30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (3272)

139. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Flm. (Jón Ívarsson):

Herra forseti! Ég hefi leyft mér að bera fram lítið frv. á þskj. 341, um samkomudag reglulegs Alþ., en ég ber það hvorki fram að tilhlutun hæstv. ríkisstj. né að tilhlutun nokkurs flokks, heldur vegna þess, að ég álít sjálfur, að sá tími ársins, sem nú er ákveðinn sem samkomudagur Alþ., sé óheppilegur og þess vegna þurfi að breyta honum. Eins og kunnugt er, hefir verið ákveðið í stjskr. Íslands síðan 1920, að Alþ. skyldi koma saman 15. febr., og reglulegt Alþ. hefir síðan komið saman á þeim tíma. En þar næst áður voru haldin sumarþing frá árinu 1912 samkv. þáverandi stjskr. Árin 1909 og 1911 voru háð vetrarþing, en þar áður ávallt sumarþing.

Þetta ákvæði stjskr. gat gengið nokkurn veginn reglulega frá 1920 og fram yfir 1930, en síðan hefir komizt ruglingur þar á, svo að Alþ. hefir oftast verið háð í tvennu lagi, og vona ég, að hv. þm. hafi gert sér ljóst, að það er óheppileg tilhögun, að halda Alþ. í tvennu lagi, nokkurn hluta þess á fyrri helmingi ársins, en hinn á seinni hluta hvers árs. En þannig hefir það gengið til síðan árið 1933, að á því tímabili hafa aðeins tvö þing verið haldin í einu lagi, sem sé árin 1936 og 1938, en öll hin árin hefir Alþ. verið háð í tvennu lagi. Árið 1934 var þó aðeins haldið eitt þing, en það var haustþing. Þá hafði verið gerð breyt. á stjskr., sem leiddi til nýrra kosninga, og þess vegna var Alþ. háð á þeim tíma ársins nokkru eftir að kosningum lauk. Árið 1935 var vetrarþing á venjulegum tíma, en því síðan frestað til haustsins, og sömuleiðis árið 1937, en þá var að vísu þingrof og kosningar um sumarið, og á þessu ári var fyrri hl. Alþ. haldinn á ákveðnum tíma, en síðari hluti þess stendur nú yfir. Sú frestun á þinghaldi stafar e. t. v. af því, að í vor var efnt til samstarfs milli flokkanna og mynduð samsteypustj. eða þjóðstjórn.

Þær ástæður liggja til þess, að ég vænti, að öllum þm. sé ljóst, að óheppilegt er að halda Alþ. á fyrri hluta ársins, að í fyrsta lagi er afkoma atvinnuveganna á því ári, sem í hönd fer, einkar óviss. Það er bæði óvíst um, hvernig hagur einstakra atvinnugreina verður og hve miklar tekjur þær gefa, og það, sem mestu gildir, er, að verzlunarjöfnuður eða greiðslujöfnuður ársins gagnvart útlöndum er óviss fyrri hl. ársins, og þess vegna óvíst, hverjar tekjugreinar ríkissjóðs verða fyrir þann tíma, sem fjárl. eru sett. En það þarf að áætla tekjur og gjöld ríkisins sem nákvæmast fyrir það fjárhagsár, sem fjárl. gilda. Þessar ástæður eru að minni hyggju svo þungar á metunum, að nauðsyn beri til að færa til þann tíma, er Alþ. skuli koma saman. Þegar gengið er frá fjárl., er nauðsynlegt, að búið sé að komast að því, hvers vænta megi á þeim tíma, sem fjárl. gilda fyrir. Það mun öllum vera ljóst, að mikið er undir því komið, þegar fjárl. eru sett, að þm. geti gert sér grein fyrir afkomu yfirstandandi árs og hvers vænta megi um tekjur næsta árs og hvernig atvinnuvegunum muni farnast á því ári, sem fjárl. eru afgr. fyrir. Það mætti e. t. v. mæla með því, að fjárhagsárinu yrði breytt og hafa fjárhagsár ríkisins annað en almanaksárið, t. d. að fjárhagsár ríkisins byrjaði 1. apríl eða 1. maí, og einu sinni mun hafa komið uppástunga um það, en sú till. mun hafa fengið lítinn byr og hefir ekki komizt til framkvæmda. Það er óvíst, að sú leið væri heppileg, enda mjög óviðkunnanlegt, sérstaklega þegar á það er litið, að allir einstaklingar og allar aðrar stofnanir en ríkið miða fjárhagsár sitt við almanaksárið. Ég tel mjög óviðkunnanlegt að taka ríkið eitt út úr og setja því annað fjárhagsár en yfirleitt gildir, sérstaklega þegar þar við bætist, að hæpið er, að annað fjárhagsár yrði heppilegra fyrir ríkisreksturinn en það, sem nú gildir.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að samkomudagur reglulegs Alþ. verði miðaður við 1. okt. ár hvert, og þinglokin verði miðuð við, að Alþ. verði lokið fyrir jól, eða um 20. des.

