25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Það er svo mikið búið að tala um þessa till., að ég mun ekki hafa um hana mörg orð. Svo að segja allir hafa talað á móti henni, bæði sölunni á Þór og Hermóði, og fært, að því er virðist, gild rök fyrir máli sinu. Ég hygg, að enginn komi með till. um að selja Ægi úr landi, og má vænta, að þessi till. falli, í því formi, sem hún er borin fram.

Hinsvegar er auðheyrt á ræðum hv. þm., að þeir álíta fulla nauðsyn á að rannsaka alla björgunarstarfsemi og landhelgigæzlu hér við land, og mun það þá væntanlega verða gert, svo að hægt verði að leggja þá rannsókn fyrir næsta þing, ef því verður nú frestað, eins og stjórnarflokkurinn mun ætla sér að gera. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að ég álít fulla ástæðu til að rannsaka líka, hvernig landhelgisgæzlunni er varið með Ægi, sem er gott skip og sjálfsagt með góða skipshöfn. Eftir því, sem maður fær helzt fregnir af ferðum þess kringum land, eru þær aðallega bundnar við ferðalög ýmsra manna, og mun slík landhelgisgæzla ekki koma að miklu gagni, þar sem alltaf er hægt að reikna út, hvert skipið fer og hvað lengi það verður. Ég álít því, að taka þurfi til gaumgæfilegrar athugunar þær ráðstafanir, sem stj. gerir um ferðalög Ægis, til þess að landhelgisgæzlan komist í það horf, sem hún getur verið í.

Ég hafði hugsað mér að koma með sérstaka till. í sambandi við þetta mál. En í trausti þess, að þáltill. verði felld og málið tekið til nánari athugunar, þar til þing kemur aftur saman, mun ég ekki gera það.