27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

98. mál, verkamannabústaðir

*Einar Olgeirsson:

Mér þykir vænt um, að ég hefi gert a. m. k. sumum hv. þm. d. rangt til áðan, og hafa þeir nú sumir staðið upp og borið af sér. Hv. 7. landsk. hefir t. d. lýst yfir því, að hann álíti, að það hefði verið óþarfi af hæstv. félmrh. að gefa út brbl. til að breyta l. um verkamannabústaði. Þar með finnst mér hv. þm. hafa viðurkennt, að hæstv. ráðh. hafi misbeitt valdi sinu. Í grg. hans fyrir brbl. er gengið út frá því, að brýna nauðsyn hafi borið til að gefa út brbl., eins og stjórnarskráin krefst. Hv. 7. landsk. álítur aftur á móti, að þetta hafi verið algerlega óþarft. Mér finnst því, að það, sem liggur fyrir hv. d., sé að ákveða, hvort hún vill samþ. brbl., en ekki fyrst og fremst það, hvort hún vill gera einhverjar breytingar á l. um verkamannabústaði. Svo framarlega sem það hefir verið rangt af hæstv. ráðh. að gefa út brbl., þá er ekki nema rökrétt af hv. d. að fella þau. Ef þingið álítur aftur á móti, að nauðsyn sé að gera breytingar á l. um verkamannabústaði, þá má auðvitað gera það hvenær sem er. Ef hv. 7. landsk. vill vera samkvæmur sjálfum sér, átti hann því að vera á móti brbl., þar sem hann vill ekki mótmæla því, að ráðh. hafi misbeitt valdi sínu, enda þótt hann sé samþykkur ýmsu, sem í l. kemur fram. Hann ætti því að greiða atkv. gegn brbl., en koma svo fram með frv. til breytinga á l. um verkamannabústaði í samræmi við sína skoðun á því, hvernig þau l. ættu að vera.

Ég er reyndar ekki lögfræðingur, en hér hafa tveir lögfræðingar talað, og þeir eru ekki sammála um það, hvernig skilja beri þessa brtt. allshn. Mér skilst því, að ekki myndi vera úr vegi að athuga hana nokkru nánar.

Hv. 7. landsk. hélt því fram, að einu sinni hefði Sjálfstfl. verið beittur órétti, og var á honum að skilja, að ekki væri fjarri lagi, að Byggingarfélag verkamanna væri nú beitt órétti í staðinn. En ef þeir sjálfstæðismenn eru á móti því, að órétti sé beitt, þá er vonandi, að þeir séu það jafnt, þó að honum sé beitt gegn öðrum, eins og ef honum er beitt gegn þeim sjálfum. Ég man ekki betur en að einu sinni stæði skrifað í flokkshúsi þeirra, Varðarhúsinu, svo að lesa mátti, þegar komið var inn úr dyrunum: „Þolið ekki rangindi og fremjið ekki rangindi!“

Mér virtist á ræðu hv. þm. Barð., sem það hefði komið nokkuð við samvizku hans, þegar ég talaði hér um vonda samvizku. Það var líka auðheyrt á ræðu hans, að hann hafði hana, og því ekki von, að það væri annað en kattarþvottur, er hann var að reyna að þvo sig af samþykkt hv. allshn. Hann kvaðst ekki eiga að rannsaka framferði félmrh. Það er einkennilegt, að allir hv. þm., nema hæstv. félmrh., taka þetta fram. að þeir eigi ekki að rannsaka framferði hans. Þeir þvo allir hendur sínar, eins og kunnur rómverskur landstjóri forðum. Hv. þm. sagði, að það væri aðalatriði í málinu, hvort vera ætti stjórnskipaður formaður í Byggingarfélagi alþýðu eða ekki. En honum hlýtur að vera kunnugt um, að ekkert var, sem stæði í vegi fyrir því, að svo væri. Það var ráðh. sjálfur, sem hindraði, að hægt væri að framkvæma hans eigin l., með því að krefjast þess, að formaðurinn væri settur áður en félagið hefði fengið viðurkenningu byggingarsjóðs, en einmitt það var gagnstætt ákvæðum brbl. Hæstv. ráðh. hnýtti þarna hnút, sem var óleysanlegur, vegna mótsagnanna við hans eigin brbl. Því er það misskilningur hjá hv. þm. Barð., að það hafi verið aðalatriðið að fá stjórnskipaðan formann, heldur var aðalatriðið að fá tækifæri til að beita gerræði. Og af því að hv. þm. nefndi það sem ástæðu til þess, að formaðurinn ætti að vera stjórnskipaður, að félaginu væru veitt lán fyrir tilverknað hins opinbera, vil ég minna hann á ýms félög, eins og t. d. Búnaðarfélagið, sem fær beinlínis háan styrk frá hinu opinbera og hefir undir höndum mikið styrktarfé, sem það úthlutar, án þess að ástæða þyki til þess að hafa þar stjórnskipaðan formann, og sömuleiðis samvinnufélögin, sem njóta mikillar ríkisábyrgðar. Það eru mörg félög til, þar sem ormur opinberra styrkveitinga hefir nagað eins mikið um rætur þjóðarmeiðsins og hér, án þess að fundin hafi verið ástæða til að krefjast stjórnskipaðra formanna í þeim félögum.

Nei, það er auðséð, að hv. þm. vilja ekki bera ábyrgð á þessum brbl. En þá er líka eina rétta svarið, sem þingið getur gefið, að fella brbl., til áminningar þeim ráðh., sem hefir misnotað sitt vald eins og hér hefir verið gert. Annað mál er það, hvort hv. Alþingi finnst ástæða til að breyta l. um verkamannabústaði. Það er hægt að gera án þess að leggja blessun yfir brbl. þessi.