27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

98. mál, verkamannabústaðir

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég þarf ekki að svara mörgu af því, sem fram hefir komið við þessar umr. Hv. 7. landsk. vildi ég segja það, að hvorugum okkar datt það í hug, þegar þetta mál var hér til umr. á Alþ. árið 1934, að heppilegra væri að fara þá leið, sem gengið var inn á með bráðabirgðal. En við erum nú báðir sammála um það, og heppilegt. að mér skyldi detta þetta fyrr í hug en hv. 7. landsk. og að ég hafði aðstöðu til að framkvæma það. (GÞ: Vill þá hæstv. ráðh. setja allar sínar „ideur“ fram með bráðabirgðal.?). Ég hefi nú ekki gert það. Hv. þm. treystir sér ekki til að mótmæla því, að það hafi verið æskilegt að koma því svo fyrir, að Byggingarfélag alþýðu hafi skyldur, sem samsvari réttindum þess. En að öðru leyti þarf ég ekki að svara honum.

Hv. 4. þm. Reykv. fór ekki rétt með mín orð. Ég hefi ekki sagt um hann, að honum myndi svíða sem borgarstjóra í Reykjavík að sjá þessa myndarlegu verkamannabústaði. Ég kvaðst vera undrandi á því, að hann, sem er borgarstjóri í Reykjavík og mun þekkja manna bezt hinn mikla skort, sem margir verða að búa við, bæði á húsnæði og öðru, skyldi ekki fagna því. Sjálfur hefi ég verið undrandi yfir því, þegar rætt hefir verið um hina nýju og myndarlegu verkamannabústaði, að hann skyldi ekki verða feginn, að mönnum gæfist kostur á svo haganlegu húsnæði, því að það er áreiðanlegt, að miklu vandkvæði eru á að stjórna málum þessa bæjar, og áreiðanlega fullkomin þörf á að bæta úr hvað húsnæðið snertir. Mér er kunnugt um það af samstarfi mínu við hann í bæjarstj., að það hefir oft ekki verið neinn hægðarleikur að stjórna málefnum Reykjavíkurbæjar. En einmitt þessi maður, hv. 4. þm. Reykv., segir nú, að verkamannabústaðirnir séu ekki fyrir hina fátæku. Þetta er ekki rétt; þeir eru einmitt fyrir þá fátækustu, að vísu e. t. v. ekki fyrir þá allra sárfátækustu. Ef farið væri að rannsaka efnahag þeirra, sem búa í hinum nýju verkamannabústöðum, sem reistir hafa verið, má undantekningarlaust segja, að það séu fátækir menn, þótt segja mætti, að aðrir séu enn fátækari af þeim, er búa í Reykjavík. En það hefir verið bent á aðra leið til að hjálpa þeim, sem eru svo sárfátækir, að þeir geta ekki eignazt hlut í verkamannabústöðunum, og hún er sú, að bærinn byggði húsnæði, sem væri leigt út, handa þeim allra fátækustu.

Annars fannst mér ótilhlýðilegt hjá hv. 4. þm. Reykv. að láta renna svo út í fyrir sér að gefa í skyn, að byggingarfélögin væru pólitískur félagsskapur jafnaðarmanna eða kommúnista, og hann sagði einnig, að það gæfi ágætt tækifæri fyrir jafnaðarmenn til að agitera í fólkinu. Slík ummæli eru alveg tilefnislaus.

Hann getur ekki skilið annað en að það hafi verið vegna fjandskapar við hið nýja byggingarfélag, að bráðabirgðal. voru gefin út, en það er algerlega rangt. Allir pólitískir flokkar njóta þar fullkomlega sömu réttinda.

Hvað snertir sögusögn hv. 4. þm. Reykv., sem hann tók upp eftir hv. 3. þm. Reykv., um að það hefði verið samþ., að 70 menn ættu að njóta allra forréttinda, þá vona ég, að hv. 4. þm. Reykv. sjái, að í þessu máli er honum ekki gott að byggja á heimildum sessunautar síns og samþingismanns. Sannleikurinn er sá, að fyrst var reynt að ýta mönnum af stað til þátttöku í byggingarfél., því næst var auglýstur í Morgunbl., Alþýðubl. og Vísi stofnfundur í byggingarfélagi verkamanna. Allir þeir menn, sem sátu þann fund, gerðust stofnendur í þessu félagi. Síðan er dregið úr milli stofnenda, hverjir fyrstir komi til greina.

Þar sem voru aðeins 200 íbúðir, gátu ekki allir stofnendur komið til greina. Þá var engin önnur leið réttlátari, til að fyrirbyggja tortryggni, en að láta lögmann draga um, hverjir stofnendur kæmu til greina um fyrstu verkamannabústaði. Þessi leið var valin, og hún virðist vera réttlát.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að þetta væri frá upphafi pólitískt mál. Það má segja, að flest löggjöf, sem samin er á Alþ., sé pólitísk. Ef litið er á löggjöfina og framkvæmd hennar, er hún dálítið mismunandi eftir því, hvaða skoðanir menn hafa á landsmálum. Svo er einnig um l. um verkamannabústaði. Ég man líka eftir því, að ég ásamt hv. 4. þm. Reykv., sem þá vorum í fjhn. Reykjavíkurbæjar 1929, átti að gera till. um það ásamt 3. manni, hvort nota ætti heimildina um verkamannabústaði. Hann var þar í minni hluta og taldi óeðlilegt að nota þessa heimild.

Ég og Jón Ásbjörnsson mynduðum meiri hluta um það, að bærinn gæfi yfirlýsingu til ráðuneytisins um, að eðlilegt væri að nota þessa heimild í l. um verkamannabústaði. Það voru ólík sjónarmið, sem komu fram, og þeirra ólíku sjónarmiða mun gæta í dag og næstu daga um fjölmörg mál, sem upp kunna að koma í þinginu. og utan þings.