03.04.1939
Efri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í raun réttri var aðdragandi þessa máls sá, að skipuð var nefnd til þess að athuga hag og rekstur togaraútgerðarinnar. Þessi nefnd hefir ekki skilað áliti fyrr en í dag, og hefir því nú verið útbýtt hér á Alþingi. Þó hefir stjórnmálaflokkunum verið kunnugt um þær aðalniðurstöður; er nefndin hefir komizt að um hag og rekstur togaraflotans undanfarin ár.

Við þessa rannsókn hefir það komið í ljós, sem mönnum var raunar áður kunnugt, að togaraflotinn hefir verið rekinn með tapi, og það mjög verulega undanfarin ár. Mun láta nærri, að tap alls flotans nemi á þeim árum, sem skýrslur nefndarinnar ná yfir, um 1 milljón króna árlega, eða um 30 þús. kr. á hvern togara að meðaltali. Efnahagur togaraútgerðarinnar er einnig þannig, að hann getur ekki lengur með nokkru móti þolað þessi töp, og mörg fyrirtækin eru nú þegar þannig á vegi stödd, að þau eiga ekki fyrir skuldum.

Þótt ekki liggi fyrir eins nýjar skýrslur um afkomu bátaútvegsins, þá er vitað mál, að hann hefir einnig undanfarið verið rekinn með tapi. Þótt ágóði hafi orðið af síldveiðum bátanna, þá hefir sá gróði meir en etizt upp á þorskvertíðinni, enda hafa margir bátar verið látnir liggja yfir þorskveiðitímann, en aðeins stundað síldveiðar.

Afleiðing þessa hefir komið fram í því, að útflutningur þjóðarinnar hefir sízt farið hækkandi þrátt fyrir stóraukinn útflutning vissra afurða, eins og t. d. síldarafurða. Einnig hefir þetta birzt í hinum langvarandi gjaldeyriserfiðleikum, sem við höfum átt við að búa. Undanfarið hefir oft verið á það bent, að það, sem þjóðinni ríði mest á, væri aukinn útflutningur og aukning framleiðslunnar á öllum sviðum. Hafa menn komizt að þeirri niðurstöðu, að eina ráðið til þess væri að láta framleiðsluna bera sig betur, svo að fjármagnið leitaði þangað, en ekki til annarra síður nauðsynlegra hluta. Nú er það ljóst af þeim ummælum, sem fallið hafa hér í dag, og raunar áður líka, að allir viðurkenna nauðsyn þess að bæta rekstrarafkomu útvegsins, en hinsvegar deilt um, hvaða leiðir skuli fara að þessu marki. Einkum er þó hér um tvennt að velja. Annarsvegar að leggja skatta á þjóðina og verja þeim til verðuppbótar á útflutningsvörur landsmanna, eða hinsvegar að fara þá leið. sem lagt er til í þessu frv., að lækka verðgildi íslenzkrar krónu. Hefir verið nokkuð um það rætt, hverjir ættu að bera byrðarnar í sambandi við lausn þessa máls. Ef til vill finnst mörgum ofureðlilegt að taka þá fjármuni, sem hér þarf á að halda, af þeim, sem kallaðir eru betur megandi, m. ö. o. að taka verulegan hluta þessarar fjárhæðar með beinum sköttum. Ég vil í þessu sambandi láta það í ljós sem mína skoðun og meðflm. minna að þessu frv., að þessi leið sé ekki fær. Ef við athugum samanlagt útsvar og tekjuskatt hér hjá okkur nú og berum saman við það, sem er í nágrannalöndum okkar, þá sjáum við, að við höfum nú þegar gengið lengra í þessu efni en aðrir. Ég álít að vísu, að sú leið sé réttlátari, en fyrir því eru þó takmörk, hve langt er hægt að ganga á þeirri braut. Ég get nefnt nokkur dæmi máli mínu til sönnunar. Ber ég þá fyrst saman skatta og útsvör hér í Reykjavík og Kaupmannahöfn, en Danir búa, sem kunnugt er, við frjálslynt stjórnarfyrirkomulag. Skattar og útsvör í Reykjavík eru lægri á mönnum með 3 þúsund króna hreinar árstekjur heldur en í Kaupmannahöfn. En þegar kemur upp fyrir 4 þús. kr. hreinar tekjur, þá eru skattar og útsvör mun hærri í Reykjavík en Kaupmannahöfn. Af 10 þús. kr. hreinum tekjum hér nema skattar og útsvör 3300 kr., en í Kaupmannahöfn 1590 kr. Af 15 þús. kr. tekjum hér verður að greiða 7047 kr. í útsvar og skatta, en 2885 kr. í Kaupmannahöfn; af 20 þús. kr. tekjum greiða menn hér 11532 kr., en í Kaupmannahöfn 4326 kr.; af 30 þús. kr. hreinum tekjum eru hér greiddar 21 þús. kr. í útsvar og skatta, en 7800 kr. í Kaupmannahöfn.

