03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Ég gat þess við fyrri hl. þessarar umr., að ég teldi óþarft að koma með þetta ákvæði, því að ráðh. hefir þegar í hendi sér, hvernig skipað er þessum málum. Í l. um útvarpsrekstur ríkisins segir, að ráðh. geti á hverju ári ákveðið afnotagjaldið. En sérstaklega er þó óviðkunnanlegt að koma fram með þessa till. um lækkun afnotagjalda á þessu ári, þegar allir gjaldaliðir útvarpsins hafa hækkað og krónan fallið um þriðjung. Ég hefi hér í höndum umsögn frá verkfræðingi ríkisútvarpsins, Gunnlaugi Briem, þessu viðvíkjandi. Hann segir þar, að nú séu komnir á markaðinn nýir straumsparari lampar en áður voru notaðir, sem lækka mjög kostnaðinn við rafhlöðutæki, og einnig fáist nú straumspör tæki, sem hægt sé að starfrækja með litlum sex volta rafgeymi. Ég held, að þessar framfarir geri meira en að vega á móti þeirri verðhækkun, sem hv. þm. Borgf. gat um. Ég vil ekki þreyta hv. þm. með frekari umr. um þetta, því að ég geri ráð fyrir, að þeir hafi allir gert sér grein fyrir, hvernig þeim beri að greiða atkv. í málinu. En ég vil aðeins benda á það, að ef tekjur útvarpsins eru skertar á þann hátt, sem hér er farið fram á, þá er hætt við, að við missum bylgjulengd okkar, ef það leiðir til þess, að við getum ekki stækkað stöðina úr 16 kílóvöttum upp í 100 kilóvött, eins og í ráði er. Þetta vil ég biðja hv. þm. að athuga.