04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Viðvíkjandi frv. vildi ég benda á, að tvennt er ljóst, sem gerir það lakara heldur en það myndi vera með því fyrirkomulagi, sem nú er. Í fyrsta lagi, að öllum er kunnugt, að flokkaskipting hér á Alþingi er alls ekki sú sama og í landinu. Kosning í útvarpsráð hér á Alþingi myndi fara allt öðruvísi heldur en úti um land. Það er því sýnilegt, að það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um þetta, er algerlega rangt. Í öðru lagi hefir það sýnt sig við uppstillingar á lista við kosningar í útvarpsráð af hálfu útvarpsnotenda, að það hafa verið kosnir a. m. k. 1 ef ekki 2 aðrir en kosnir hefðu verið í útvarpsráð, ef þeir hefðu verið kosnir af þingflokkum. Það er langt frá því, að útvarpsnotendur kjósi alltaf eftir pólitískum línum. Ég álít það heppilegra fyrirkomulag, að þessar kosningar séu í höndum útvarpsnotenda. Ég sé ekki betur en þetta frv. sé flutt í því skyni að hafa alla skipun í útvarpsráð í höndum þeirra flokka, sem öllu ráða hér á þingi nú, án tillits til flokkaskiptingar í landinu, og er ég því á móti þessu frv.

En ég vil nota tækifærið til þess að tala um annað, er snertir útvarpið. Hæstv. forsrh. veður áðan að mér í ráðherraherberginu og kemur þar með hótanir, meðal ýmiskonar blótsyrða og ragns, og lætur það í ljós við mig, að ef ég eða mínir flokksmenn espi til óróa í kvöld eða á næstunni, þá muni hann loka útvarpinu fyrir okkur og okkar flokki. Hvaða heimild hefir forsrh. til að láta svona? Hann hefir það ekki sem forsætisráðherra, en hann kann að hafa heimild til þess sem maður að koma fram eins og dóni, ef hann langar til þess. (Forseti hringir). Ef hann sem forsrh. þessa lands álítur, að hann geti komið með hótanir til þm., sem eru andstæðingar hans í pólitík, og sagt við þá, að ef þeir ekki hagi sér svo og svo, eins og hann óskar, og verði ekki góðu börnin, þá láti hann loka útvarpinu fyrir þeim ef hann heldur það, að hann hafi slíkt vald, þá vildi ég láta hann vita, að hann er enginn einræðisherra hér á landi, og mun aldrei verða. Við munum halda fast á okkar skoðunum, algerlega án tillits til hótana forsætisráðherra.