29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2823)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir rakið gang málsins, og þarf ég ekki öðru við að bæta en því, er snertir afstöðu minni hl. Þegar þessar tvær gr. hafa verið teknar úr frv. og skeyttar inn í annað frv., eru aðeins eftir þrjár gr., og tvær af þeim eru þess eðlis, að þær eiga ekki heima í l. Að sönnu gæti 5. gr. frv. verið sjálfstæð, en hún er óhæf samt. Um 2. gr., sem er um það, að handbært fé ríkisstofnana skuli greiða mánaðarlega í ríkisféhirzlu, er það að segja, að hver maður sér, að þetta er ekki löggjafaratriði, því að þetta getur stj. látið framkvæma, ef hún vill, og það er á hennar ábyrgð, hvort hún gerir það eða ekki. Um 3. gr., sem á samkv. till. meiri hl. einnig að standa eftir í frv., er það að segja, að síðari hl. gr. er beinlínis hneykslanlegur. Það er óhugsanlegt, að flm. frv. geti viljað banna með l., að menn, sem vinna við ríkisstofnanir eða í embættum, vinni fyrir brauði sínu í aukavinnu. Það er vitanlegt, að vegna gengisbreytingarinnar og verðhækkunar af völdum ófriðarins er það alveg óhugsanlegt, að menn, sem lifa við laun, er hafa verið ákveðin fyrir löngu, geti dregið fram lífið á þeim einum. Þeir verða þá að lifa á eignum eða gerast sveitarómagar. En í staðinn fyrir að gera ráðstafanir til þess, að þessir menn geti aflað sér brauðs, bannar löggjafarsamkundan þeim að vinna sér fyrir brauði við þær stofnanir, er þeir hafa helgað sitt lífsstarf. Auk þess er það heimskulegt, svo að ekki sé meira sagt, að skylda ríkisstofnanir, eins og gert er með þessu, til að leita annara krafta en þeirra, sem eru hæfastir. Það er eins og ef maður ætlaði t. d. að beita lóð og mætti þá ekki fá til þess háseta, sem kann verkið, heldur yrði að fá til þess einhvern asna, sem ekki þekkti lóð frá „sippubandi“. Ég get því ekki lagt til, að þetta sé samþ. Eina atriðið, sem eftir stendur og ekki heyrir undir stj.framkvæmdir, er ákvæði 5. gr. um að lækka afnotagjöldin af útvarpi þeirra hlustenda, sem ekki hafa rafmagnsstraum, í stað þess að veita þeim hlustendum, sem hafa óhægari aðstöðu, nokkurn styrk. Þetta er mjög óformlegt. Hér er verið að lækka gjöld á þeim, sem hafa þó nokkuð hægari aðstöðu, því að þeir, sem búa við dýran rafmagnsstraum, eiga miklu erfiðara en hinir, sem hafa rafhleðslutæki. Þetta vita þeir, sem hafa rannsakað málið. Ég held því, að hv. d. hljóti að fallast á, að þegar búið er að taka hið upphaflega frv. til slátrunar, sumpart eyða því alveg, en sumpart skeyta ákvæði þess við önnur l., þá beri ekki að láta þetta skott, svo óskaplegt sem það er, verða að l. Ég legg því til, að hv. Alþingi láti þetta skott deyja.