17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

42. mál, útsvör

*Erlendur Þorsteinsson:

Það var rétt, sem hv. 1 þm. N.-M. tók fram, að þessi breyt. mun aðallega snerta hin stærri skip, sérstaklega þau skip, sem síldveiðar stunda. A. m. k. hefir reynslan orðið í þá átt að undanförnu. Er það líka með tilliti til þess, að þorskveiðarnar hafa brugðizt á undanförnum árum og því getið lítinn ágóða í flestum tilfellum. Hinsvegar er það vitað, að á síldveiðunum hefir undanfarið verið nokkur ágóði. Það hefir því frekar verið hægt að krefja þann atvinnuveg um útsvör.

Það er eitt atriði, sem ég vildi minnast á, og sem ég vildi, að kæmi greinilega fram í þessum umr. Það stendur hér í grg. frv.: „Að sjálfsögðu greiða síldarverksmiðjur, fiskimjölsverksmiðjur, fiskverkunarstöðvar og söltunarstöðvar, sem eru einkaeign, útsvar í viðkomandi bæjar- og sveitarsjóði“.

Ég vildi beina því til allshn., hvort hún sé því einróma sammála, að söltunarstöðvum, sem eru einkaeign, beri skylda til þess samkvæmt útsvarslögunum að greiða útsvar þar, sem þær eru reknar. Það hefir sem sé komið fyrir, að þeir. sem eiga slíkar söltunarstöðvar, hafa reynt að hliðra sér hjá að greiða útsvar af atvinnurekstri sínum með því að eiga heimili í hinum og öðrum vel stæðum, en fámennum hreppum og semja um að greiða þar nokkur hundruð kr. í útsvar. Þessir menn leigja söltunarstöðvar á Siglufirði eða annarstaðar og reka þær, en greiða þar engin útsvör. Ég veit, að þetta kemur víðar fram en á Siglufirði, en ég tók Siglufjörð til dæmis, af því að ég þekki þar til. Vegna þess að þetta stendur hér í grg. frv. vildi ég gjarnan fá yfirlýsingu n. um þetta efni.