02.04.1940
Neðri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

79. mál, mæðuveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil aðeins með fáum orðum lýsa afstöðu landbn. til brtt. þeirra, sem fyrir liggja. Það er þá fyrst brtt. frá mér á þskj. 232. Ég mun taka hana aftur og því ekki ræða hana nánar.

Þá er brtt. á þskj. 288, frá landbn., við brtt. á þskj. 206. Það er aðeins orðabreyt., sem óþarfi er að fjölyrða um. Jafnframt fellst landbn. á brtt. frá hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 206, en hún er fólgin í því, að veita heimild til þess, að búlausir menn, sem átt hafa fé, en beðið tjón af mæðiveikinni, skuli njóta sama stuðnings til þess að koma upp fjárstofni aftur og bændur. Það er kunnugt, að fjöldi einhleypra manna, sem í sveitum eru, á oft eða hefir átt töluverðan fjárstofn. Sama máli gegnir og um menn, sem vinna hjá foreldrum sínum, og þessi fjárstofn er í mörgum tilfellum það eina, sem bindur þessa menn við sveitina. Það verður því að teljast fyllilega réttmætt að láta þá njóta þessara fríðinda á borð við bændur. Þá verður og þetta ákvæði til ágóða þeim mönnum, sem í kauptúnum búa og eiga fáeinar kindur, og er það vel farið, því að kindaeign ýmsra kauptúnabúa, þó að lítil hafi verið, hefir í mörgum tilfellum orðið til þess að bjarga mönnum frá því að lenda á sveitinni. N. er því ljós nauðsyn þess, að mönnum þessum verði gert kleift að halda áfram þessari sjálfsbjargarviðleitni, og mælir því með, að brtt. þessi verði samþ. Til þess að brtt. falli eðlilega inn í lögin, virðist landbn. rétt að orða upphaf greinarinnar eins og tekið er fram í brtt. á þskj. 288.

Þá er brtt. frá landbn. á þskj. 312, sem er brtt. við sjálft frv., a-lið 3. gr., en hann fjallar um það, að ekki sé heimilt að veita öðrum mönnum vaxtastyrk en þeim, sem geta sannað það fyrir árslok 1937, að skuldin, sem styrkurinn er veittur vegna, sé vegna búrekstrar. Þetta ákvæði var sett á sínum tíma og gat dugað eins og þá stóðu sakir, en þar sem svo langt er síðan, hafa margir hlotið rétt til þess að verða þessa styrks aðnjótandi, og getur þetta ákvæði því ekki staðizt lengur, og leggur n. því til, að liðurinn orðist á þann veg, að skuldin sé sönnuð í ársbyrjun árið áður en styrkurinn er veittur. Þá þykir og réttara að taka það skýrt fram, að þau lán ein komi til greina með vaxtastyrk, sem stofnað er til vegna búrekstrar viðkomandi manns. Er þetta gert til þess að útiloka það, að menn reyni að fá vaxtastyrk til greiðslu vaxta á skuldum, sem myndaðar eru vegna annars, eins og t. d. maðurinn, sem reyndi að fá vaxtastyrk vegna skulda fyrir trillubátskaup.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 201, frá hv. þm. Skaftfellinga og 3. landsk., um að afnema þetta svokallaða 10 aura gjald. Á þetta getur landbn. ekki fallizt. Gjald þetta hefir staðið undanfarin ár, á meðan verð á sauðfjárafurðum hefir verið miklu lægra en líkur eru fyrir að það verði nú í nánustu framtíð. Það virðist því bera rangt að, að koma með till. um afnám þess einmitt nú, þegar sauðfjárafurðirnar eru að hækka í verði, jafnhliða því, sem hagur ríkissjóðs er mjög þröngur, en eins og kunnugt er, var gjald þetta sett til þess að halda uppi vörnum gegn útbreiðslu mæðiveikinnar. N. finnst því ekki laust við, að það sé jafnvel vöntun á þegnskap að koma einmitt nú með till. um að fella það niður. Þetta verður þeim mun undarlegra, þegar þess er gætt, hvílíkt afhroð á búpeningi sínum þeir menn hafa goldið, sem ekki hefir verið ætlað að leggja fram þetta 10 aura gjald. Það munu víst allir, sem þekkja, hvílíkur vágestur þessi fjársýki hefir verið, þar sem hún hefir herjað, þakka sínum sæla, á meðan þeir fá aðstöðu til þess að greiða þetta gjald og geta varið fénað sinn pestinni. Hitt skal ég viðurkenna, að mjög er vítavert, hvernig innheimtan hefir verið á gjaldi þessu, ef skýrsla sú, sem hv. þm. V.-Sk. las upp, er rétt, sem ég í raun og veru er ekki að draga í efa. Hann virðist vera eini maðurinn, sem gætt hefir skyldu sinnar um innheimtu þessa fjár. Hér þarf því einhverra umbóta við, til þess að bæta úr því sleifarlagi, sem verið hefir á innheimtunni, og það er ekki nema gott, að þetta upplýsist hér á Alþingi, svo hægt sé að gera þær ráðstafanir, sem þarf til þess að kippa þessu í lag. Mér finnst skýrslan ekki réttlæta það, að afnema beri gjaldið, heldur er hún þörf áminning til stjórnarvaldanna um að líta betur eftir innheimtu þess.

Ég skal taka undir það með hv. þm., að ef svo fer sem hingað til hefir farið samkv. hans skýrslu, þá er ekki nema eðlilegt, að fram komi kröfur frá þeim, er gjöldin greiða, um afnám þeirra. En þetta á þó auðvitað ekki að verða afleiðing skýrslu hans, heldur hitt, að gjöldin verði samvizkusamlega innheimt. Það er ekki rétt, að þeir, sem hafa verið verndaðir með þessu gjaldi, fái á þessum tímum að skjóta sér undan því.

Í skýrslu hv. þm. virtist gæta nokkurrar rangsýni, er hann las í byðu þær sýslur, er

mest afhroð guldu af völdum veikinnar og áttu því ekki að bera gjaldið, og hinar, er gjaldið áttu að bera. Hann las Mýra-, Borgarfjarðar-, Dala- og Húnavatnssýslur, sem hafa bókstaflega verið í flagi vegna mæðiveikinnar, í sömu andránni og Norður-Ísafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu, sem ekki er rétt að bera saman við fyrrnefndar sýslur, a. m. k. ekki Vestur-Barðastrandarsýslu. Á þessum stöðum hefir lítið sem ekkert verið um mæðiveiki og varnir kostaðar af ríkinu. Í Snæfellsnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu hafa menn aftur á móti orðið að verjast af eigin rammleik og með miklum persónulegum tilkostnaði. Það er ekki rétt að telja í einu númeri sýslur þær, sem hafa orðið að kosta varnirnar að mestu leyti sjálfar, og hinar, þar sem varnir hafa verið kostaðar aðallega af ríkinu, og hafa ef til vill sumar lítt orðið fyrir barðinu á þessum vágesti.

Ég skal svo ekki hafa mál mitt lengra, en ítreka það, að ég get ekki talið það rétt, að ríkið falli frá þessu 10 aura gjaldi að svo stöddu. Hinsvegar er ég hv. þm. þakklátur fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir lagt hér fram, og vona ég, að þær verði til þess, að gjöldin verði innheimt með meiri samvizkusemi en áður hefir verið.