30.11.1939
Efri deild: 73. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Með tilvísun til þess, sem ég sagði hér við 2. umr. viðvíkjandi brtt. hv. 1.þm. Eyf. um að takmarka ábyrgðina við 90% af stofnkostnaði, get ég nú upplýst, að samkv. áætluninni er gert ráð fyrir, að leggja verði fram til stofnkostnaðar hitaveitunnar — og er sumpart búið að leggja það fram — allt að 1420000 dönskum krónum, þar með talin hitaréttindi og boranir, sem hefir verið langt til 300000 kr., og tollar 400000 kr., sem maður veit ekki með vissu, hvernig verður með, vegna hugsanlegra breytinga á verði í sambandi við verðtoll, og svo ef reiknað verður samkv. tollskránni að viðbættum flutningskostnaði. Ef til vill er áætlunin rífleg samkv. því, sem var, en að öllum líkindum verður það ekki meira.

Ég veit ekki, hvort hv. þdm. kæra sig um að heyra nánar gert grein fyrir þessu. Það er tiltölulega létt. Það er aðallega vinna hér við húsalagnir: Heimæðar, gröftur fyrir rennum, pípulagnir utanhúss og einangranir utanhúss, mælaprófunarstöð og innanhúslagnirnar sjálfar, vinnan við þær, því efnið er tekið með í þá upphæð, sem lánið er veitt fyrir. Þetta eru samtals 1420000 kr. Lánið er 9 millj. króna, svo þetta verður samtals 10420000 kr., svo það er ríflega 1/10 hluti, sem beðið er um að leggja fram, auk lánsins, sem tekið verður.

Ég hefi ástæðu til að ætla, að það geti valdið nokkrum erfiðleikum um þá viðbótarlánveitingu, sem verður leitazt fyrir um, ef ábyrgðarheimildin verður takmörkuð. Hinsvegar veit ég, að hv. deild getur treyst ríkisstj. til þess að framfylgja vilja hennar þannig, að ekki komi til með nema þennan tíunda hluta, sem hér um ræðir, nema eitthvað óhjákvæmilega breytist. Vil ég því leyfa mér að óska þess, að brtt. verði dregin til baka.