ég sjá, að ráðið sé að taka Þór til annara starfa en hann hefir haft að gegna undanfarin ár. Ég vil aðeins stuttlega minna á, að árið 1926, þegar stj. tók við Þór, fylgdi því sú kvöð, að skipinu yrði haldið úti til björgunar og eftirlits við Vestmannaeyjar á vetrarvertíð ár hvert 3½–4 mánuði. Og þegar gamli Þór strandaði, var þáltill. samþ. í Nd. með shlj. atkv. árið 1930, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að sjá um það, að björgunar- og eftirlitsstarfinu við Vestmannaeyjar verði af hálfu ríkisins haldið áfram framvegis með ekki lakari skilyrðum fyrir Vestmannaeyjar en áður og að til þess verði notað engu ófullkomnara skip en Þór var“.

Grundvöllurinn er sá sami og þegar skipið var keypt, sem nú heitir Þór og á undanförnum árum hefir með prýðilegum árangri annazt þessa gæzlu og björgun mannslífa, en á nú að taka frá því starfi, eins og ég hefi áður vikið að. Nú hefi ég heyrt, að það hafi verið skoðun n., þó að það hafi ekki beinlínis komið fram á þskj., að hæstv. ríkisstj. ætli sér að láta standa áfram þetta grundvallaratriði samnings þess, sem gerður var við kjördæmi mitt, þannig, að í stað þess, að Þór hefir haldið uppi þessari gæzlu, þá verði Ægir látinn annast hana á sama hátt og Þór áður. En með því að þetta hefir ekki svo að ég viti verið staðfest, þá vil ég leyfa mér hér með að heina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra landhelgismálanna, hvort það sé ekki réttur skilningur, að varðskipið Ægir eigi framvegis að gegna þeim björgunar- og eftirlitsstörfum við Vestmannaeyjar, sem Þór hefir haft á hendi hingað til.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta. Ég hefði kosið að fara aðra leið í þessu máli en að tala um það utan dagskrár, ef þess hefði verið kostur, en af því að það var ekki, þá varð ég að velja þessa leið og vona, að menn skilji það.

Ég bíð svo eftir svari hæstv ráðh., sem er mjög svo þýðingarmikið fyrir þá menn, sem mest stunda fiskveiðar á vetrarvertíð við Vestmannaeyjar.