29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

22. mál, skógrækt

*Frsm. (Bjarni Ásgeirason):

Þetta frv. hefir nú legið alllengi hjá landbn., enda hefir hún athugað það allrækilega og borið það saman við gildandi l.

N. ber fram nokkrar brtt. við frv., á þskj. 220, og mælir eindregið með, að það verði samþ. með þeim breyt., sem þar er lagt til. Ég þarf ekki að segja mikið um þessar brtt. Þær eru flestar orðabreyt. Þó eru dálitlar efnisbreyt. við 8. og 11. gr., en þar eru milduð ákvæði gagnvart ábúendum þeirra jarða, sem þar um ræðir, og valdið til að beita ákvæðum gr. er fengið í hendur landbúnaðarráðh. Þ. e. a. s., honum er gefin heimild til að banna beit á skóglendi og sömuleiðis í 11. gr. gefin heimild til þess að beita eignarnámsheimild, en áður var þetta í höndum annara manna.

Þá leggur n. til, að tekinn verði nýr kafli upp í frv. um Skógræktarfélag Íslands. N. sendi Skógræktarfélagi Íslands frv. til athugunar, og stjórn þess lagði til, að tekin yrðu upp í frv. ákvæði, þar sem Skógræktarfélagið yrði viðurkennt sem opinber stofnun og fengi nokkurt vald í hendur um úthlutun styrkja til skógræktar og það skilyrði sett fyrir styrkveitingum til skógræktarfélaga, að þau gerist deildir í Skógræktarfélagi Íslands.

Fleira þarf ekki að taka fram um þetta. Till. eru flestar orðabreyt.