09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

7. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. sé ég ástæðu til að fara um þetta

mál nokkrum orðum og gera grein fyrir gangi þess frá upphafi.

Eins og að hefir verið vikið, var á síðasta þingi samþ. heimild í fjárl. til að verja nokkru fé að láni til þess að greiða fyrir því, að félagsmenn í útgerðarsamvinnufélögum gætu náð samningum um fjárkröfur á hendur þeim í sambandi við skuldaskil, sem samvinnufélögin hafa fengið í skuldaskilasjóði vélbátaeigenda. Það hafði komið í ljós, að lánveitingar til þessara útgerðarsamvinnufélaga höfðu orðið með nokkuð öðrum hætti heldur en til einstakra útgerðarmanna. Við skuldaskilin höfðu aðeins verið teknar til greina fjárkröfur á hendur félögunum, en ekki á hendur einstökum félagsmönnum, eins og þó hafði verið tilfellið um aðrar lánveitingar og skuldaskil annarra útvegsmanna. Sú aðferð hafði verið höfð, þegar um einstaka útgerðarmenn var að ræða eða um fáa einstaklinga í félögum, að bú þeirra voru einnig tekin til skiptameðferðar í sambandi við skuldaskil, og fengu þeir þannig samninga um allar þær skuldir, sem á þeim hvíldu. Þetta hafði hinsvegar, eins og ég þegar hefi skýrt frá, ekki verið haft þannig um þá útgerðarmenn, sem voru í fiskveiðasamvinnufélögum, heldur aðeins teknar skuldir félaganna, og það hafði komið á daginn, að þessir félagsmenn voru eftir skuldaskilin í ábyrgð fyrir þeim hluta af kröfunum, sem ekki hafði fengizt greiddur í skuldaskilasjóði vélbátaeigenda.

Nú er ómögulegt á það að fallast, að það hafi verið réttlátt að gera þannig upp á milli útgerðarmannanna, að láta þá útgerðarmenn, sem höfðu verið í fiskveiðasamvinnufélögum, fá aðra og óhagstæðari meðferð en aðrir útgerðarmenn höfðu fengið. Það liggur líka í augum uppi, að ef lánardrottinn, sem ekki hefir fengið fullnægt öllum sínum kröfum við skuldaskil, á að geta gengið að hverjum einstökum félagsmanni eftir skuldaskilin og gert hann gjaldþrota, þá væru þessi skuldaskil viðkomandi félagi og félagsmönnum vita gagnslaus. Meiri hl. Alþ. leit því svo á, að réttmætt væri að verja nokkru fé til útlána handa þessum félagsmönnum, til þess að þeir gætu náð viðunandi samningum um þessar fjárkröfur við kröfuhafa, og það leit út fyrir, a. m. k. í sumum tilfellum, að þetta kynni að takast, þannig að ekki yrði þörf fyrir neina lagasetningu um þetta efni. En það kom þó í ljós á síðastl. hausti, að ekki myndi takast að leysa þetta mál eftir samningaleiðum, og því voru gefin út þau bráðabirgðal., sem hér er óskað staðfestingar þingsins á. Voru þau getin út 14. nóv. síðastl. Þessi l. eru byggð á alveg sama hátt og l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, sem sett voru 1933, og í þessum l. er gert ráð fyrir því, að útgerðarmenn í fiskveiðasamvinnufélögum fái samskonar meðferð og aðrir útvegsmenn hafa þegar fengið.

