27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

98. mál, verkamannabústaðir

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Hv. 3. þm. Reykv. upplýsti það, sem hér hefir verið haldið fram, að Byggingarfélag alþýðu hafi sett ákveðið skilyrði til þess að breyta samþykktum sinum. Þessi skilyrði vildi ráðuneytið ekki uppfylla, nema félagið vildi fella niður þessar kröfur sínar. En í stað þess að gera það heldur félagið áfram að starfa á þessum grundvelli.

Ennfremur sagði hv. 3. þm. Reykv., að nýju verkamannabústaðirnir hefðu verið dýrar byggingar. Eitt er víst og er komið þegar í ljós, að þar, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði valið stað fyrir byggingarnar, var grunnurinn og húsin langtum dýrari en á hinum nýja stað, sem er þar að auki fallegri. Ég er hræddur um, að byggingarnar, komnar upp, verði það dýrar, að fátækir menn geti ekki búið í þeim.

Stofnun byggingarfélags verkamanna fór fram með svipuðum hætti og stofnun byggingarfélags alþýðu. Stofnfundur var auglýstur í 3 af bæjarblöðunum, eins og mun hafa átt sér stað um stofnun þessara 2 félaga. Út af því, sem hv. þm. sagði, að dregið hefði verið um það milli stofnenda, hverjir kæmu fyrstir til greina, vil ég geta þess, að hann getur fengið allar upplýsingar um það hjá fulltrúum lögmanns. (HV: Hver af fulltrúunum gefur þessar upplýsingar?) Ég veit það ekki með vissu, en hv. 3. þm. Reykv. ætti að geta farið milli þeirra allra. Ég álít, að það sé einn munur á stofnun þessara byggingarfélaga, og hann er sá, að byggingarfélag verkamanna lætur sína fyrstu menn fá hús, svo að ekki komi til greina nokkur hlutdrægni.