18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

41. mál, íþróttasjóður

*Eiríkur Einarsson:

Herra forseti! Svo margir þm. eru enn ókomnir frá kvöldverði, að þetta verður einskonar eintal sálarinnar. Það er líkt um þetta mál og ýmis önnur, sem fram hafa komið, svo sem um aukaskatt á benzín til brúargerða og rafveitulánasjóð, sem fái fé með álögum á raforkustöðvar, að lagt er til, að af tilteknum tekjustofni, sem hið opinbera á ráð á, sé tekið gjald og varið um ófyrirsjáanlega framtíð í sérstöku augnamiði. Þessari aðferð er ég yfirleitt mjög mótfallinn. Ég álít ekki rétt að binda þetta þannig, en miklu æskilegra, að allar slíkar tekjur renni beint í ríkissjóð, og þeir aðilar, sem fjárveitingarvaldið hafa, veiti til hinna ýmsu þarfa eins og fært þykir á hverjum tíma.

Það er allóskylt mál, sem hér er blandað saman við, þegar fram er komin brtt. um að láta gjald það, sem frv. ætlazt til að lagt sé á tóbak og áfengi til íþróttaþarfa, renna til að styrkja kaup á tilbúnum áburði, að vísu má segja, að það séu ekki óeðlilegar hugleiðingar, sem liggja til grundvallar slíkum tillögum. En hversu þarft sem það mál er, sem vakir fyrir hv. flm. brtt. á þskj. 130, segir mér lítt hugur um, að hún eða þessi óeðlilegu tengsl við málið, sem fyrir liggur, sé sigurvænleg.

Íþróttir efla heilsu og þroska. Það er dagsatt. En fagnaðarerindi þeirra er varla einhlítt til sáluhjálpar. Fyrr á öldum buðu trúarbrögðin fram það eina nauðsynlega. Á viðreisnaröld landsins, öld Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, sáu menn, að fleira þurfti við. Og hvernig gátu menn orðið þroskaðir og stæltir á þeim tímum án íþróttaþjálfunar nútímans? — Nú eru það íþróttirnar, sem allt eiga að lækna. En er það ekki að taka málið of einfalt og létt? Þess bið ég menn líka að minnast, að íþróttamálin eru enn í reifum hér á landi, þótt þetta frv. yrði samþ. eins og það er, og margt verður hvort sem er að bíða betri íhugunar á því sviði. Af þessum ástæðum og fleiri finnst mér hollast, ef hægt væri, að miðla nú málum og gera öllum nokkuð til geðs. Þá legði ég það fyrst til, eins og stungið hefir verið upp á, að allar brtt. verði teknar aftur til 3. umr. og reynt með viðræðum hv. fjvn. og aðila að ná samkomulagi — og athuga, hvort það þykir yfirleitt óhætt að leggja aukagjald á áfengi til tekjuöflunar fyrir nauðsynjamál eins og íþróttir eða áburðarkaup. Einhver leið þyrfti að finnast til að fullnægja að nokkru leyti báðum þeim þörfum á þann veg, sem ekki fæli í sér neina framtíðarhættu.