11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

40. mál, alþýðutryggingar

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar og hefir afgr. það eins og sjá má á þskj. 370.

Málið er flutt að tilhlutun hæstv. félmrh. af fjhn. Nd., og allshn. þeirrar hv. d. hafði málið einnig til meðferðar og gerði á því ýmsar allvíðtækar breyt. Þegar n. fékk þetta mál til meðferðar, leit svo út sem skammt mundi verða til þinglausna, og n. leit svo á, að þær breyt., sem þegar höfðu verið gerðar á frv., væru frekar til lagfæringar. En hún þóttist einnig sjá, að nauðsyn væri á að gera ýmsar minni háttar breyt., en taldi hinsvegar mjög varhugavert að gera till. um það, eins og þá stóð, með það fyrir augum, að málið gæti dagað uppi með því móti; tók hún því þann kostinn fremur að mæla með frv. óbreyttu.

Þær breyt., sem nú liggur fyrir að gera á l. um alþýðutryggingar, eru að breyta til á þá lund, sem reynslan hefir sýnt frá því löggjöfin var samþ., að nauðsyn ber til, í sumum tilfellum til þess að herða á ýmsum ákvæðum l., en í sumum tilfellum til þess að rýmka ákvæði þeirra og auka réttindi þeirra, sem undir l. búa. Get ég sparað mér umr. um þetta með því að vitna til nál. allshn. Nd., því að þar er svo ýtarlega gerð grein fyrir því, í hvaða átt þessar breyt. stefna. Þar er ljóst tekið fram, hvaða breyt. á l. hér er lagt til, að gerðar verði.

Ég get ekki gengið framhjá að benda á, að n. hefir í einstökum atriðum viljað láta koma fram sitt álit um það, hvernig skilja beri atriði í frv., og vil ég sérstaklega taka fram, að það á við 13. gr. frv., sem er till. um breyt. á 40. gr. l. Þar er mælt fyrir í 3. mgr. þeirrar gr. um greiðsluskyldu útgerðarfélaga fyrir lögskráða sjómenn. Það mun hafa verið svo í l., að nokkur heimild var fyrir því, að útgerðarmenn skyldu greiða sjúkrasamlagsiðgjöld þeirra sjómanna, sem lögskráðir væru í þeirra þjónustu á skip. Þetta ákvæði hefir verið tekið upp í l. til þess að ekki gæti orðið ágreiningur um það milli sjúkrasamlaga annarsvegar og þeirra hinsvegar, sem greiða eiga þetta gjald. En ég hreyfði því í n., og n. var sammála um það, að svo geti borið til, að maður, sem skylt er að lögskrá, fari á skip án þess að vera lögskráður. Þá kemur upp spurningin um það, hvort útgerðarmanni er skylt að greiða fyrir hann iðgjöld, þó að hann hafi ekki verið lögskráður. Um þetta gæti orðið deila, og vildi ég láta þetta koma fram.

Fleira rákum við okkur á, sem eru ýms minni háttar atriði, sem ástæða hefði kannske verið til að gera skýrari og gleggri ákvæði um heldur en er í frv. En af áðurgreindum ástæðum taldi n. ekki tiltækilegt að gera brtt. um það á þessu stigi málsins.

Af því að ég geri ráð fyrir, að hæstv. félmrh. geri nokkur skil þeirri breyt., sem hér er á ferð, ætla ég að stytta mál mitt. En hér er komin fram brtt. við þetta frv. á þskj. 332, frá þeim hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. S.-Þ., sem gengur út á það, að b-liður 18. gr. falli niður. En hann er á þessa leið — með leyfi hæstv. forseta —:

„Um gjaldskylda sjóðfélaga í eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands samkv. lögum nr. 10 15. apríl 1928 og sjóðfélaga í eftirlaunasjóði Útvegsbanka Íslands fer eftir 49. gr. síðustu málsgr.

Það, sem hér er um að ræða, er, hvort starfsmannafélögin, sem hér er vitnað til, þar sem eru starfsmenn Landsbankans og Útvegsbankans, sem hafa myndað sér lífeyrissjóði, séu undanskilin því að borga gjald í lífeyrissjóð Íslands, sem er 7 kr. nefskattur og að viðbót hundraðshlutagjald af skattskyldum tekjum. Nú er vert að geta þess, að það var svo, þegar l. voru sett, að þá var til starfsmannafélag hjá starfsfólki Landsbankans, sem hafði myndað lífeyrissjóð, sem að einhverju leyti fékk þá þegar fríðindi um að þurfa ekki að greiða gjaldið að fullu, og var þá mynduð reglan um, að þetta fólk greiddi meðalgjald til lífeyrissjóðs, eins og tryggingarl. ákveða.

Nú er vert að geta þess, að þessi starfsmannafélög eru mjög víða til á landinu, sem hafa myndað sér lífeyrissjóði. Slíka sjóði hafa t. d. stofnað starfsmannafélag Eimskipafélags Íslands og ég hygg starfsfólk við olíufélögin hér, h/f Shell og Hið íslenzka steinolíuhlutafélag. Fleiri félög munu einnig hafa myndað sér þessa sjóði. Ef nú gengið væri inn á þessa reglu, sem lagt er til í brtt. á þskj. 332, er mjög hætt við, að skerðast mundu þær tekjur, sem lífeyrissjóður Íslands á að hafa eftir l. nú, og gæti því farið svo, að hann gæti ekki fullnægt sínum skyldum, sem l. nú gera ráð fyrir. Því að það eru líkur til þess, ef gengið er inn á þessa braut, að upp risu í föstum stofnunum, þar sem menn búa við trygga atvinnu, félög, sem mynduðu sér lífeyrissjóði og mundu vilja fá sig undanþegin gjaldinu, sem allur almenningur verður að greiða til lífeyrissjóðs Íslands. Það mundi enda með því, að til lífeyrissjóðs Íslands mundu greiða þeir einir, sem minni tekjurnar hafa í þjóðfélaginu, og sjóðurinn mundi þá verða svo mjög skertur til sinnar starfsemi, að ég hygg, að ég tali þar fyrir hönd meiri hl. n., að hún, af þessum ástæðum, sé á móti því, að brtt. þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. S.-Þ. verði samþ.