25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2769)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ásgeir Ásgeirsson:

Það hefir borizt í tal, að tap hafi verið á Sólbakkaverksmiðjunni á síðasta ári, en ég vil upplýsa, að það stafar ekki allt af rekstrinum, heldur stafar nær helmingurinn af afskriftum. Þegar svo eru eftir 30–40 þús., undrar engan, að slíkt geti komið fyrir hjá stórri verksmiðju. Ég veit annars ekki, hvort nauðsynlegt er að tapa á Sólbakkaverksmiðjunni. Karfaverksmiðjan á Patreksfirði er alltaf rekin án taps. Það er illt afspurnar, ef þyrfti að leggja niður verksmiðjuna á Önundarfirði, á meðan önnur svo nálæg getur haldið áfram. Báðar liggja verksmiðjurnar vel við karfa, en Sólbakkaverksmiðjan liggur betur við síld. Ég hefði haldið, þegar hún varð ríkisverksmiðja, að hún yrði tryggari en áður. En hitt hefir komið fram, að verksmiðjunefndin er stundum of bundin við Siglufjörð, og í till. sínum nú síðast horfir hún lítið til annara staða en Siglufjarðar. Ég tel, að í þessu sé fólgin hætta, og er sammála hæstv. atvmrh. Þó að nokkurt tap hafi orðið síðasta ár, hefir verksmiðjan áður verið hallalaus, en í fyrra gaf hún líka um 300 þús. kr. í valútu og veitti atvinnu fjölda fólks. Þarna á Flateyri eru á 5. hundrað íbúa, þar af um helmingur vegna verksmiðjunnar. Hinni háttv. nefnd á Siglufirði ber skylda til að hugsa um fleiri staði en Siglufjörð einan. Það eru bæði veiðimöguleikar út af Vestfjörðum, sem á að nota, og fólk á Vestfjörðum, sem ber að taka tillit til, ekki síður en íbúa hinnar heilögu borgar síldarinnar, Siglufjarðar. Ég vænti, að hin óheppilega stefna, sem var tekin upp á síðasta hausti um Sólbakkaverksmiðjuna, líði undir lok, og að verksmiðjan verði rekin haganlega.