03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Finnur Jónsson:

Ég þarf að bera af mér sakir (Forseti: Ein mínúta mun nægja til þess). Já, þær eru ekki svo margbrotnar. — Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég hefði í heimildarleysi og jafnvel gegn beiðni hans lánað Samvinnufélagi Ísfirðinga 30 þús. kr. virði í olíu. Ég lýsi því hér með yfir, að þetta eru helber ósannindi, en um viðskipti okkar að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða. Ég vil þó segja það, að þegar ég lét af störfum fyrir nokkru síðan, þá fékk ég mjög vinsamlegt bréf frá hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann þakkaði mér fyrir vel unnin störf í þágu Olíuverzlunar Íslands um margra ára skeið. Það vita allir, að þessi hv. þm. er ekki það góðhjartaður eða það laus við að vera aurasál, að hann hefði farið að þakka mér fyrir vel unnin störf, ef ég hefði lánað Samvinnufélagi Ísfirðinga 30 þús. kr. móti hans boði.