26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

77. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Magnús Jónsson:

Þegar þessi l. voru sett, var spáð mismunandi fyrir þessu fyrirtæki, og á margan hátt mátti segja, að hér væri ekki eingöngu um fjárhagsatriði að ræða, heldur einnig ýmislegt annað.

Með þessum l. voru námsbækur komnar undir ný skilyrði um gjald og annað þeim viðvíkjandi, og það var að mörgu leyti talið heppilegt. Nú er farið fram á að breyta þessum 1., og heldur til þess lakara að því er fjárhaginn snertir. Þess hefði verið að vænta, að hv. menntmn. hefði aflað sér nokkurra upplýsinga um það, hvernig þessi aðferð hefði reynzt. Það hefði verið ákaflega fróðlegt að fá að vita nánar um þetta. Hv. 5. landsk. talaði um, að margir hefðu borgað þetta með hangandi hendi.

Ég hefi heyrt marga kvarta undan því, að það væri ákaflega erfitt að fá þessar bækur, og að það, sem fengizt, væri mjög skorið við nögl, og að jafnvel mörg börn yrðu að vera um sömu bókina.

Annars væri sem sagt mjög fróðlegt að heyra nánar um þetta mál, hvernig það stendur fjárhagslega, og ég álít, að það hefði verið mjög fróðlegt, að frv. hefði fylgt reikningsyfirlit fyrir síðasta ár, svo að menn hefðu fengið glögga hugmynd um fjárhagsástandið.

Ég sé raunar, að í grg. er sagt, að áætlanir hafi staðizt vel. Annars hefir maður heyrt utan að sér, að þetta væri eiginlega allt í grænum sjó með fjárhaginn. Annars vildi ég skjóta því til hv. menntmn., hvort ekki mundi vera hægt að fá reikningsyfirlit yfir þetta eða að hún gæfi upplýsingar um það, hvort árangurinn af þessari útgáfu hefði svarað til þeirra vona, sem menn hafa gert sér til þessa fyrirtækis. Ég skal annars ekki vera að hreyfa neinum andmælum nú sérstaklega, þar sem formaður hv. menntmn. er ekki viðstaddur.