25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég veit ekki, hvort hæstv. atvmrh. er hér viðstaddur, svo hann geti heyrt mál mitt. Ég vil þakka honum fyrir afstöðu hans til þessa máls. En ég vil mótmæla þeim skilningi, sem hann lagði í orð mín viðvíkjandi rekstrinum á Sólbakka og á Húsavík. Hann lét líta svo út sem ég hefði verið á móti því, að þessi fyrirtæki væru rekin. En það er langt frá því. Ég benti á, þegar hv. þm. Ísaf. hélt því fram, að gjöldin til bæjarsjóðs lækkuðu verðið á hverju máli síldar um svo og svo marga aura, að þá hefðu ekki síður þær upphæðir, sem ég nefndi, gert slíkt hið sama. Það er vitanlega sjálfsagt að reka þessi fyrirtæki þannig, að ekki sé tekið til þeirra fé frá síldarverksmiðjum ríkisins og þar með lækkaður aflahlutur sjómanna, heldur af atvinnubótafé, og láta svo síldarverksmiðjurnar greiða hverjum sitt.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. var að tala um viðvíkjandi þessum framkvæmdum á síðastl. ári, þá hlýtur hann að muna, að um reksturinn á Sólbakka var ákveðið áður en ég tók við störfum. Viðvíkjandi leigu á Húsavíkurverksmiðjunni vil ég geta þess, að ég og Þorsteinn M. Jónsson vorum á móti því, að hún væri leigð, og hún hefði að öllum líkindum verið leigð fyrir hærra verð, ef okkur ásamt Sveini Benediktssyni hefði ekki tekizt að koma í veg fyrir það.

Hv. þm. var að tala um, að fasteignagjaldið væri 23 þús. kr. Hv. þm. ætti að vera það vitanlegt, að hér er ekki að ræða um það eins og það var áður, þegar það var 1–2%, heldur eins og það er í frv. frá Ed., þar sem það er 0,7% af öllum eignum verksmiðjanna. Þá er það 12600 kr., svo það er aðeins gert í blekkingarskyni að tala hér um 23 þús. kr. Það getur aldrei verið um að ræða annað en þessar 12–13 þús. kr.

Ég skal ekki fara út í vörugjöldin, en árið 1938 hafði verksmiðjan greitt samtals til bæjarsjóðs 78 þús. kr., mínus fasteignaskattinum, sundurliðað eins og ég las upp. Hvort þetta getur legið í því, að eitthvað af vörugjöldum sé ógreitt, skal ég ekki um segja.

Hv. þm. Ísaf. segir, að hér sé um hreppapólitík að ræða. En má þá ekki eins segja, að það sé hreppapólitík, þegar öðrum kaupstöðum eru gefin hlunnindi, eins og t. d. Ísafirði? En ég vil ekki halda, að svo hafi verið. Ég vil ekki heldur halda það um Hafnarfjörð í fyrra, eða þegar Vestmannaeyjar fengu sitt sérstaka vörugjald. Það er skiljanlegt, að við, sem þekkjum þessi mál og búum á þessum stöðum, höfum betri skilning á þessu en aðrir hv. þm. Ég held þessu fram af því að ég veit, að Siglufirði er mikil þörf á þessum tekjum. Þeir hv. þm., sem viðurkenndu þörfina á Ísafirði, ættu eins að geta séð hana á Siglufirði.