23.03.1939
Efri deild: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Flm. ( Þorsteinn Þorsteinsson) :

Það stendur þannig á um þetta frv., að um þetta leyti er útrunnið kjörtímabil þess útvarpsráðs, sem starfar nú. Það er víst 5. maí 1939, sem kjörtímabil þeirra manna í útvarpsráði, sem kosnir hafa verið af útvarpsnotendum, er á enda, og núna þessa dagana er kjörtímabil þeirra útvarpsráðsmanna á enda, sem kjörnir hafa verið af Alþ., og hefir þeim verið falið til bráðabirgða að starfa áfram, þar til önnur skipun verður á gerð. Fjvn. hefir athugað mál útvarpsins dálítið, og í samráði við hana höfum við flm. þessa frv. borið það fram hér í hv. deild.

Þetta frv. þarf ekki langra skýringa við. Þær breyt., sem þar er lagt til, að gerðar verði, eru aðallega gerðar í sparnaðarskyni, til að létta af útvarpinu greiðslum, sem námu um 5 þús. kr. á ári til jafnaðar. Við flm. þessa frv. lítum þannig á, að ekki muni verða nein veruleg breyting á þeim ráðstöfunum, sem útvarpsráð gerir, þó að þeim, sem þar eiga sæti, verði fækkað úr 7 niður í 5, og skuli þessir 3 kosnir af Alþ., og skipar ráðh. einn úr þeirra hópi formann, í stað þess, að áður voru 3 útvarpsráðsmenn kosnir af útvarpsnotendum og af Alþ. Ég geri ekki ráð fyrir, að hlutföllin milli flokkanna í útvarpsráði raskist neitt við þetta, en ef ekki verður horfið að því ráði, sem frv. leggur til, verður tíminn of naumur til, að kosning geti farið fram á þeim mönnum, sem kjósa á af útvarpsnotendum, því að enn er ekki hafinn neinn undirbúningur undir þær kosningar, og það verður ekki gert fyrr en útséð er um, hvernig þessu frv. reiðir af. Ég held því, að þetta mál liggi svo opið fyrir öllum. að enginn þörf sé á að ræða mikið um það nú. Ég vænti þess, að það fái fljóta afgreiðslu hér í þessari deild, og mun ekki fjölyrða frekar um það, en legg til, að því verði vísað til menntmn. hér í Ed.