Þetta hygg ég, að nægi til að sýna það, að í þessu efni höfum við gengið verulega mun lengra en þær þjóðir, sem næst okkur búa, og það er mín skoðun, að við getum ekki gengið lengra í þessa átt, svo að nokkru verulegu nemi. En ég vil slá því föstu, að sú tilfærsla fjármagnsins, sem framleiðslunni er nauðsynleg, getur ekki orðið framkvæmd með álagningu beinna skatta eins og nú er háttað. Það er þess vegna engum vafa undirorpið, að et sú leið væri valin, að bæta með verðlaunum upp útflutning landsmanna, þá yrði að afla fjármagns til þess að langmestu leyti með auknum tollum á aðfluttar vörur eða með almennum launaskatti. Framhjá þessari staðreynd verður ekki með nokkru móti komizt, eins og bent er á í greinargerð frumvarps þess, er hér er til umræðu. Slíkar ráðstafanir myndu því verða til þess að auka mjög dýrtíð í landinu og gera aðstöðu launamanna verri, engu síður en þær leiðir, sem fara á samkv. frv.

Nú hefir verið talið, að til þess að sæmilega væri séð fyrir hag togaraútgerðarinnar, þyrfti verð útfluttra afurða að hækka a. m. k. um 8%, enda komi þá engin verðhækkun á útgerðarvörur. Hefði það því aldrei orðið fjarri 5 millj. kr., sem þurft hefði að leggja á þjóðina af nýjum tollum og sköttum til að standast verðuppbótina. Nú myndu verða um það miklar deilur, hvaða vörur ættu að koma undir þessa nýju tolla. Einnig myndu verða endalausar deilur um það, hvaða vörur skyldu njóta útflutningsverðlauna og hverjar ekki. Yrði sífelld togstreita um það, hvort verðlagi þessarar eða hinnar vörutegundarinnar væri svo háttað, að ástæða væri til að bæta það upp með verðlaunum, o. s. frv. Með öðrum orðum. að ef gengið væri inn á þessa braut, væri komið út á svo hálan ís, að hvergi væri þar fótfestu að fá. Ég þekki ekki til þess, að í nokkru landi hafi sú leið verið farin, að veita útflutningsverðlaun fyrir yfirleitt allar framleiðsluvörur landsmanna, þótt sumar þjóðir hafi tekið þann kost að veita verðuppbót á hluta útflutningsins. Hinsvegar er vitað, að margar af þeim þjóðum, sem við eigum viðskipti við, eru mjög andvígar þessari styrkjaleið og telja hana valdu óheiðarlegri samkeppni. Fara Bandaríkjamenn t. d. ekki dult með þessa skoðun sína.

Þá má geta þess, að vegna viðskiptasamkomulags okkar við Stóra-Bretland gætum við ekki tollað fjölda vörutegunda, sem samningurinn undanþiggur frekari tollun en nú er á þessu. Myndu því margar vörur sleppa alveg við tollinn, þótt þær gætu engu að síður þolað hann en aðrar vörur. Í skjóli almennrar tollahækkunar myndu milliliðirnir því ná til sín miklum gróða af þessum varningi. — Að lokum vil ég benda á, að með styrkjaleiðinni kemst framleiðslustéttin í þá aðstöðu, að öllum, sem greiða tolla og skatta, öllum, sem taka laun, finnst þeir vera að greiða ölmusu til þeirra, sem framleiðsluna stunda. Með þessu myndi skapast það viðhorf. sú fáránlega skoðun, að framleiðslan væri byrði á þjóðarheildinni og að hún lifði á náðarbrauði þeirra, sem hvergi koma nærri framleiðslu. Þótt styrkjaleiðin yrði valin, myndu menn álíta, að þar væri aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, en framtíðarráðstöfunin, gengislækkunin, myndi koma von bráðar. Myndi slík skoðun skapa hinn mesta rugling í allri verzlun og viðskiptum.

