27.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

119. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Ísleifur Högnason:

Þessar fyrirspurnir, sem hafa verið gerðar, gefa ekki tilefni til langra umr. Ég vil aðeins segja það, að það er ekki mín sök, þó að hv. flm. láðist að skírskota til 32. gr., þegar hann var að tala um 31. gr. Greinin er á þá leið, að félmrh. er í sjálfsvald sett, hvort hann setur bæjar- og sveitarfélag undir eftirlit. En væri það tekið fram í gr., að aðeins samkv. 32. gr. mætti hann nota þessa heimild, er öðru máli að gegna. En þetta fékk ég ekki séð við lestur frv. Ég fyrir mína parta sé ekki, að mikið sé eftir af sjálfsákvörðunarréttinum.

Ráðherra getur skipað aðra menn, samkv. 34. gr., til aðstoðar eftirlitsmanni, og mun nást betri árangur á þann hátt. Ennfremur samkv. 46. gr. getur eftirlitsmaður selt fasteignir sveitarfélags og aðrar eignir, ef það er undir eftirliti. Honum er og heimilt að leigja eignir slíks sveitarfélags eða fela öðrum rekstur þeirra, ef hann telur, að það muni betur fara en í höndum sveitarstjórnar. Ég veit ekki, hvað er eftir af sjálfsforræði sveitarfélaganna, þegar hægt er að taka öll fjárráð af þeim. Eftirlitsmaður getur samið fjárhagsáætlun sveitarstjórnar, sem leitað hefir á náðir hins opinbera, og eru sveitarstjórnir bundnar við greiðslu samkv. fjárhagsáætlun, sem ráðuneytið setur. Væri ekki eðlilegast, ef bæjarfélag kæmist í gjaldþrot, að nýjar kosningar færu fram, svo að fólkið sjálft tæki ákvörðun um, hvort slíkum rekstri sé haldið áfram? Að mínu áliti er rétta leiðin, að fólkið sjálft ráði sínum örlögum. — Að lokum vil ég segja það, að ég álít, að þess vegna eigi ekki að taka ákvörðun um þessi lög nú, heldur væri rétt að leita álits sveitarfélaga um, hvernig þeim líkar þessi löggjöf.