25.04.1939
Efri deild: 50. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

89. mál, verðlag á vörum

Magnús Jónsson:

Ég ætla ekki að fara að andmæla þessu frv., en mér finnst það einkennilegt, að þetta mál skuli vera afgr. gegnum þingið án þess að fara í nokkra n. Ég sé ekki betur en þetta mál sé nýkomið fram, því það er 89. mál, og það hefir verið hespað gegnum Nd. án þess að það færi í n. Það var einnig í þessari hv. d. látið fara til þessarar umr. án þess að því væri vísað til n. Þetta er óviðkunnanleg afgreiðsla, þar sem þetta mál er ekki svo mjög einfalt. Ég get einmitt trúað, að þetta frv., eins og mörg ákvæði í l. um verðlag á vörum, þurfi að athugast vel. Ég verð að viðurkenna hreinskilnislega. að ég sé ekki, hvað í málinu felst.

Ég vildi því leggja til — því það er heimilt samkvæmt þingsköpum að vísa máli til n. á hvaða stigi sem er — að málinu verði vísað til n., og ég býst við, að það heyri þá sérstaklega undir allshn. Ég geri það því að till. minni, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.