18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3107)

51. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Thor Thors:

Ég vil leyfa mér að benda á það, að það er óalgengt að setja slík ákvæði í 1., að þau komi ekki til framkvæmda nema fé sé til þess veitt í fjárl. Þetta er aðeins gert, þegar um einhver vandræðabörn er að ræða og þm. þora ekki að ganga hreint til verks, en vilja eyða málinu á þann hátt. — Það er þáttur löggjafarvaldsins að segja fjárveitingarvaldinu fyrir verkum, og það er skylda fjárveitingarvaldsins að fara eftir því. — Ég þarf ekki að benda jafnglöggum manni og hv. þm. Barð. á það, hver er munurinn, ef frv. verður samþ. eins og það er, eða með brtt. hans. Ef frv. er samþ. óbreytt, er það bein skylda fjárveitingarvaldsins að taka upp í fjárl. greiðslu til þess að standast þann kostnað, er það hefir í för með sér, en verði brtt. hv. þm. Barð. samþ., er fjárveitingarvaldinu gefið undir fótinn að fresta framkvæmd málsins.

Hv. þm. Borgf. talaði í ræðu sinni sem fjvn.maðurinn, en það virðist vera skoðun þeirra hv. þm., er þar eiga sæti, að öll löggjöf eigi að berast undir fjvn., og að ekkert mál eigi fram að ganga nema þessir 9 ágætismenn samþ. En það er ekki tilætlun stjórnarskrárinnar, að löggjafarvaldið sé fengið í hendur 9 mönnum, þótt góðir séu. Hv. þm. Borgf. virðist þeirrar skoðunar, að fjvn. sé nokkurskonar útflutningsnefnd, og að engin löggjöf megi berast til þjóðarinnar nema fjvn. hafi sett þar sinn stimpil á.

Umælum hv. þm. Ísaf. út af alþýðutryggingunum þarf ég ekki að svara; hv. þm. Borgf. tók þar af mér ómakið að mestu leyti, en ég álít, að reynslan af alþýðutryggingunum sé ennþá of stutt til þess að unnt sé að leggja þar nokkurn dóm á. — Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um frv., er ég hefi borið fram um hafnargerð í Stykkishólmi, — að það væri á valdi fjárveitingavaldsins, hvenær l. kæmu til framkvæmda, ef frv. nær samþykki, — vil ég geta þess, að l. koma strax til framkvæmda, að því leyti, að ríkissjóður er skyldur að taka ábyrgð á láni til hafnargerðarinnar, en það er mjög mikilsvert atriði til þess að unnt sé að hefjast handa. Þessi mál eru því alls ekki sambærileg.