18.12.1939
Neðri deild: 86. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (3337)

158. mál, mæðiveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. ber fram þessar brtt. á þskj. 492. Brtt. þessar eru ekki stórkostlegar. A-liður fyrri brtt. er um það, að fella niður ákvæði um, að vísað sé til 2. og 4. málsgr., sem voru um það, að veiting uppeldisstyrkja væri bundin við þessa tvo liði, en nefndin sá við nánari athugun, að ekki var hægt að breyta þessum styrkjum í uppeldisstyrki, og áleit þess vegna rétt, að styrkurinn væri veittur samkv. öllum liðum greinarinnar. Þá álítur nefndin rétt, að í stað „uppeldisstyrk“ komi: styrkjum. Það á við það, að verði settar reglur um úthlutun allra þessara styrkja, þá kæmu reglur um uppeldisstyrkinn inn í þær.

Þá töldum við rétt að bæta við tveim greinum. Önnur er um það, að tvær síðustu málsgr. 22. gr. laganna falli burt, og er það eftir bendingu frá hv. þm. V.-Húnv., þar sem þessi ákvæði eru nú orðin óþörf; hin tillagan er um það, að fella þessar breyt. og breytingar frá 12. júní 1939 inn í lögin, og verður það aðgengilegra öllum, að svo verði gert.

Ég hefi svo ekki meira að segja, en vænti þess, að hv. deild taki þessum brtt. nefndarinnar vel.