Ef reikna mætti með því, að Alþingi stæði með þessu móti 11–12 vikur, er augljóst mál, að við það sparaðist allmikið fé, samanborið við, að tvö þing væru á hverju ári, og ætti sá sparnaður að vera frv. til meðmæla, þótt ekki hafi það úrslitaáhrif um það, hvaða tími væri beztur til þinghaldsins; um það kemur fleira til greina.

Ég geng þess ekki dulinn, að sumir kunni að færa fram þá ástæðu sem rök gegn frv., að 12 vikur séu of stuttur tími til að Alþ. geti lokið störfum. Um það má deila, því að það fer eftir þeim málum, sem fyrir Alþ. liggja. En sé athuguð reynsla síðari ára frá 1934, kemur í ljós, að sé tekið tillit til þess, að flest þingin hafa verið háð í tvennu lagi, og aðalmálin, sem fyrir Alþ. hafa legið, hafa lítið komizt áfram á þeim þingum, er haldin hafa verið fyrri hluta ársins, heldur yfirleitt beðið eftir Alþ. því, sem haldið hefir verið seinni hl. ársins, er það ekki ýkjalangur tími, sem seinni þingin hafa staðið. Árið 1934 stóð Alþ., er var aðalþing og afgr. fjárl., í 83 daga. Árið 1935 voru haldin tvö þing, og seinna þingið, sem afgr. fjárl., stóð aðeins í 75 duga. Árið 1936 stóð Alþ. í 85 daga. Árið 1937 stóð síðara þingið í 75 daga, og var lítið búið að vinna að fjárl. og öðrum aðalmálum, sem fyrir lágu, á fyrri hl. þess þings. Árið 1938 stóð Alþ. í 87 daga. Á þessum 5 árum hefir Alþ. staðið frá 75–87 daga, eða að meðaltali 81 dag, og það samsvarar tímabilinu frá 1. okt. til 20. des., því að í mínu frv. er gert ráð fyrir, að Alþ. verði lokið fyrir jól, og vafalaust er tilætlunin, að því Alþ., sem nú stendur yfir, verði lokið fyrir hátíðar, og ef það tekst, hefir það ekki nema 7 vikur til umráða. Að vísu má vitna til þess, að á fyrri hl. ársins hafi verið haldið alllangt þing, en eins og kunnugt er, var lítið unnið að fjárl. á því þingi, og öll aðalstörfin koma niður á síðari hl. þess. Ef það tekst að afgr. fjárl. fyrir jól, hygg ég, að þar sé komin sterk ástæða til þess að sanna, að það sé nægilega langur tími, að Alþ. standi frá 1. okt. til 20. des. Eftir því, sem mér er kunnugt, hefir hv. fjvn. nú öllu meira verkefni en venjulega, og meira en á nokkru hinna undanförnu þinga, og ef nú tekst, þrátt fyrir það, að ljúka Alþ. fyrir jól, tel ég víst, að hverju meðalþingi mætti ljúka á 11–12 vikum.

En ef menn hafa ekki trú á, að Alþ. megi ljúka á 11–12 vikum, þá er sá möguleiki fyrir hendi, að fjvn. komi saman nokkru áður en Alþ. hefst, enda hefir það gengið þannig sum undanfarin ár, að fundir í fjvn. hafa byrjað nokkru áður en Alþ. kom saman, og getur það flýtt fyrir störfum Alþ. og stuðlað að því, að þau geti haldið áfram án tafar, eftir því sem föng eru á.

