09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

11. mál, jarðhiti

*Bjarni Bjarnason:

Ég vil fyrir hönd okkar flm. færa allshn. þakkir fyrir afgreiðslu þessa máls; að vísu hefir það legið nokkuð hjá n., eins og hv. frsm. tók fram. Það, sem ég vil sérstaklega þakka hv. n. fyrir, er í fyrsta lagi, að hún hefir viðurkennt það, sem ég við 1. umr. þessa máls hélt fram, gagnstætt áliti hv. landbn. Hún hafði málið til meðferðar og fann því það helzt til foráttu, að það væri illa samið og ekki væri hægt að komast hjá því að semja það um. Nú hafa 3 þekktir lögfræðingar farið höndum um þetta frv. og ekki gert á því neinar formsbreytingar.

Hitt atriðið, sem ég vil þakka n. fyrir, er það, að hún hefir komið með brtt., sem ég tel til bóta, — ég held allar, að undantekinni þeirri, sem fjallar um 7. gr. Þrátt fyrir það, þó að n. geti ekki fallizt á 6. gr. eins og hún er orðuð í frv., tel ég. að breyting n. þar sé til bóta frá því, sem nú er. Þess vegna mun ég verða með brtt., sem og hinum. Ég tel, að með brtt. sé stefnt í rétta átt, þótt n. hafi ekki gengið eins langt um afstöðu ríkisins gagnvart jarðhita eins og við flm. vildum. Mín skoðun er sú, að slík náttúrugæði sem jarðhiti séu bezt komin í höndum ríkisvaldsins og í eign ríkisins. Þannig myndi hann verða bezt hagnýttur bæði í þarfir hins opinbera og einstaklinga. Hitt atriðið, sem ég fór fram á og styrkir þessa skoðun, er það, að ég er hræddur um, að þessi gæði og verðmæti verði um of eftirsótt af einstökum mönnum. Ég segi um of, með því að jarðhiti er nú kominn í mjög hátt verð. Þannig verður ekki hægt að nota hann í þarfir almennings og við ýmsar framkvæmdir, einmitt vegna þess, að hann verður svo dýr í meðferð. Það er því ekki ástæðulaust að lögbinda kaup og sölu jarðhita. Þessi náttúrugæði eru of dýrmæt til að ganga kaupum og sölum milli manna, sem ekki kunna eða vilja hagnýta þau í þágu fjöldans. Ég treysti því, að smátt og smátt verði þeirri nauðsyn fullnægt, að ríkið eignist allan jarðhita. og ekki verði langt að bíða þess, að slík ákvæði lögfestist. Ég mun verða með þeim brtt., sem hér hafa verið fluttar, og óska, að þetta mál nái fram að ganga, fyrst og fremst hér í hv. d., og nái svo lögfestu á þeim grundvelli, sem allshn. hefir lagt.