17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

71. mál, Varmahlíð í Skagafirði

*Jón Pálmason:

Eins og nál. ber með sér, þá er ég á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, og orsakirnar til þess koma að nokkru leyti fram í því, sem hv. frsm. sagði. Það kom fram hjá honum, að enn eru ekki fengnar neinar sönnur fyrir því, að nein þörf sé fyrir þessa eignarnámsheimild, og ég er þeirrar skoðunar, að Alþ. eigi því aðeins að samþ. eignarnámsheimild á landi eða jörð, að það liggi fyrir sannanir um það, að almenningshagur krefjist þess, að eignarnámsheimild sé veitt. Til þess að slíkar sannanir liggi fyrir, þá þurfa að liggja fyrir upplýsingar um, hvaða ágreiningur á sér stað milli seljanda og væntanlegs kaupanda. Í þessu sambandi liggur ekkert slíkt fyrir, og í ræðu hv. frsm. kom í ljós, að líkur væru fyrir, að þarna gætu tekizt samningar.

Ég vil ekki láta þingið samþ. frv. eins og þetta. Hitt getur verið utan við þetta, ágreiningur um það, hvort þarna eigi að reisa héraðsskóla. Ég hygg þó, að eins og nú standa sakir með okkar hag, þá sé meiri ástæða til að fækka skólum eða fresta skólabyggingum, sem ráðgerðar eru, heldur en að leggja mikið fé í nýja skóla.