19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (3302)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Ég ætla mér ekki að skipta mér neitt af ræðu hv. 1. þm. Rang. Hv. 6. þm. Reykv. hefir gert honum og minni hl. n. svoleiðis skil, að ég þarf engu þar við að bæta. Ég vil aðeins svara einu atriði, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Rang. og einnig hv. 1. þm. Skagf., að nú stæði fyrir dyrum endurskoðun á fuglafriðunarlögunum. Það er kunnugt, að einu sinni var samþ. þáltill. um að láta slíka rannsókn fara fram, en í því hefir ekkert verið gert enn. (PHann: Það er ekki rétt). Svo að þetta er alrangt hjá þessum hv. þm. Það hefir ekkert komið fram um það í þinginu enn, og er þó búið að marglýsa eftir því. Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, að náttúrufriðunarnefnd eða einhver önnur n. væri að athuga þetta mál. Það getur verið, að það verði einhverntíma gert, en það liggur engin sönnun fyrir um það, og það er ómögulegt að láta það hafa áhrif nú á það mál, sem hér liggur fyrir til meðferðar.

Hv. 1. þm. Rang. talaði um þessa endurskoðun eins og ætti að friða alla vargfugla og ránfugla. Hann segir, að það sé undarlegt, að bera fram frv. um að eyða þessum fuglum, vegna þess að það ætti að koma með löggjöf um að friða allt fuglalíf, og sama kemur fram í nál. Þetta er mesti misskilningur. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður með heilbrigðri skynsemi láti sér detta í huga að friða veiðibjöllu eða aðra slíka fugla.

Hv. 7. landsk., sem er annar í minni hl. n. í þessu máli, minntist nokkuð á ákvæðið um, að mönnum sé skylt að eyða hrafni og svartbak. Hv. 6. þm. Reykv. benti réttilega á, að þetta ákvæði er nú þegar í l. frá 1936. (GÞ: Það er öðruvísi). Það er ekki öðruvísi. Menn verða því aðeins sektaðir um 300 kr., ef um er að ræða ásetning eða skeytingarleysi, en það kemur ekki til mála, þó að þeir fari ekki eltast við egg í öllu landi sínu. Þessi hv. þm. er lögfræðingur og ætti því að vita, í hverjum tilfellum beitt er hámarkssekt. Þetta er gert vísvitandi til þess að reyna að blekkja menn.

Annars er þetta mál miklu einfaldara en svo, að þurfi þennan hvalablástur, sem þessir hv. þm. eru með. Hér er um það að ræða, að herða á l. um eyðingu svartbaks og bæta við ákvæðum um eyðingu hrafns. Við höfum báðir tekið fram, að við álítum, að fyrst og fremst beri að leggja áherzlu á að eyða veiðibjöllu, en um þetta eru greindar skoðanir. Ég veit, að sumir telja hrafninn engu síður skaðlegan.

Sem sagt, það stendur frá okkar hálfu, að við munum ekki láta það standa algerlega í vegi, þó að hrafninn yrði tekinn út úr frv., ef meiri hl. er í d. fyrir því, en þá má ekki drepa frv. á þessu stigi.

Ég þykist þá með þessum orðum hafa sýnt fram á, að rökst. dagskráin frá hv. 1. þm. Skagf. á engan rétt á sér, og hv. þm. geta alls ekki dæmt um það, sem þar kemur fram um þessa endurskoðun á fuglafriðunarlögunum, sem hann segir, að sé verið að vinna að, af því að það hefir ekkert komið fyrir þm. ennþá. Þeir vita ekkert, hvað það muni breyta þeim ákvæðum, sem hér um ræðir. En ef hv. þm. vilja endilega aðskilja þessa tvo fugla, þá geta þeir gert það með brtt. við 3. umr.