18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Bergur Jónsson:

Hæstv. forseti hefir nú lýst því yfir, að hann sjái sér eigi fært að verða við þeirri ósk hv. þm. V.-Húnv. að taka frv. þetta út af dagskrá, þar til séð er, hvort hv. fjvn. áætlar fé í fjárlögum til þeirra fjárframlaga, sem frv. þetta kann að hafa í för með sér.

En eins og hv. flm. frv. er kunnugt, var það shlj. álit allra nm., nema ef til vill hans sjálfs, að varla væri gerlegt að gera þetta frv. að l. með því fjárframlagi, sem þetta hefir í för með sér fyrir ríkissjóð, nema hæstv. fjmrh. eða fjárveitingavaldið sjálft, Sþ., sæi sér fært að leggja fram fé það, sem frv. gerir ráð fyrir, að lagt verði fram samkv. 2. gr. til þess sjóðs. sem á að stofna samkv. frv. Til þess að ná þessu marki vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við frv., svo hljóðandi:

„Á eftir 8. gr. frv. komi svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði :

Ákvæði laga þessara koma til framkvæmda, þegar fé hefir verið veitt til sjóðsins í fjárlögum samkv. ákvæðum 2. gr.

Ég býst við, að hv. flm., 6. þm. Reykv., geti gengið inn á þessa till. Í henni felst vitanlega ekki að veita fjvn. neitt einræðisvald, enda óskar enginn okkar nm. eftir að láta henni slíkt í té. heldur er hér eingöngu sleginn sá varnagli, að ekki verði hafizt handa um stofnun þessa sjóðs, fyrr en fjárveitingarvaldið hefir lýst yfir með ákvæði í fjárl., að það teldi ríkissjóði fært og rétt að leggja fram það fé, sem frv. gerir ráð fyrir, að ríkissjóður leggi í þennan sjóð.