04.01.1940
Neðri deild: 103. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2961)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Ég held, að þessi löggjöf, sem hér er um að ræða, sé ákaflega óráðleg. Við erum ekki smátækir, Íslendingar, þegar við tökum upp nýmæli. Hér eru strax tekin 25% af vaxtaupphæðinni, — hér er allt stórt eins og í Ameríku. Svo er annað atriði stórmerkilegt við frv. Það er bara „fiskalt“, bara tekjufrv. fyrir ríkissjóð og alls ekki litið á, hvaða áhrif svona stórkostleg breyting hafi á peningaviðskipti manna milli. Þótt þetta eigi að dragast frá tekju- og eignarskatti, má gera ráð fyrir, að það sé aðeins ákvæði svona til bráðabirgða; fljótlega kemur að því, að þetta verði skilyrðislaus skattgreiðsla til ríkisins af þessum viðskiptum. Það getur ekki verið tilætlunin hjá Alþingi, að þetta sé verulegur og varanlegur tekjustofn. Hvernig yrði ástandið t. d. á kauphöllinni í Englandi dagana, sem það fréttist, að nú ætti bara að leggja 23% á alla vexti, sem greiddust í landinu?

Nei, þetta er stórhættulegt frv., og það dugir ekki að leggja á það þann mælikvarða einan, að það sé tekjufrv. Auk þess er það ákaflega ranglátt. Þeir, sem á löngum tíma hafa sparað saman eitthvert „kapital“, en kannske ekki vinnufærir lengur og e. t. v. svo illa staddir þrátt fyrir eignina, að þeir þykja ekki geta staðið undir neinum teljandi sköttum eins og er, þeir verða að greiða sín 25% af tekjunum, og þótt þeir eigi samkv. bókstaf l. að fá eitthvað af því aftur að ári liðnu eða einhvern tíma, vitum við um ríkisfjárhirzluna, að hún er lík og konungsgarður, rúm inngöngu, en þröng brottfarar.

Ástæðan til þess, ef þetta á að ganga fram, má ekki vera þvingun nokkurra þm., þótt þeir þykist þá hafa líf einhverra annara frv. í hendi sér. Mér þykir kynlegt, að ekki er leitað álits bankanna í þessu máli, — og þó ekki kynlegt, þar sem forvígismönnum þess er sjálfsagt ljóst, hvern dóm það mundi þar fá. Á smáatriði má annars sjá nokkuð um álit bankanna. Í fjhn. Nd. situr einn af bankastjórunum. Hann hefir nú komið því til leiðar að undanþiggja sparisjóðsinnstæður þessum skatti. Það er raunar hrein vitleysa frá sjónarmiði þeirra, sem sömdu frv., brot á „principi“ þess og gerir það að vanskapnaði. Svo á að gera þennan kryppling að lögum. — Ef svo fer, er það helzt vegna þess, að hér eru engir fulltrúar fyrir eigendur allskonar skuldabréfa, sem tryggð eru með veði, eða þá fulltrúar, sem hv. þdm. vilja ekki taka tillit til. — Er það ekki líka undarlegt, að ríkið gefur út þá löggjöf í fyrra, að gefa skuli út ríkisskuldabréf fyrir 3 millj. kr., en árið eftir kemur ríkið og tekur aftur ¼ af þeim vöxtum, sem það lofaði þeim, sem vildu vera svo vænir að kaupa bréf þess? Ég held, að hvergi nema á Íslandi gæti komið til mála að setja slíka löggjöf. Mér er, held ég, óhætt að segja, að það var ótti við svona löggjöf, sem felldi verkamannastjórnina norsku ákaflega skyndilega; þar, sem menn skilja þessa hluti betur en hér, er óttinn við þá svo mikill, að þau stjórnarvöld, sem misstíga sig svo, að láta skína i, að þau ætli að koma á slíkum lögum, sitja ekki lengi eftir það.

Þetta mál er túlkað svo, að verið sér að beita með auknum krafti l. um okurvexti. Það er ekkert nema blekking og fjarstæða að kalla allt okurvexti, sem er yfir 6%. En ef við samþ. þetta frv., verður bráðum að hækka takmark okurvaxta úr 6% í 8%, því að ¼ mun bætast við vaxtagreiðslur vegna þessa skatts; það verður tjón lántakenda. — Það er náttúrlega alveg þýðingarlaust að halda uppi löngum umr. um þetta, og ég vil verða við ósk hæstv. forseta og takmarka mál mitt. Þó vil ég benda forseta á, að leiðrétta þarf þskj. ofurlítið; c-liður 2. gr. er ekki til lengur.

Ég tel ráðlegast að þvinga ekki þetta frv. fram á þeim stutta tíma, sem eftir er á þessu þingi, það er málinu og þjóðfélaginu áreiðanlega fyrir beztu.