Nú er þannig ástatt, að við höfum fengið 5 manna ríkisstj. í stað þriggja áður, og með því móti ættu málin að verða betur undirbúin heldur en hjá þriggja manna ráðun. Sannleikurinn er sá, að hinn aukni kostnaður, sem því fylgir, að hafa 5 ráðh. í stað þriggja, og sérstaka stjórnarskrifstofu fyrir hvern þeirra, ætti að geta náðst upp með því, að þinghaldið yrði styttra hjá núverandi ríkisstj. en áður var. Sú ríkisstj., sem nú situr, hefir ekki aðeins fengið stuðning lítils meiri hl. þm., heldur mikils meiri hluta þeirra, svo að segja má, að allt að 9/10 hl. þm. séu henni fylgjandi. Undir þeim kringumstæðum álít ég, að hæstv. ríkisstj. eigi hægara með að ráða fram úr málum og hafi góð tök á því að ráðfæra sig við flokksstjórnir og fagmenn í ýmsum málum. Á þessu er mikill munur og hinu, er stjórn styðst við lítinn meiri hluta þingmanna.

Það má vel vera, að það, sem ég hefi sagt um þessa hluti, komi ekki fullkomlega heim við það, sem einstakir þm. kunna að álíta. Ég hefi styttri reynslu sem þm. en nokkur annar, sem hér á sæti nú, en sem áhorfandi og áheyrandi virðist mér þetta gæti verið þannig, og að þetta frv. ætti nokkru fylgi að fagna hér á Alþ. Ég vil vænta þess, að þm. vilji taka það til athugunar, hvort tök væru á að breyta þingtímanum í heppilegra horf en verið hefir undanfarin ár. Það má e. t. v. benda á eitt atriði, sem mælir á móti því að halda Alþ. seinni hluta ársins, sem sé það, ef þingrof yrði, þar sem flestir munu sammála um, að ekki sé heppilegt að hafa kosningar á öðrum tíma árs en á vorin, helzt í júnímánuði, og ýmsir kunna að líta svo á, að ekki væri rétt, að margir mánuðir liðu frá þingrofi til næstu kosninga. En þótt svo færi, skeði ekkert annað en það, sem ske myndi eins og nú standa sakir, því að engar líkur eru til þess, að það þing, sem kæmi saman á fyrri hluta ársins, myndi verða rofið, því að þá er aðalstörfunum lítið sinnt, og litlar líkur til, að mikið bæri á milli þá. Það eru miklu meiri líkur til, að þingrof yrði á seinni hluta ársins, þegar fjárl. og önnur stórmál lægju fyrir, og yrði þá sama uppi á teningnum eins og þótt ákveðið væri með l., að Alþ. skyldi standa frá 1. okt. fram til jóla, og tel ég því ekki, að sú ástæða væri nægileg til að vísa málinu frá eða snúast á móti því.

Til skamms tíma hefir verið álitið, að ekki mættu líða nema tveir mánuðir frá þingrofi þar til nýjar kosningar færu fram, en sá skilingur hefir hinsvegar komið fram á seinni tímum og verið viðurkenndur af ýmsum, að 8 mánuðir mættu líða milli þingrofs og nýrra kosninga, en það væri nægilegt að auglýsa kosningar innan 2 mánaða frá þingrofi. Samkv. þessu þyrfti kosningadagurinn ekki að vera fyrr en í júnímánuði, þó að Alþ. yrði rofið í nóvember eða desember.

Þess vegna virðast mér svo sterkar ástæður mæla með því, að samkomudagur Alþ. verði ákveðinn 1. okt., og svo lítil rök mæla á móti því, að full ástæða sé fyrir Alþ. að taka þetta frv. til rækilegrar athugunar og ræða það, áður en því er vísað frá.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar, en vil mælast til, að þessu frv. verði vísað til allshn., eða þeirrar n., sem hæstv. forseti telur, að það sé bezt komið hjá.