10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2890)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég mun ekki gera efni þessa frv. í einstökum atriðum að umræðuefni og ekki blanda mér inn í þær deilur, sem fram hafa komið í umr. á milli hv. þm. Hafnf. og hæstv. félmrh. Ég vil þó leyfa mér að fara aðeins fáum orðum um þann grundvallarstefnumun, sem hér er um að ræða.

Þetta frv. er fram komið af hendi Sjálfstfl. vegna þess, að sjálfstæðismenn innan verkalýðshreyfingarinnar telja, að þeir hafi verið beittir ofríki og að þeir hafi ekki fengið að njóta réttar innan verklýðsfélagsskaparins eingöngu af því, að þeir voru flokksmenn Sjálfstæðisflokksins.

Ég fyrir mitt leyti hefði kosið, og kýs, að um þetta þurfi ekki að setja lagafyrirmæli, heldur verði hægt að ná samkomulagi við Alþfl. um það skipulag á þessu máli, sem Sjálfstfl. vill una við. En hann vill ekki una við neitt það, sem setur þá verkamenn, sem tilheyra hans flokki, skör lægra heldur en nokkra aðra verkamenn.

Ég vil ekkert semja um þetta við Kommfl., því að hann er ekki þess virði. Hann myndi að sjálfsögðu svíkja það eins og annað, ef honum þætti það varða flokkslega hagsmuni. En náist ekki samkomulag við Alþfl., tel ég ekki annað fyrir hendi en að lögbjóða slík fyrirmæli í höfuðatriðum, þ. e. það frv., sem hv. þm. Hafnf. ber hér fram. Og ef hæstv. félmrh. er eins einlægur vinur verklýðshreyfingarinnar og hann vill vera láta, og ekki sízt nú, þá vil ég minna hann á það, að sérhver maður, sem stendur gegn því, að stéttarfélög verkamanna verði byggð upp á lýðræðisgrundvelli, hann er vitandi vits að stofna verkalýðssamtökunum í voða.

Það verður ekki hjá því komizt, að ef sjálfstæðismenn fá ekki jafnrétti á við aðra menn í verklýðsfélögunum, þá eru afleiðingarnar augljósar, fyrst og fremst þær, að sjálfstæðismenn taka sig út úr og stofna einir félagsskap. En ég held, að það yrði ekki heppilegt. En verkamenn innan Sjálfstfl. munu gera þetta, ef þeir fá ekki að njóta fyllsta réttar innan verklýðssamtakanna.

Þessi fáu orð mín segja mína meiningu í málinu, og ég held, að mín meining í þessu máli sé meining Sjálfstfl. í heild. Ég hygg, að það mál, sem hv. þm. Hafnf. hefir flutt hér, sé stutt af svo miklum samhug sem mál getur frekast verið af einum flokki. Ég veit, að þetta er skýlaus krafa þeirra verkamanna, sem tilheyra Sjálfstfl., að þetta mál verði leyst á réttlátan hátt, þ. e. að allir verkamenn, hvaða flokki sem þeir tilheyra, fái notið sama réttar. Ég vildi að síðustu beina því til hæstv. félmrh., sem er forseti Alþýðusambands Íslands, að hann beiti sínum áhrifum til þess að þetta mál verði leyst á þann hátt, sem við sjálfstæðismenn getum unað við, sem er fullkominn réttlætisgrundvöllur.