Það, sem ég hefi bent á, eru að mínu áliti nægileg rök gegn því, að uppbótarleiðin verði farin. En þó er sú ástæða ótalin, sem taka varð tillit til við lausn málsins, og hún er, hvor af þessum umræddu leiðum væri fljótvirkari til bóta á gjaldeyrisverzluninni, sem verið hefir mjög örðug hin síðari ár vegna þeirra erfiðleika, sem að þjóðinni hafa steðjað um skeið. Hefir eftirspurnin eftir erlendum gjaldeyri verið mun meiri en unnt hefir verið að fullnægja, þrátt fyrir ráðstafanir til þess að draga úr innflutningi til landsins og örva útflutningsverzlunina. Ef gjaldeyrisverzluninni hefði ekki verið haldið fastri með gjaldeyriseinkasölu bankanna, myndi erlendur gjaldeyrir hafa stigið fyrir löngu, þ. e. a. s. íslenzka krónan fallið í verði. Það er viðurkennt, að æskilegast sé að halda genginu sem stöðugustu, en það er örðugt til lengdar að hafa gengisskráningu, sem raunverulega er í miklu ósamræmi við verðgildi peninganna á frjálsum markaði. Undir slíkum kringumstæðum er erfitt að koma í veg fyrir ólöglega verzlun með gjaldeyri og fjárflótta. Þetta atriði hefir átt sinn þátt í því, að einmitt verðfelling krónunnar var valin. Nú er ekki nema eðlilegt, að menn leggi fyrir mig þá spurningu, hvort ég sé því samþykkur, að verðgildi krónunnar sé yfirleitt breytt eftir því, sem hún reynist að vera i frjálsri sölu. Svara ég þeirri spurningu hiklaust neitandi, enda þótt ég telji nú ástæðu til að minnka að verulegu leyti þann mikla mun, sem er á skráðu gengi krónunnar og gengi hennar í frjálsri sölu. Ég álít, að allt kapp verði að leggja á það að halda gengi krónunnar föstu, eftir að sú lækkun hefir verið gerð, sem fyrir dyrum er, og reyna að skapa traust á því gengi. — Það hefir verið minnzt á það hér, að gengisbreytingin myndi veikja traust landsins út á við. Ég álít, að allir, sem viðskipti hafa við Ísland, muni vita, að gjaldeyrisframboðið hefir um nokkur ár verið mun vinna en eftirspurnin, og að þess vegna hafa myndazt hér innifrosnar vöruskuldir. Þegar svo er ástatt, mun litið á lækkun krónunnar sem ákveðna tilraun til þess að bæta hag þjóðarinnar, en ekki sem vott um neina nýja erfiðleika í viðskiptalífi þjóðarinnar. Ég vil benda á það, að margar þjóðir hafa á undan okkur gert ráðstafanir hliðstæðar þessum, sem hér er lagt til að gerðar séu. Stóra-Bretland lækkaði fyrir nokkru gengi sins gjaldeyris, Danmörk fyrir örfáum árum og Frakkland nú alveg nýlega. Hefir þess ekki orðið vart, að neitt vantraust hafi við það skapazt á fjármálalífi þessara þjóða.

Enginn vafi er á því, að fáar eru þær ráðstafanir sem mönnum gengur erfiðlegar að átta sig á en einmitt breytingar á verðgildi krónunnar. Þetta er einnig óspart notað í stjórnmálabaráttunni og misnotað á hinn herfilegasta hátt.

