22.04.1939
Neðri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

83. mál, mæðiveikin

*Pétur Ottesen:

Út af því, að hér er komin fram brtt. frá hv. þm. V.-Húnv. við 5. gr. þessa frv., sem fjallar um breyt. á 22. gr. l., vil ég f. h. landbn. taka það fram., að n. getur ekki fallizt á þessa till., eða telur ekki rétt að gera svo mikla grundvallarbreyt. á l. eins og þar er farið fram á. Þar sem því verki, sem unnið er við undirbúning úthlutunar ýmss fjár, sem veitt er á Alþ. til stuðnings bændum, og mæðiveikin, hefir haft með höndum, er svo langt komið, að það mundi þurfa að vinna það verk að allmiklu leyti upp aftur, virðist n., að ekki sé rétt, eins og nú standa sakir, að gerðar séu jafnvíðtækar breyt. á l. og hér um ræðir, þótt hún fyrir sitt leyti geti mjög gjarnan gengið inn á, að ástæða sé til. t. d. þegar þetta þing kemur aftur saman, að taka mæðiveikil. til nýrrar athugunar, áður en næsta úthlutun færi fram, bæði með tilliti til þeirrar stefnu, sem fram kemur í till. hv. þm., og ýmissa annarra ákvæða í l., sem þá væri e. t. v. ástæða til að athuga. Hinsvegar hefir orðið samkomulag milli n. og hv. þm. V.-Húnv. um það, að skjóta inn í gr. ákvæði um, að jafnframt því, sem tjón það, sem menn hafa orðið fyrir af völdum veikinnar, sé lagt til grundvallar við úthlutun fjárins, sé einnig höfð hliðsjón af afkomu manna að öðru leyti. Með þessu er gengið nokkuð inn á þá hugsun, sem felst í till. hv. þm., og mundi hægt fyrir n., án mikillar fyrirhafnar, að endurskoða sín störf og færa þau til samræmis við það, sem í breyt. þessari felst.

Ég vil því f. h. n. leggja fram brtt. við 5. gr. frv. sem felur það í sér, sem ég nú hefi lýst, og vænti ég, að þegar sú brtt. er fram komin. muni hv. þm. V.-Húnv. taka aftur sína brtt.