03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Út af þeim upplýsingum. sem hæstv. atvmrh. gefur nú, vil ég taka það fram, að áður en maður getur gert mikið með þær upplýsingar, þarf maður að vita nánar um það mál. Fyrir síðustu kosningar voru gerðir samningar við Kveldúlf og menn settir til að líta eftir, að þeim yrði framfylgt. En það hefir ekki verið gert. Bankastjórarnir hafa meira og minna svikizt um að gera það, sem Framsfl. lofaði sínum kjósendum, að gert yrði í því máli. Eftirlitið hefir verið slæmt. Það er því ekki hægt að leggja mikið upp úr því, þótt slíkar upplýsingar séu gefnar.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. talaði hér um áðan, að hann hefði í raun og veru að öllu leyti skipt um skoðun, þá er orðin heldur slæmur ferill hans og hans flokks hér á þingi í sjávarútvegsmálum. Undanfarin fimm ár hefir Alþfl. háð baráttu um það, hvernig fara ætti að í útgerðarmálunum, hvort skera skyldi á Kveldúlfskýlið eða hvort ætti alveg að dengja öllu sukkinu á fólkið í landinu. Þegar hv. þm. Seyðf. var í ráðherrastól, gafst hann upp. Alþfl. gaf út bráðabirgðalög um síldarverksmiðjustjórn á sínum tíma. Eftir að nýbúið var að slíta Alþingi 1936, sá Alþfl., að ekki dugði að halda áfram á Alþ. á þessari undanhaldsbraut. Þá voru gerðar till. um að gera Kveldúlf upp. Síðan var lagt til kosninga á þeim grundvelli. Síðan hefir Alþfl. getizt upp við að halda áfram framkvæmdum í þessum efnum. 1938 hrökklast hv. þm. Seyðf. úr ráðherrastóli, vegna þess að hann vildi láta líta svo út, að hann væri á móti því að leggja á sjómenn tap stórútgerðarinnar. En nú, 1939, er það komið svo langt, að jafnvel í þessu máli hefir einn af flokksmönnum hv. þm. Seyðf. gerzt meðflm. að frv. um gengisskráningu. Og er því hv. þm. Seyðf. búinn að skipta um skoðun, þannig að Alþfl. hefir lýst því yfir, að hann sé búinn að gefa upp sína fyrri stefnu. Þessu verður því ekki að neinu leyti mótmælt. Sósíalistafl. hefir erft þá afstöðu, sem Alþfl. og Kommfl. höfðu upphaflega í þessu máli. En Skjaldborgin svokallaða, alþýðuflokksbrotið, hefir skipt um skoðun. Þetta flokksbrot á ekkert skylt við þann Alþfl., sem gekk síðast til kosninga með nafninu Alþýðuflokkur.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. minntist á gróða heildsalanna og hringanna, þá tók ég það sérstaklega fram í minni ræðu, að sá, sem ætlaði að gera þessar ráðstafanir í gengismálunum, yrði að þora að ráðast á þá, og ég benti á, að með þessu frv. er engin hreyfing í þá átt. Það er hlægilegt, þegar hv. þm. Seyðf. þykist vera að taka undir þessar kröfur og segist vona, að þeirri ríkisstj., sem hann langar til að komast i, takist að framkvæma þær, rétt eins og honum detti slíkt í hug. Það er landsbankaráðið, sem hefir komið sér saman um þetta frv. Það er líka auðséð, frá hvaða sauðahúsi það var, fyrst það kemur almenningi illa. Það hafa flestar n. skilað nál. nema bankanefndin, og lýsi ég hér með eftir því. Þessi bankan. var sett fyrir tveim árum síðan. Og ástæðan fyrir því, að ekkert hefir heyrzt frá nefndinni, er víst sú, að bankaráðið þorir ekki að horfast í augu við það öngþveiti, sem það er búið að skapa.

Þá var hv. þm. G.-K. að tala hér áðan. Mér finnst satt að segja, að hann hefði helzt ekki átt að standa hér upp. Hann er að tala um viðreisn atvinnulífsins, en hann meinar viðreisn Kveldúlfs. Og hann er að tala um, að verkalýðurinn eigi mest undir þessu komið. Hann meinar Thorsfjölskyldurnar. Hv. þm. var líka að tala um bannið við því, að kaup verkalýðsins hækkaði í eitt ár. Hann veit, að hjá þeim hálaunuðu, eins og honum og hans nótum, muni það haldast, og ekkert því til fyrirstöðu, að þeim verði bráðum tryggðir ráðherrastólar o. s. frv. Svo halda þeir fram, að þeir séu að halda fram rétti fólksins, og bera á okkur kommúnista, að við séum svo heimskir, af því að við getum ekki skilið, að þetta frv. miði að viðreisn atvinnulífsins. Það er svo augljóst samband á milli villubygginga Thorsaranna og lækkunar krónunnar, sem nú stendur fyrir dyrum hjá alþjóð, að það getur hver meðalskynsamur maður séð.