25.04.1939
Efri deild: 51. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

88. mál, varnir gegn útbreiðslu garnaveiki

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið að tilhlutun landbúnaðarráðh. af mæðiveikinefnd. Sú sýki, sem hér er um að ræða, er orðin nokkurra ára gömul hér á landi. Það mun hafa verið árið 1935, sem fyrst bárust til rannsóknarstofunnar lungu o. fl. úr fé með þessa veiki frá Hæli í Gnúpverjahreppi. En það var ekki þekkt, hver þessi veiki væri, fyrr en Ásgeir Einarsson dýralæknir ákvað veikina á kindum austur í Breiðdal í haust sem leið. Landbrh. gerði þá ráðstafanir til, að reynt yrði að rannsaka útbreiðslu veikinnar. En það er tiltölulega létt, af því að ganga má úr skugga um það við bólusetningu á fénu, hvort kindin er veik eða ekki. Þær rannsóknir á veikinni, sem þegar hafa farið fram, hafa leitt í ljós vitneskju um, frá hvaða stöðum hún hefir breiðzt út. Hefir öllum kindum verið lógað jafnóðum og komið hefir í ljós, að þær væru með veikina. Sú stefna hefir verið tekin upp að reyna að finna það fé, sem sýkzt hefir, og lóga því. Með því móti hugsa menn sér, að hægt muni að komast fyrir veikina, þar sem hún er eigi, svo vitað sé, orðin útbreidd nema á fáum stöðum. En um þetta hefir þótt réttara að setja sérstök l., og því var þetta frv. samið og borið fram hér á Alþ. Í frv. er lagt til. að framkvæmdir í þessu efni verði faldar mæðiveikinefnd. Nú skal ég taka það fram, að ég er ekki allskostar ánægður með þessa tilhögun. En ég hefi ákveðið að fylgja frv., í trausti þess, að enda þótt þetta verði falið mæðiveikinefnd, þá muni hún njóta aðstoðar Halldórs Pálssonar í þessu máli, þar eð hann er því allra manna kunnugastur. Mér er hinsvegar ekki kunnugt um, að neinn af nefndarmönnum í mæðiveikinefnd sé verulega kunnugur á þeim slóðum, sem þessi veiki hefir komið upp, og hafa þeir þar af leiðandi miklu verri aðstöðu og minni þekkingu á staðháttum öllum á þessum stöðum en æskilegt er, að þeir hafi, sem framkvæma eiga þessi l. Ég vænti því, að ríkisstj. muni hlutast til um það, að Halldór Pálsson verði fenginn sem ráðunautur nefndarinnar hvað snertir varnir gegn útbreiðslu garnaveikinnar. Það er eitt atriði í frv., sem ég vil sérstaklega benda á og mér finnst, að muni vera hæpið. Þar er talað um, að nefndin skuli ákveða bætur fyrir fé það, sem slátrað er vegna varna gegn útbreiðslu veikinnar. Það er af sumum talið mjög hæpið, að nefndin muni hafa vald til samkv. stjórnarskránni að ákveða slíkar bætur. Ég hefði sjálfur kosið, að þarna hefði ekki staðið „eftir mati nefndarinnar“, heldur „eftir mati“. Það hafa orðið deilur út af þessu við ýmsa, sem slátrað hefir verið hjá vegna mæðiveikivarnanna. Eins og ég tók fram, hefði ég heldur viljað, að það hefði verið sleppt þarna „nefndarinnar“ en þar sem mál af þessu tagi er nú fyrir dómstólunum, þá hefi ég ekki lagt neitt kapp á að fá þessu breytt. Það fæst væntanlega úr þessu skorið með dómi. Ég vænti þess, að mæðiveikinefnd taki til óspilltra málanna í því augnamiði að útrýma þessari veiki strax og þessi l. hafa náð samþykki. Hvað kostnaðinum af þessum 1. viðvíkur, þá er um það að segja, að hann liggur að mestu í kaupi þeirra manna, sem við þetta vinna. og svo því lyfi, sem nota þarf við bólusetninguna, það kostar um 30–35 aura í kind. Kostnaðurinn mun vera orðinn um 30 þús. kr. það, sem af er rannsóknunum á þessari veiki, og verður líklega um 60 þús. kr. til vorsins. Bæturnar eru aukatriði, því að þegar tekin eru frá örfá heimili í landinu, þá eru ekki nema sárafáar kindur á hverjum bæ, þetta 1, 2, 3 og upp í 10 kindur. sem kunna að vera með sýkina, svo að kostnaður við bætur verður tiltölulega sáralitill hluti heildarkostnaðarins.

Landbn. hefir orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. Ég persónulega geri það í því ákveðna trausti, að það verði samvinna milli mæðiveikinefndar og þeirra manna, sem mest hafa í þessu unnið og eru orðnir málunum kunnugir, en það er fyrst og fremst Halldór Pálsson.