16.12.1939
Neðri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (3333)

158. mál, mæðiveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Að vísu er tekið fram í grg. frv. um þær breyt., sem frv. felur í sér, en ég mun þó fara um það nokkrum orðum.

Breyt. sú á l. um varnir gegn mæðiveikinni, sem 1. gr. frv. felur í sér, er smávægileg. Hér er aðeins um fyrirkomulagsbreyt. að ræða, þ. e. hver fyrirskipi breyting á fjallgöngum, smölun heimalanda og rétta, ef nauðsynlegt telst til heftingar útbreiðslu veikinnar. Samkv. núgildandi lögum getur hreppsnefnd ákveðið þessar breytingar með samþykki mæðiveikinefndar, og hefir þetta stundum valdið árekstri milli nærliggjandi sveitarfélaga. Samkv. frv. er það framkvæmdanefnd, sem kveður á um þessar breytingar samkv. óskum sveitarstjórnar, en þó skal hún hafa leitað álits nærliggjandi sveitarfélaga, áður en breytingarnar koma til framkvæmda.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir, að heimilt sé að undanþiggja 10 aura gjaldinu þá, sem hafa orðið fyrir tjóni af garnaveikinni, eða svonefndri Johnesveiki. Það er aðallega á Austurlandi og Norðurlandi, sem þessarar veiki hefir orðið vart. Virðist sanngjarnt að verða við þessum kröfum viðkomandi sveitarfélaga.

3. gr. frv. gerir ráð fyrir að breyta ákvæði því í lögunum, sem þar er tiltekið, sem sé að í 1. tölul. 19. gr. komi í stað orðanna „árslok 1937“: í ársbyrjun árið áður en styrkurinn er veittur. — Skv. lögunum er það skilyrði fyrir því, að bændur geti fengið vaxtatillag, að þeir hafi sannað skuldir sínar fyrir skattanefnd í árslok 1937. En af því að veikin hefir alltaf verið að breiðazt út, hafa bætzt við nýir menn, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum hennar, og útilokar þá ákvæði núgildandi laga þá frá réttmætum stuðningi.

Þá er b-liður 3. gr. Þar er lagt til, að ákvæðinu um, að vegafé því, sem veitt er samkv. lögunum til sýslu- og hreppavega, verði breytt þannig, að einnig sé heimilt að verja því til þjóðvega, ef það þykir betur henta.

c-liður 3. gr. felur í sér aðalbreytinguna og fer fram á það, að styrk þeim, sem veittur er samkv. 3. og 4. lið 19. gr. laganna og ákveðinn er þar til vegabóta, megi breyta í uppeldisstyrk á sauðfé í þeim héruðum, þar sem veikin er um garð gengin og hentugt telst að ala upp nýjan fjárstofn. Það er ljóst, að til þess að komast megi fram úr þeim erfiðleikum, sem mæðiveikin hefir skapað, verður að ala upp nýjan fjárstofn jafnskjótt og þess er kostur, og því er lagt til, að styrknum verði breytt í uppeldsstyrk.

Framkvæmdanefnd mun með leyfi ráðherra hafa byrjað lítilsháttar á starfi þessu, og hefir því verið vel tekið, en þar sem telja má hæpið, að til þess sé heimild eins og lögin nú eru, telur landbn. sjálfsagt að veita hana og hefir því borið fram þessa breytingu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Það er flutt af landbn., og er því ekki ástæða til að vísa því til nefndar.