Algengast er að heyra því haldið blákalt fram, að við gengislækkun lækki allt kaupgjald i landinu sem nemi gengislækkuninni, og þá er því um leið slegið föstu, að hún sé fyrst og fremst árás á launastéttirnar. Um þetta er það fyrst að segja, að það er bláber misskilningur hjá mörgum, og hjá öðrum blekking, að gengislækkun þýði samsvarandi kauplækkun. Það fer allt eftir því, að hve miklu leyti tekst að hamla því. að dýrtíðin aukist i hlutfalli við gengislækkunina, og jafnframt eftir því, að hve miklu leyti gengislækkunin hefir áhrif til þess að auka atvinnu eða koma í veg fyrir að hún minnki. Það getur hæglega komið fyrir það ástand, að það sé beinlínis hagsmunamál launastéttanna engu siður en annarra þjóðfélagsþegna, að gengislækkun sé framkvæmd, eða önnur hliðstæð ráðstöfun til hags fyrir framleiðslustarfsemina i landinu.

Í frv. því, sem hér er flutt um verðskráningu íslenzku krónunnar, eru ákveðnar öflugar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að dýrtíð aukist í landinu að sama skapi sem verðgildi krónunnar hefir verið lækkað, og ennfremur er ákveðið að notfæra sér ákvæði löggjafar, sem nú er í gildi, til þess að vinna i sömu átt.

Verðlagseftirlit mun verða aukið, og er ástæða til að vænta þess, að takast muni að koma í veg fyrir verðhækkun að mjög miklu leyti á þeim vörum, sem mikið hefir verið lagt á í verzlun undanfarið.

Ákvæði eru í frv. þessu um, að húsaleiga skuli óbreytt standa frá því, sem hún hefir verið ákveðin áður en gengislækkunin var ákveðin. Er þetta geysimikið hagsmunaatriði fyrir almenning, en hinsvegar fyllilega sanngjarnt, þar sem það kemur í veg fyrir, að húseigendur geti hagnazt á því, að dýrara verður að byggja eftir að gengislækkunin er komin á. Til enn frekari tryggingar því, að gengislækkunin komi sem minnst niður á þeim, sem verst eru settir, eru þau ákvæði i frv., að eftir 3 mánuði skal gera athugun á framfærslukostnaði. Sýni það sig, að framfærslukostnaðurinn hafi hækkað um 5% eða meira miðað við janúar-marz 1935, skal kaupgjald ófaglærðs verkafólks, sjómanna og þeirra fastlaunaðra manna, er hafa 3 600 kr. árslaun eða minna, hækka um heiming hins aukna framfærslukostnaðar, ef hann er ekki yfir 10%, en um 2/3, ef meiru nemur. Eru þessi ákvæði til að tryggja, að gengislækkunin lendi ekki nema að litlu leyti á því fólki, sem lægst er launað. En á það má benda, að allir þeir, sem stunda lausavinnu, eiga beinlínis von á launahækkun vegna þeirrar auknu atvinnu og lengri vinnutíma árlega, sem ætla má, að verði ein höfuðafleiðing frv. þessa, ef að lögum verður. Það er almenn skoðun meðal verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, að ekki sé undan kaupgjaldinu að kvarta, heldur hinu, að atvinnan sé stopul, og þess vegna, séu heildartekjurnar eftir árið of lágar. Ef við tölum við verksmiðjufólk og iðnaðarmenn, þá kvartar það ekki undan lágu kaupgjaldi, heldur atvinnuleysi eða stopulli vinnu, vegna þess að atvinnurekendurna skortir hráefni til að vinna úr. En með þessum ráðstöfunum halda ýmsir, að enn erfiðara verði um öflun hráefna. Þetta mun reynast á allt annan veg. Hinn aukni útflutningur almennt mun skapa meiri kaupgetu á erlendri efnivöru bæði til iðnaðarmanna og annarra.

Í frv. þessu eru ákvæði um, að verð innlendrar framleiðslu skuli standa óbreytt fyrst um sinn, en síðan hækka eftir sömu reglum og kaup verkamanna og sjómanna. Þá verðhækkun, sem verða kann á erlendum varningi, verða menn að reyna að bæta sér upp á þann hátt, að beina kaupgetu sinni meir en áður að innlendu framleiðslunni. Fyrir innlenda framleiðendur ætti þetta að leiða til mjög aukins markaðs innanlands.

