27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég þarf litlu við það að bæta, sem hæstv. félmrh. sagði. Þetta mál er komið svo langt hvað samninga snertir, að ekki er þar hægt að gera neina röskun. Hvað viðvíkur því, að lánsupphæðin hafi hækkað, þá er því til að svara, að hv. þm. er kunnugt um, að gildi ísl. krónu hefir lækkað tvívegis síðan samningarnir voru gerðir, og þess vegna er ekki nema eðlilegt, að þetta fyrirtæki verði dýrara en gert var ráð fyrir í upphafi. Þar við bætist svo mikil verðhækkun á öllu efni vegna stríðsins.

Hv. þm. V.-Húnv. talaði um hættu, sem af því leiddi að auka lífsþægindi manna í kaupstöðunum, þar sem slíkt drægi fólkið um of til kaupstaðanna. Þetta eru ekki verulega gagnhugsuð rök. Í aðalatriðum er það vitanlega heppilegt, að lífsþægindin aukist sem mest, og það getur ekki blessazt að standa gegn slíku af ótta við það, að aðrir staðir dragist aftur úr og fólkið kunni þess vegna að leita þaðan. Hitt yrði þá heldur að reyna, að bæta úr á þeim stöðum líka, eftir fjárhagslegri getu. Ég skal nú ekki dvelja við þetta sérstaka atriði, en aðeins vil ég leggja áherzlu á það, að þar sem svo mikill mannfjöldi er samankominn eins og hér í Reykjavík, þá er það skylda hv. þm. að leggja sig fram um að reyna að sjá þessu fólki fyrir sem mestum lífsþægindum.

Nú er það svo, að það hefir lengi verið viðurkennt, að það fyrirtæki, sem hér er um að ræða, er ekki einungis mikilsvert fyrir Reykjavík, heldur landið allt og hag þess, því það er von manna, að í framtíðinni muni þetta fyrirtæki verða mjög mikið öryggi fyrir landsfólkið og auk þess spara mikið aðflutt efni til upphitunar.

Hvað brtt. frá hv. þm. V.-Húnv. viðkemur, þá vil ég segja það, að það er algert ósamræmi, sem ekki getur komið til mála að nokkur hv. þm. gangi inn á, að fara að leggja sérstakt ábyrgðargjald á einn aðila, sem fær ríkisábyrgð, en gera það ekki annars að reglu. Samkv. skrá, sem gerð var um ábyrgðir ríkissjóðs 1937, voru þær á því ári orðnar um 70 millj. króna, og þær ábyrgðir eru vitanlega hjá fjölda mörgum aðilum. Ef ætti að taka þessa aðferð upp, þá yrði vitanlega að taka þetta gjald af öllum þeim, sem nytu ábyrgðar ríkissjóðs. Annars má á það benda, að þegar slíkt gjald er tekið t. d. hjá bönkum, þá er alltaf miðað við áhættuna, sem lánsstofnunin tekur á sig, og það er hið eina eðlilega. En ef miðað væri við áhættuna, þá er ákaflega ósennilegt, að sú áhætta sé meiri fyrir ríkissjóð fyrir verulega gott fyrirtæki, eins og vitað er um hitaveituna, en fyrir ýms neyðarlán, sem tekin hafa verið af ýmsum mjög veikum lántakendum. Annars held ég, að það komi ekki til mála, að þessi till. fái fylgi, þegar af þeirri ástæðu, að það muni engum þykja eðlilegt, að hitaveitan sé tekin út úr, til að leggja á hana þetta gjald, þar sem slíkt gjald er ekki tekið af öðrum aðilum. Þessi till. er einskonar afturganga af frv., sem þessi hv. þm. flutti hér á Alþ. og hann mun nú kominn í skilning um, að ekki hafi verið tímabært (SkG: Ekki er svo).

Ég skal ekki fara út í að ræða þetta mál nánar, en vil að lokum taka það fram, að þessar leiðinlegu og sífelldu tilraunir til að leggja stein í götu málefna, sem snerta Reykjavík, eru orðnar úreltar. Það var ofarlega í hugum ýmsra hv. þm. og flokka að setjast að Reykjavík og þyngja róðurinn fyrir þessu bæjarfélagi. Nú er miklu meiri skilningur orðinn á þessu meðal flokkanna, en það er eins og þessi hv. þm. sé ennþá í fortiðinni og hafi ekki meðtekið ljósið í þessu efni, eins og aðrir.