Til þess að betur upplýsist fyrir hv. d., hvernig þetta mál hefir gengið, get ég sagt frá því, að eftir að bráðabirgðal. voru út gefin komu umsóknir um stuðning samkv. þeim frá þrem félögum hér á landi, Fram í Vestmannaeyjum, Samvinnufélagi Ísfirðinga og Samvinnuútgerð Stykkishólms. Það hefir þegar fyrir alllöngu verið afgr. lán úr skuldaskilasjóði vélbátaeigenda — af fé, sem var í sjóði þar, að upphæð 11 þús. kr. — til félagsmanna í Samvinnufélagi Ísfirðinga. Þeir gátu náð samningum við kröfuhafa um þessar ábyrgðarkröfur, gegn því að greiða þessar 11 þús. kr. sameiginlega, og eru með greiðslu á þeirri upphæð lausir við allar frekari kröfur út af þessum málum. Þetta lán var veitt þeim sameiginlega á nafn félagsins, og til tryggingar því voru tekin veð og þar að auki sjálfskuldarábyrgð 30 manna, sem eru í þessu félagi, og er þar með forstjóri félagsins og yfirmenn á skipum þess. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þetta lán sé vel tryggt og engin hætta á, að skuldaskilasjóður tapi því. En með veitingu þessa láns hafa félagsmenn í viðkomandi félagi, eins og ég þegar hefi sagt, losnað við allar frekari kröfur út af þeim gömlu skuldum, sem á félaginu hvíldu, þegar skuldaskilin fóru fram.

Um félagsmenn í hinum tveimur félögunum, sem ég nefndi, er það að segja, að enn hafa ekki verið afgr. lán til þeirra, þar sem þeir hafa verið að leitast við að ná hagstæðu samkomulagi við kröfuhafa, og það er ekki í dag upplýst, hvernig þetta muni ganga. Af þessum ástæðum hefir ekki verið gengið frá þeirra málum hjá skuldaskilasjóði af þeirri n., sem ég skipaði til þess að hafa þessar lánveitingar með höndum.

Út af því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um málið, t. d. að það hefði verið með mjög undarlegum hætti upp tekið á síðasta Alþ. og þar hefði verið smeygt inn í fjárl. á síðustu stundu útgjaldaupphæð, sem hefði mikla þýðingu, verð ég að taka fram, að ég skil ekki vel, hvað hv. þm. er að fara. Ég man ekki eftir því, að hann og hans flokksmenn hafi verið feimnir við að bera fram brtt. við fjárl. og reyna þannig að „smeygja inn“ nýjum fjárveitingum, jafnvel við 3. umr.

Þá hélt hv. þm. því fram — og hefir áður haldið því fram í blaðaskrifum um þetta mál — að stj. hefði verið að bíða eftir því, að þinginn yrði slitið, til þess að geta gefið út bráðabirgðal. um þetta efni, af því að þetta myndi vera svo óvinsælt mál, að mjög væri vafasamt, að það hefði náð samþykki þingsins, ef það hefði verið borið fram í frv.-formi. Ég mótmæli þessu. Nægir í því sambandi að benda á, að Alþ. var slitið í maí, en bráðabirgðal. voru út gefin í nóvembermánuði, þegar sýnt var, að ekki myndi takast fyrir félagsmenn í þessum samvinnufélögum að ná viðunandi samningum við kröfuhafa án þess að slík l. væru útgefin. Og eins og ég upplýsti á síðasta þingi, þegar um þetta mál var rætt, þá var ómögulegt að sjá fyrir, hvort þörf myndi á lagasetningu um þetta efni eða ekki.

Ég hirði ekki um að svara þeim orðum hv. þm. að þetta megi skoðast sem endurgjald til Alþfl. fyrir stuðning hans við ríkisstj. Þetta er áframhald af því, sem þessi hv. þm. og sumir flokksbræður hans hafa áður haldið fram, að með þessu hafi þremur þm. Alþfl. verið bjargað frá gjaldþroti. Þetta skiptir að vísu ekki miklu máli, þar sem slíkar fullyrðingar munu ekki teknar alvarlega, en ég vil þó aðeins benda á, að ekki var nema einn hv. þm. ábyrgur í því samvinnufélagi, sem hér er um að ræða. Og í stað þessara 90 þús. kr., sem ritað er um, að Framsfl. hafi rétt að Alþfl. fyrir stuðninginn — mér skilst gefið honum — er hér um að ræða aðeins 11 þús. kr. lán gegn viðunandi tryggingu, og ekki hægt að segja um það nú í dag, hvort lánveiting fer fram til útgerðarmanna í samvinnufélögunum í Vestmannaeyjum og Stykkishólmi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en tel víst, að hv. d. muni, að fengnum þessum upplýsingum, samþ. þetta frv.