Fljótt á litið virðist svo sem þeir, er eiga sparifé í bönkum, tapi nokkru á þessari ráðstöfun, sem hér er ætlazt til, að gerð verði. Það ber því að leggja sérstaka áherzlu á, að ómögulegt er fyrir þessa menn að halda því fram. að þeirra hagsmunum sé borgið, meðan framleiðslan er rekin með tapi. Það er ekki hægt að halda áfram að greiða þeim laun endalaust, nema það takist að auka framleiðsluna. Svipað má segja um hagsmuni sparifjáreigenda. Þeir fá ekki heldur vesti af fé sínu, og ekki einu sinni höfuðstólinn, ef framleiðslan ber sig ekki meir. Hagsmunir þessara manna verða ekki skildir frá hagsmunum þjóðarheildarinnar.

Ef við lítum svo á hitt, hvaða sanngirnismál það er að rétta nokkuð hluta framleiðenda, þá sést, að útflutningsverð á fiski hefir lækkað úr 110–160 kr. á skippund árin 1928–29 í 73–85 kr. á skippund árin 1936–38. Tímakaup hefir hinsvegar hækkað á sama tíma um 20%. Fast kaup sjómanna hefir einnig hækkað nokkuð. (SÁÓ: Ekki rétt). Jú, það hefir hækkað. En nauðsynjar almennings hafa haldizt í svipuðu verði. Vísitala hagstofunnar hefir að meðaltali verið nærri nákvæmlega hin sama 1936–38 og hún var 1928–29. Þegar þessar tölur eru athugaðar, er ómögulegt að taka það tal alvarlega, að þetta frv. sé sérstök árás á launastéttirnar.

Ég skal nú ekki tefja tímann mikið lengur við þessa umr., vil þó að endingu taka þetta fram um afstöðu Framsfl. til gengislækkunar: Undanfarin ár hefir mikið verið um það mál rætt utan þings. Einn af flokkunum hefir haldið því fram, að breyta ætti allverulega skráningu krónunnar og gera það til hagsbóta fyrir bændastéttina. Framsfl. hefir alltaf svarað því, að óvíst væri, að hér væri að ræða um hagsmunamál bændastéttarinnar sem heildar, og bann hefir bent á, að þegar hann hefir gert tillögur og ráðstafanir vegna bændastéttarinnar, hefir hann valið aðrar leiðir, sem engin tvímæli léku á, að voru til hagsbóta.

Hinsvegar hefir það verið skýrt tekið fram, að þegar sérstakra ráðstafana er þörf til þess að bæta hag þeirra, sem framleiða til útflutnings, gegndi öðru máli. Svo erfitt getur ástandið orðið, ef framleiðslan dregst saman, að það gæti orðið beint hagsmunamál — líka fyrir fleiri stéttir en framleiðendur — að gera breytingu á gengi krónunnar framleiðslunni í hag. Þess vegna er ekkert ósamræmi í því hjá flokknum að sporna móti gengislækkun, sem ekki var nógu rökstudd, en framkvæma hana nú, þegar óumflýjanleg nauðsyn kallar.

Fyrir tveim árum horfði málið allt öðruvísi við, og var vonazt eftir, að kröggur útflutningsframleiðslunnar leystust á annan hátt. Nú er ástandið orðið það langdregið, að lengur dugir það ekki, og ekki rétt að búast við, að verðlag breytist á næstunni til hagsbóta fyrir útgerðina, — fiskverð hefir nú siðast breytzt til hins verra. Framsfl. telur því ekki rétt að reyna að fresta lengur þeirri hjálp til framleiðslunnar, sem hér er stofnað til. Hann hefir valið gengislækkun frekar en að skattleggja allan innflutning til að afla fjár til útflutningsverðlauna, enda er víst, að ekki hefði sú leið orðið betri fyrir alþýðu manna í landinu.

Það hefir borið á því hér, að menn hafa viljað gæta sérhagsmuna þeirra stétta, sem þeir telja sig einkum fulltrúa fyrir. Það má vera, að ekki sé hægt að koma á fullu réttlæti með öllum stéttum í þessu máli. En það er ekki frekar hægt með öðrum aðferðum, sem hér er kostur á. Reynslan mun skera úr um árangur. En við skulum vona, að allir geri það, sem þeir geta, til þess að breytingin verði til gagns, þegar hún hefir nú einu sinni verið gerð, — og það eins þeir, sem verið hafa móti því að gera hana — en engir verði til að spilla fyrir því.